Vel gert tollgæsla! Svarti markaðurinn fagnar!

Tollverðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar haldlögðu fyrr í þessum mánuði 78 karton af sígarettum sem karlmaður á þrítugsaldri var með í farangri sínum.

Því miður mun þetta ekki hafa neitt upp á sig annað en að hækka götuverð á tóbaki. Hið háa verð laðar svo að sér enn fleiri einstaklinga sem freista þess að smygla tóbaki inn í landið. Menn fá bletti á sakaskrá sína fyrir það eitt að hafa flutt löglegan neysluvarning frá einu landi til annars. 

En jú auðvitað gilda lög og reglur og allskonar þannig. Þau lög eru hins vegar með einkennilegan ásetning sem er sá að hafa áhrif á það hvernig fullorðið fólk fer með eigin líkama. 

Nú vita allir að það er aðallega lágtekjufólk sem reykir enda gera sér allir grein fyrir að reykingar eru slæmar fyrir heilsuna. Lágtekjufólk vinnur oft langa vinnudaga og er undir miklu álagi, bæði líkamlega og fjárhagslega. Nikótínfíknin þrífst og dafnar í slíku umhverfi. Reykingamaður undir álagi er töluvert ólíklegri til að hætta að reykja en reykingamaður sem getur slakað á, tekið löng og dýr námskeið og keypt rándýr efni í apóteki til að slá á nikótínfíknina.

Hinn frjálsi markaður er að vísu búinn að finna upp nánast gallalausa aðferð til að losa sig við tóbakið: Rafsígarettur. Engu að síður er reynt að tortryggja ágæti þeirra líka.

(Ég hef sjálfur reykt rafsígarettur - og ekkert annað - undanfarin 3 ár og get ekki hrósað þeim nógu mikið.)

En já, höldum áfram að elta uppi tóbakssmyglara á flugvöllum. Það er ekki eins og tollverðir hafi annað og betra að gera. Hinn svarti markaður bregst hratt og örugglega við. Hærra verðlag fjölgar vongóðum smyglurum. Hátt búðarverð á tóbaki viðheldur stanslausri eftirspurn eftir smyglvarningi. Og lágtekjufólkið heldur áfram að reykja.


mbl.is Með 78 karton í farangrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband