Fimmtudagur, 31. ágúst 2017
Ábyrgð, einhver?
Íslenskir hægrimenn eru í margskonar vanda. Eini flokkurinn sem að einhverju leyti hýsir þá - Sjálfstæðisflokkurinn - er með dvergfylgi miðað við oft áður. Hin svokallaða hægristjórn er næstum því jafnóvinsæl og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Í Reykjavík er flokkurinn vissulega stærsti einstaki flokkurinn en á enga bandamenn og kemst því ekki í borgarstjórn. Hugtakið "hægrimaður" á Íslandi er yfirleitt tengt við klíkuskap og vinaráðningar en ekki verðmætaskapandi frumkvöðlavinnu. Þeir hægrimenn sem þó hafa völd og áhrif tala ekki hátt um skattalækkanir, skaðsemi velferðarkerfisins og nauðsyn þess að koma ríkisvaldinu úr allskyns rekstri.
Er skrýtið að hægrimenn séu settir út í horn? Nei.
Það sem íslenskir hægrimenn eru að gera, og er að skaða þá, er að taka þátt í stjórnmálaleik vinstrimanna.
Hvað gera vinstrimenn? Þeir lofa allskyns réttindum, hlunnindum og útgjöldum sem á einn eða annan hátt eiga að koma eins og ókeypis regn af himnum ofan. Það bitnar bara á "þeim ríku" sem hafa "breiðu bökin". Þessir "ríku" munu bara sitja kyrrir og þola auknar byrðar. Peningarnir eru bara færðir aðeins til og allir eru sáttir!
En hvað ættu hægrimenn að gera öðruvísi? Hver er valkosturinn við eilíft tal um réttindi og bætur?
Ein hugmynd er sú að tala um ábyrgð. Ég gef hinum magnaða Jordan Peterson orðið í myndbandinu hér að neðan. Er ekki eitthvað til í þessu?
Ég hvet alla til að kynna sér Jordan Peterson og verk hans. Enginn kemur óbreyttur út úr slíkri vegferð!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.