Svifaseint, úrelt og rándýrt kerfi

Opinber rekstur á strætisvögnum er nánast jafngildi þess að halda úti flota af hestakerrum sem keyra varning um landið á meðan einkabílarnir þjóta framhjá.

Flestir strætisvagnar keyra tómir. Á litlum og afmörkuðum álagspunktum eru þeir svo alltof litlir. Aðstaða fyrir farþega, t.d. Mjóddin og Ártún, er vægast sagt léleg. Sé hún borin saman við t.d. aðstöðu Gray Line í Holtagörðum er freistandi að byrja hlægja upphátt. 

Reksturinn þenst sífellt út í kostnaði. Slíkt gerist jú þar sem samkeppni er svo gott sem bönnuð með lögum. 

Allir eru á einn eða annan hátt ósáttir. 

Aðlögunarhæfni kerfisins er svo lítil að ef eitthvað dýr byggi við sömu aðlögunarhæfni þá væri tegundin útdauð fyrir löngu. Strætisvagnar eru dódó-fuglar gatnakerfisins. 

Það má kallast kraftaverk að það sé loksins hægt að borga í strætó með öðru en hrúgu af klinki.

En hver er hinn valkosturinn? Að allir kaupi bíl?

Nei. Hann er sá að rekstur almenningsvagna og leigubifreiða og annarra "skutlara" verði gefinn frjáls. Það er mjög skynsamlegt fyrir mjög marga að ferðast um í hópferðabifreiðum eða leigubílum, t.d. til að komast til og frá vinnu daglega eða heim frá djamminu. Það er eftirspurn eftir slíku. Ríkiseinokunin svarar ekki þessari eftirspurn.

Grundvallargalli í allri hugsuninni á bak við kerfið er að flestir séu alltaf að fara sömu leiðina fram og til baka og hafi að auki tíma til að bíða eftir því að geta skipt um vagn eða þolinmæði til að þræða heilu úthverfin til að komast á áfangastað. Það er fyrir löngu búið að finna upp sveigjanlegri leiðir til að koma fólki á milli staða án þess að allir keyri um á einkabílum. 

Er ekki kominn tími til að gefast upp á þessu í opinberum rekstri og leyfa einkaaðilum að keyra bíla?


mbl.is Leið 6 verði stytt og tíðnin aukin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Áburðarverkssmiðjan í Gufunesi var alla tíð með sérstakan bíl í því að keyra vaktavinnu karlana. Álverið sömuleiðis.

Bónus skipulagði verslunarferðir milli Hveragerðis og bæjana niður við ströndina þegar sveitarfélög voru sameinuð.

Að skipuleggja almenningssamgöngur er mikið vanda verk og ekki á færi nema sérfræðinga og ekki gert á A4. Hvað kallast það nú aftur, aðgerðargreining. Það er fræðigrein sem hefur þróast og á upptök sín í seinni heimstyrjöldinni í innrásinni í Normandí. Frjáls samkeppni leysir ekki þetta verkefni. Það mundi enda eins og í Tívolí allir keyra á alla og á eftir öðrum. Hver á t.d. sjá um biðstöðvar o.þ.h.

Nú stendur til að rífa öll glerskýlin upp af því að þau eru einka. Er það ekki aukakosnaður. miðað við að hafa einhverja festu í málinu. 109 millur í brotnar rúður. Væri ekki hægt að nota innlent efni t.d. steypt skýli eða ál. Maður spyr sig.

Að einhverju leiti getur verið rétlætanlegt að vera með útboð á verkefnum til að rýna í kosnaðartölur.

Voru ensku járnbrautirnar ekki einkavæddar hvernig fór það? Getur einhver kunnugur málinu rifjað það upp. Í einkavæðingu er alltaf miðað við lá verð og hungurmörk og rekstraraðili er að lifa á afskriftum og nær ekki eðlilegri endurnýjun. Þetta er nú sett hérna inn til hugleiðingar. Það er svo tómlegt hér á síðunni.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 25.8.2017 kl. 12:07

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Þorsteinn,

Takk fyrir vangaveltur þínar. Já, hér er stundum tómlegt (nema þegar talið berst að innflytjendum eða þegar ég skýt á vinstristjórn Jóhönnu).

Það sem stundum er gert í einkavæðingu til að "temja markaðsöflin" er að innleiða verðlagsstjórn á vörur þeirra og þjónustu. Það er svo að verðlagið fái ekki að laga sig að raunverulegum markaðsaðstæðum og láta þannig stjórnmálamennina líta illa út. Fyrir vikið fæst ekki inn fé til viðgerða, viðhalds og uppbyggingar. Og hver fær þá sökina? Frjáls markaður, hvað annað.

En jú, einkaaðilar geta alveg keyrt farþega en framtak þeirra er oftar en ekki kæft með valdboði. Sem dæmi má taka litla sögu úr New York borg:

https://www.theatlantic.com/national/archive/2011/10/the-illegal-private-bus-system-that-works/246166/

Það þarf a.m.k. að byrja hugsa út fyrir rammann í þessum málum því núverandi kerfi virkar ekki, sama hvað miklu fé er hent í það.

Geir Ágústsson, 25.8.2017 kl. 13:34

3 identicon

Þeir sem lofa að fækka hraðahindrunum og þrengingum fá atkvæði mitt í næstu borgarstjórnarkosningum (230 dagar?). t.d. eru 5 umferðaljós og 3 hraðahindranir á Snorrabraut ásamt þrengingum.

Þegar ég var í Istanbul þá var þar kerfi af leigubílum sem keyrðu sömu línu og strætó. Fólk bara hoppaði um borð eftir því sem hentaði. Það eru til hinar og þessar lausnir en núverandi meirihluti í Reykjavík vill ekki sjá þær

Grímur (IP-tala skráð) 25.8.2017 kl. 16:42

4 Smámynd: Sigurður Antonsson

Góð ábending hjá Grími. Leigubílar gætu leyst margan vanda Strætó. Eins farþegaflutninga á milli bæjarfélaga á Suð-Vesturlandi, ef menn vildu kynna sér álíka rekstur í ýmsum löndum. Deila fargjaldinu eftir sanngjörnum reglum. Þá eru óskráðir og ónúmeraðir leigubílar víða vandamál. Í mörgum borgum Austurlanda þykir sjálfsagt að setjast inn í opna bíla og láta flytja sig gegn sanngjörnu gjaldi með ótal öðrum farþegum. Þá ekur einn og annar tekur við gjaldi.

Sigurður Antonsson, 25.8.2017 kl. 23:58

5 identicon

Suma hluti, þarf að einkavæða ... aðra hluti, má alls ekki einkavæða.

Sem dæmi má nefna einkavæðingu rafkerfis í Svíþjóð.  Rafmagns og Símalínur voru einkavæddar hér, afleiðingin er sú að við þurfum að greiða afnot af rafmagnslínunum ... sem við greiddum fyrir laggnina á, með skattinum.  Sumir myndu segja "kostar að halda þessu við". Bull og kjaftæði, hér eru engar byggðarlínur sem fjúka niður árlega ... þetta er dæmi um eitthvað, sem á að vera í "ríkiseign".  Síðan kemur "framboðið" á rafmagni ... að sjálfsögðu á að vera "samkeppni" þar. Frjálst framboð ... sama gildir "strætó", kerfið á að vera í rekstri ríkisins ... en það má bjóða út hverjir "keyra" á hverjum þætti þessa.

Þetta er mín skoðun á málunum ... það væri illa af ráðið, ef göturnar yrðu í einkaeigu í landinu.  Svo Páll gæti "bannað" mönnum að keyra á götunni sinni ... eða hugsið ykkur nú að Kínverjar keyptu vestmannaeyjar ... og ákveddu að hún væri Kína, en ekki Ísland.

Einkavæðingu, skal man fara varlega í.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 26.8.2017 kl. 10:25

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Það má vel vera að ríkiseinokun sé besta fyrirkomulagið í einhverju. Það er ekki mín skoðun en ég sé margt af því sem styður við slíka skoðun.

við erum þá að tala um fyrirkomulag þar sem:

- Samkeppni er bönnuð, beint eða óbeint
- Verðlag ræðst ekki af framboði og eftirspurn
- Ákvarðanir um uppbyggingu, útvíkkun, endurnýjun og tækninýjungar ráðast ekki af sömu hvötum og t.d. hjá frjálsum símfyrirtækjum heldur af embættismönnum eða fulltrúum hins opinbera
- Ef verðlag hækkar á meðan gæði eða þjónusta rýrnar myndast ekki hróp á nýja samkeppnisaðila. Það er hægt að skrifa bréf og vera ósáttur en þjónustan heldur áfram að rýrna og hækka í verði
- Neytendur geta ekki búist við því að allt verði bæði betra og ódýrara, eins og t.d. flókin tækni eins og símar, bílar og tölvur, heldur verra og dýrara

Geir Ágústsson, 26.8.2017 kl. 15:26

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Og já, það er magnað að menn treysti ekki einkaaðilum fyrir því að strengja línur á milli tveggja staða (dreifikerfi rafmagns) eða fletja út blöndu af tjöru og grjóti (vegir), en setjast svo hiklaust upp í bifreið úr verksmiðju einkaaðila þar sem milljón hlutir geta farið úrskeiðis og endað á dauðaslysi.

Geir Ágústsson, 26.8.2017 kl. 15:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband