Aðeins um að vinna á alvöruvinnustað

Ríkisstjórnarmeirihlutinn er fallinn og framundan eru líklega kosningar. Það er eins og það er. Þingmenn, ráðherrar og aðrir hafa keppst við að tjá sig með mótsagnarkenndum hætti við öll tækifæri og blaðamenn útvarpa gjarnan hverju sem er til að fá sem flestar fyrirsagnir. Flest er fyrirsjáanlegt og til merkis um að enginn vilji taka ábyrgð á neinu frekar en skólabarn sem brýtur rúðu í steinakasti en þrætir svo fyrir það. 

Ein ummæli vöktu samt athygli mína.

Óttarr Proppé lét hafa eftirfarandi eftir sér:

„Það er einhver strúktur í þessum flokki sem byggir á því að leiðtoginn ræður öllu og allt stjórnast af hans hagsmunum, svo dansa allir eftir því. Það er ekki andi nútímans að það sé bara „pabbi“ sem ráði öllu.“

Ég spyr mig núna: Hefur Óttarr aldrei unnið á alvöruvinnustað? 

Það er ekki svo að þegar menn vinna saman þá ráði einhver einn öllu. Hins vegar eru flest fyrirtæki rekin þannig að þar er einn forstjóri og hann leggur línurnar. Hann sendir skilaboð til yfirmanna sem senda þau áfram til undirmanna. Hann ákveður hvar þarf að forgangsraða og hvað má bíða. Hann stillir saman mannskapinn þannig að tími hans og orka nýtist sem best til að ná sameiginlegum markmiðum skipulagsheildarinnar. 

Um leið hlustar þessi leiðtogi á sína undirmenn. Hann tekur við rökum með og á móti tilteknum ákvörðunum. Stundum verður það til þess að hann skiptir um skoðun og forgangsraðar upp á nýtt. Stundum ekki.

Yfirmaðurinn getur ákveðið að halda opna fundi þar sem allir eru með eða smærri fundi þar sem hlutir eru ræddir dýpra. Stundum velur hann blöndu af báðu.

Yfirmaðurinn á að vera í stöðu til að sjá ef eitthvað er að fara úrskeiðis en um leið ekki að vera með puttana í öllum smáatriðum. Ef einhver ætlar að fara sér að voða (t.d. láta ljósmynda sig í auglýsingaskyni í sölum Alþingis) er yfirmaðurinn ekki alltaf í stöðu til að koma í veg fyrir það. Með því að horfa vítt og breitt yfir völlinn og láta aðra um smáatriðin á hann að fá yfirsýn sem nýtist öllum til lengri tíma. 

En hvað kemur þetta forsætisráðherra við og fyrrum samstarfsráðherra hans?

Jú, ef menn ætla að vinna saman svo vel fari þarf að skipta verkum. Menn fá sín ábyrgðarsvið sem þeir sinna í samræmi við markmið sem skipulagsheildin hefur sett sér.

Sumir, sem hafa e.t.v. litla reynslu af því að vinna í skipulagsheildum, kalla þetta kannski einræði eða föðurveldi eða sjúkan kúltúr. Aðrir, sem vita betur, skilja kosti þeirrar verkaskiptingar sem flestir (en ekki allir) vinnustaðir tileinka sér. 

Ég veit ekki hvernig Bjarni Benediktsson er sem yfirmaður. Ég veit heldur ekki hvernig Óttarr er sem undirmaður. Kannski þurfa báðir að hverfa af þingi og fá sér alvöruvinnu í einhvern tíma til að læra að vinna með öðrum, en kannski bara annar þeirra. 

Vonum að næsta ríkisstjórn starfi betur saman. Ísland þarf á því að halda. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband