Þriðjudagur, 19. september 2017
Ringulreiðin heldur áfram, eða hvað?
Skoðanakannanir benda nú til að á þingi verði hafsjór af smáflokkum sem fá menn kjörna á þing auk tveggja "turna" - Vinstri-grænna og Sjálfstæðisflokks.
Er líklegt að kosningar fari með þeim hætti? Ég held ekki.
Ég held að Viðreisn, Björt framtíð og jafnvel Samfylkingin svo gott sem þurrkist út. Píratar munu standa í stað. Fylgið hleðst enn frekar utan á turnana tvo. Flokk fólksins veit ég lítið um en margir tala illa um hann sem bendir til þess að hann fái mikið óánægjufylgi og stækki eitthvað. Framsóknarflokkurinn hefur ekki gert neitt að ráði undanfarna mánuði en er samt með 10% fylgi og stendur því kannski í stað (nema Lilja Alfreðsdóttir verði leidd fram á vígvöllinn, en hún höfðar sennilega vel til margra).
Hvernig á svo að púsla saman stjórn?
Píratar eru að breytast. Þar er Helgi Hrafn nú leiddur fram sem forystumaður í stað Birgittu. Kannski þýðir það að það verður hægt að ræða við Pírata, og að hann geti því myndað stjórn með öðrum hvorum turninum.
Framsóknarflokkurinn verður líklega viðræðuhæfur líka hvort sem þær viðræður eru við Vinstri-græna eða Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur alltaf sínar kröfur en fái hann þær uppfylltar er hann yfirleitt til í tuskið.
Sennilega mun enginn vilja snerta Flokk fólksins með priki svo hann fær að vera hávær óánægjuflokkur og jafnvel vaxa og dafna í þeirri stöðu.
Vonandi tala flokkarnir skýrt fyrir kosningar. Vilja þeir stærra ríkisvald eða minna? Vilja þeir hærri skatta eða lægri? Vilja þeir færa völd til einstaklinga eða ríkis og fyrirtækja? Kjósendur sem heyra svokallaðan hægriflokk tala um stærra ríkisvald verða bara ringlaðir og enda á að kjósa vinstriflokk. Kjósendur sem heyra vinstriflokk tala um samkeppnishæfni og atvinnusköpun verða líka bara ringlaðir.
Það er rangt sem sumir segja að hugtökin "hægri" og "vinstri" séu úrelt. Þú ert annaðhvort á því að ríkið eigi að ráða meira en í dag eða minna. Og flokkarnir eiga að tala skýrt en ekki reyna að fela sig á bak við orðagljáfur.
Með jafnt fylgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.