Þriðjudagur, 19. september 2017
Gerð ábyrg fyrir lögum sem hún vill breyta og embættisverkum annarra
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, vill láta breyta lögum um uppreist æru og raun afnema þau með öllu. Þetta hefur hún ítrekað sagt undanfarnar vikur.
Sigríður Á. Andersen hefur ekki skrifað undir neina pappíra sem veita uppreist æru.
Sigríður Á. Andersen sýndi engin gögn til neins sem hafði ekki aðgang að þeim, ýmist núna eða í tíð fyrri ríkisstjórnar.
Sigríður Á. Andersen hefur ekki lekið neinum upplýsingum um einkamál neins né brotið lög um upplýsingaskyldu yfirvalda.
Allt þetta kemur fram í grein eftir hana og enginn hefur gert sig líklegan til að véfengja. Eða jú, einhvers staðar sá ég skrifað að ráðuneyti Sigríðar hefði sjálft átt að ákveða hvað mátti upplýsa og hvað ekki í stað þess að leita eftir úrskurði. Mikið er þá vald ráðuneyta sem meðhöndla persónuupplýsingar orðið!
Um hvað snýst allt þetta mál þá? Jú, að einn stjórnarflokkanna vantaði afsökun til að segja sig úr ríkisstjórn!
Smáflokkur í útrýmingarhættu hleypti af blysi og allir keppast nú við að hlaupa á eftir blossanum.
Dýpra ristir íslensk pólitík ekki alltaf, því miður.
Sigríður aftur á fund þingnefndar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þið frjálshyggjufólkið í Sjálfstæðisflokknum skiljið bara ekki hugtakið ráðherraábyrgð. Samanber Hönnu Birnu og núna Sigríði Andersen.
Eðli máls samkvæmt ber ráðherra ábyrgð á öllu sem gert er í hans ráðuneyti og í hans nafni. En öll umræða um til dæmis landsdómsmálið segir manni að sjálfstæðismenn hafa ekkert lært og öllu gleymt
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.9.2017 kl. 11:30
Einhvernvegin hefði maður haldið að Dómsmálaráðuneytið hefði einhverja hugmynd um hvaða lög giltu og hver framkvæmd þeirra ætti að vera. Dómsmálaráðuneyti sem er ekki betur að sér í lögum landsins getur varla talist starfhæft.
Að Dómsmálaráðuneytið neiti að veita upplýsingar á þeirri forsendu að það viti ekki hvort það megi er frekar aumur fyrirsláttur og aðeins til þess að draga málið á langinn í þeirri von að allir fái leið og það sópist undir teppið. Sérstaklega í ljósi þess að útvöldum utanaðkomandi voru veittar upplýsingarnar.
Sigríður Á. Andersen hefur ekki lekið neinum upplýsingum um einkamál neins né brotið lög um upplýsingaskyldu yfirvalda. Það er það nýjasta í stöðunni. En taldi sig samt hafa brotið trúnað með því að leka upplýsingum sem hún taldi trúnaðarmál til forsætisráðherra. Það kom fram stuttu eftir að í ljós kom að hún hafði komið upplýsingunum til forsætisráðherra. Hún taldi sig því í upphafi vera að leka upplýsingum um einkamál og brjóta lög um upplýsingaskyldu yfirvalda.
Hún er "saklaus", en ekki vegna þess að hún taldi sig vera að fara að lögum og gera rétt. Ekki vegna þess að hún sé heiðarleg og fari þess vegna eftir lögunum. Hún er "saklaus" vegna þess að þegar hún taldi sig vera að brjóta lög þá var það rangt mat. Þetta er greinilega óheiðarlegur Dómsmálaráðherra með litla þekkingu á þeim lögum og reglum sem ráðherrann á að starfa eftir.
Gústi (IP-tala skráð) 19.9.2017 kl. 11:45
Hér blanda menn ýmist saman eplum og appelsínum (Hönnu Birnu-málið og þessu máli) eða átta sig ekki á tilgangi ýmissa ferla í stjórnsýslunni (t.d. hlutverki úrskurðarnefndar um upplýsingamál).
Það eina sem ég sé sem lagatæknilegt vafamál er það sem Sigríður skrifar hér:
"Ákvörðun um uppreist æru fer frá ráðuneyti inn á borð ríkisstjórnar og þaðan til forseta. Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar geta kynnt sér þau skjöl sem búa þar að baki. Efni þeirra skjala er því ekki trúnaðarmál fyrir þeim, hvað þá forsætisráðherranum sjálfum. Þegar af þeirri ástæðu getur það aldrei verið trúnaðarbrot að ræða slík mál við forsætisráðherrann sem hafði heimild til að kynna sér öll þau gögn á sínum tíma."
Spurningin er:
Úr því Bjarni gat kynnt sér öll gögn á sínum tíma mátti þá gera ráð fyrir því að hann mætti kynnast innihaldi þeirra nú áður en málið kæmi á borð ríkisstjórnar?
Eða varð Sigríður hér að gera ráð fyrir að úr því Bjarni hafði ekki kynnt sér gögnin á sínum tíma (og séð bréf föður síns) þá hefði hann fyrirgert rétti sínum til að kynnast þeim í júlí, og yrði að bíða með að sjá þau þar til þau kæmu á borð ríkisstjórnarinnar?
Lagaspekiningar mættu gjarnan ræða þetta, en áttum okkur á því að þetta er smámál eins og að segja vini frá því hvað er í jólagjafapakkanum til hans - pakka sem hann mun opna og sjá hvað er í, en ætti e.t.v. ekki að vita hvað er í fyrr en á aðfangadagskvöld.
Geir Ágústsson, 19.9.2017 kl. 12:10
Æi frændi, ekki brigsla mönnum um þekkingarleysi eða almenna heimsku sem ekki deila þínum skoðunum. Þessi vörn Sigríðar sem þú ert að hér að verja heldur ekki vatni. Þótt Björn Bjarnason haldi einhverju fram á sínu vefsvæði þá þýðir það ekki að það sé hið eina rétta. Enda byggja eftiráskýringar Sigríðar á hæpnum staðhæfingum sem erfitt er að véfengja án þess hreinlega að segja hana hagræða sannleikanum í þágu málefnisins sem kann að vera allt í lagi hjá einhverjum hluta sjálfstæðismanna en alls ekki alls þorra fólks.
Pólitískt framhaldslíf Sigríðar Andersen er í höndum kjósenda listans sem hún sækist eftir sæti á. Vonum bara að hún nái ekki kjöri. Það hlýtur að vera hægt að finna eina réttláta manneskju í spillingarflokknum þótt eg viti að það sé erfiðara en fyrir úlfalda að komast í gegnum nálarauga
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.9.2017 kl. 12:32
Hér tala menn tæpitungulaust og það er ágætt.
Sigríður er hér ásökuð um að "hagræða sannleikanum", sem sagt ljúga opinberlega, og um leið er hlaupið í felur og sagt að það sé erfitt að sanna það. Er þá sönnunarbyrðin á henni að afsanna fullyrðingar um að hún sé að ljúga eða hvernig er það nú sem hin nýju umræðustjórnmál virka?
En já það er rétt, að pólitískt líf hennar er í höndum kjósenda eins og vera ber, og fyrir mitt leyti vona ég að hún nái kjöri enda finnast varla meiri hugsjónamanneskjur á þingi - manneskjur sem vilja einlæglega minnka ríkisvaldið og fara ekki í felur með það.
Þá væntanlega í höndum sömu kjósenda og hafa haldið Steingrími J. Sigfússyni á þingi í yfir 40 ár sem er vægast sagt dapurlegt.
Geir Ágústsson, 19.9.2017 kl. 13:06
Ég vil svo taka fram að ég ásakaði engan um heimsku. Ég spyr bara hvað menn haldi að úrskurðarnefnd upplýsingamáli geri og hvers vegna sú nefnd er til. Einnig velti ég því fyrir mér hvort menn geri engan greinarmun á því að leka upplýsingum um einkamál viljandi og því að opna ekki á upplýsingar nema allur vafi sé fjarlægður á því að það sé í lagi.
Geir Ágústsson, 19.9.2017 kl. 13:08
Til hvers er úrskurðarnefnd um upplýsingamál? Nú auðvitað svo borgararnir geti kært þangað ef eitthvað stjórnvald neitar að veita aðgang að gögnum sem almenningur á rétt á aðgangi að. Það var einmitt gert í þessu tilfelli af fréttamanni sem hafði verið synjað um gögn en niðurstaða nefndarinnar var sú að ráðuneytinu hefði verið óheimilt að synja um aðgang að þeim.
Það þarf nú ekki að saka dómsmálaráðherra neitt um að hagræða sannleikanum í málflutningi sínum, ekki frekar en saka þarf páfann um að vera kaþólskur. Hún byrjaði á því að viðurkenna í þremur mismunandi viðtölum við fjölmiðla að hafa brotið lög. Það leiddi til þess að ríkisstjórnin sprakk. Svo heldur því núna fram að hafa ekki brotið nein lög heldur hafi það bara verið kjánaskapur að slíta stjórnarsamstarfi eftir fyrri játningar hennar. Sömu aðferð notaði hún um dóm héraðsdóms um val á dómurum í Landsrétt þegar hún reyndi að klína allri sökinni á dómnefndina þó svo að í dómnum komi skýrt fram að ráðherra hafi líka brotið lög við meðferð málsins.
Geir: "Sigríður Á. Andersen hefur ekki lekið neinum upplýsingum um einkamál neins né brotið lög um upplýsingaskyldu yfirvalda"
Þetta er rangt því samkvæmt úrskurði nefndarinnar var einmitt óheimilt að halda umræddum gögnum leyndum fyrir þeim sem óskað höfðu eftir aðgangi að þeim. Jafnframt er rangt að hún hafi ekki lekið neinum upplýsingum um einkamál, því hún viðurkenndi að hafa miðlað slíkum upplýsingum til flokksformanns síns á sama tíma og hún hafði opinberlega tekið þá afstöðu að afhending sömu upplýsinga væri óhemil. Þó úrskurðarnefndin hafi snúið því við stendur þá eftir brot gegn jafnræðisreglu með því að afhenda einum aðila upplýsingar á meðan öllum öðrum var neitað um þær.
Guðmundur Ásgeirsson, 19.9.2017 kl. 14:00
Guðmundur,
Þrennt í þessu:
1) Er það rétt eða ekki að öll gögn varðandi uppreist æru séu aðgengileg öllum ráðherrum (en til vara: Verði það ef málið fer áleiðis til forseta)? Og að Bjarni Ben. hafi þá haft aðgang að þessum sögnum (enda á málið rætur sínar að rekja til fyrri ríkisstjórnar)? Og að Bjarni sé að þessu leyti ekki bara einhver maður úti í bæ?
2) Var það ekki svo að úrskurðarnefndin úrskurðaði að sumum hlutum gagnanna ætti ekki að veita aðgengi að? Og að það sé einmitt hennar hlutverk að finna hið þrönga einstigi sem einkamál vs. upplýsingafrelsi er? Varla vilja menn að ráðuneyti hafi sjálfdæmi í svoleiðis vafamálum.
3) Sigríður segir að eftir úrskurð úrskurðarnefndar hafi ráðuneytið haft áfrýjunarrétt sem það ákvað að nýta ekki. Er þá hægt að álasa ráðuneytinu fyrir að ganga lengra en bara að fullvissa sig um hvaða gögn mátti afhenta og hver ekki?
Og bónusspurning: Er þetta ekki stormur í vatnsglasi sem Óttarr kom af stað til að fela fylgisflótta frá flokki sínum?
Geir Ágústsson, 19.9.2017 kl. 14:43
"Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, vill láta breyta lögum um uppreist æru og raun afnema þau með öllu."
Í fyrsta lagi, hvað hún vill kemur málinu ekkert við ... en að hún skuli yfir höfuð ganga með "ég vil" fyrir brjóstinu, segir að hún er óhæf í starfi. Ekki bara það, heldur "brotleg" gegn mannréttindalögum.
Sagt "tæpitungulaust", þá á svona fólk að flytja til Saudi Arabíu, eða einhvers "nastistaríkisins" sem það á heima í.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 19.9.2017 kl. 14:54
Geir:
1) Nei það eru eingöngu þau gögn sem fara til forseta sem þarf fyrst að leggja fyrir ríkisstjórn. Eins og fram hefur komið er þar aðeins um að ræða ákvörðun um veitingu uppreistar æru en ekki fylgigögn svo sem umsagnir. Ef umsagnirnar hefðu hins vegar verið lagðar fyrir ríkisstjórn sem fylgiskjöl þá er rétt að hafa í huga að Bjarni var einmitt fjármálaráðherra í þeirri ríkisstjórn sem um ræðir og hefði þá getað séð undirskrift föður síns á viðkomandi umsögn en þá hefði líka verið algjör óþarfi fyrir dómsmálaráðherra að upplýsa hann sérstaklega um það í sumar.
2)Það rétt að í úrskurði nefndarinnar er kveðið á um að afmá skuli tilteknar upplýsingar á borð við netföng og símanúmer aðila. Það er sú ákvörðun sem ráðuneytið hefði með réttu átt að taka en ekki að neita því alfarið að veita aðgang að gögnunum í heild. Þegar slík beiðni berst stjórnvaldi ber því skylda til að taka ákvörðun um að veita eða synja um aðgang og hefur svo sem sjálfdæmi um það en á hinn bóginn takmarkast það sjálfdæmi einmitt af því að sá sem synjað hefur verið um aðgang getur kært slíka ákvörðun til úrskurðarnefndar sem tekur ákvörðunina þá til endurskoðunar.
3) Það er ekki rétt að ráðuneytið hafi haft neinn áfrýjunarrétt sem það ákvað að nýta ekki, því samkvæmt upplýsingalögum eru úrskurðir nefndarinnar endanlegir á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds. Á hinn bóginn er eins og alltaf hægt að höfða mál fyrir dómstólum til að leita ógildingar á stjórnvaldsákvörðun. Allir hafa þann rétt, líka stjórnvöld, en ákvörðun um slíka málshöfðun væri sjálfstæð ákvörðun og myndi ekki fela í sér áfrýjun úrskurðarins í eiginlegum skilningi þess hugtaks.
Svarið við bónusspurningunni er að nei það getur varla talist vera stormur í vatnsglasi að dómsmálaráðherra hafi játað lögbrot í þrígang og vilji samt ekki kannast við neitt misjafnt. Ég treysti mér aftur á móti ekki til að leggja neitt mat á hvaða hugsanir Óttarrs eða samflokksmanna bjuggu að baki ákvörðun þeirra um að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu.
Guðmundur Ásgeirsson, 19.9.2017 kl. 15:16
Mín viðbrögð
ég skráði mig í Sjálfstæðisflokkinn núna áðan
Grímur (IP-tala skráð) 19.9.2017 kl. 18:59
Ég hef aldrei kosið sjálfstæðisflokkinn, en ég ætla að gera það núna. ;)
Jón Steinar Ragnarsson, 19.9.2017 kl. 19:11
Stjórnvöld eiga ávallt að sýna varkárni með birtingu persónulegra upplýsinga. Það er því mun betri nálgun að sýna slíka varkárni og láta þá reyna á það fyrir úrskurðarnefnd og birta þá þær upplýsingar sem nefndin telur við hæfi. Hinvegar væri vont ef ráðuneytið birti upplýsingar sem úrskurðarnefnd myndi síðar dæma að væri óheimilt að birta. Slíkt yrði ekki tekið aftur.
Það er líka gaman að bera þetta mál saman við mál Hönnu Birnu. Ef Hanna Birna hefði birt þær upplýsingar á opinberan hátt sem var lekið á sínum tíma hefðu þá þetta sama fólk sem er að fara af hjörunum yfir þessu máli fagnað? Nei ætli það hefði ekki gert kröfu um uppsögn ráðherra. Semsagt ráðherra þarf að segja af sér fyrir birtingu upplýsinga og ráðherra þarf að segja af sér fyrir að birta ekki upplýsingar. Allt eftir því hvernig vindar blása hjá sjálfskipuðum siðferðisvitum þessa lands sem einhverrja hluta vegna eru allir vinnstrimenn sem snúast eftir því hvernig henntar þeirra pólítík.
Ég held Geir að það skipti engu máli hvað er sagt. Þetta fólk langar svo óskaplega mikið til að geta klínt pólítíska andstæðinga sína persónulegum skít að engar skýringar eða staðreyndir fá breytt þeirra trú.
Þetta mál er þó einhverskonar heimsmet í að búa til mikinn reyk þrátt fyrir að ekki finnist vottur af glóð og hvað þá eldur. Eitt eru vinstrimenn góðir í það er að búa til hávaða.
Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 19.9.2017 kl. 22:28
Það vantar a.m.k. ekki að menn hrópi hér "lygar" og "lögbrot". Það verður þá væntanlega reynt á slíkt fyrir dómi?
Geir Ágústsson, 20.9.2017 kl. 06:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.