Fimmtudagur, 24. ágúst 2017
Bannað að gagnrýna Costco!
Jón Gerald Sullenberger leyfir sér nú að gagnrýna ýmislegt í sambandi við Costco. Ekki er hann samt að beina spjótum sínum að Costco í sjálfu sér heldur kerfislægum vandamálum á Íslandi, eða þannig skil ég hann.
Sem stendur er Costco nýjasta óskabarnið á Íslandi og nánast helgispjöll að gagnrýna nokkuð í tengslum við þá annars ágætu verslun. En rennum nú aðeins yfir nokkur atriði sem tengjast Costco, beint eða óbeint.
Costco virðist sýnilega vera að selja eitthvað af vörum á svokölluðu undirverði, þ.e. selur vörur með tapi. Þetta er gert til að lokka viðskiptavini í búðina sem kaupa svo allskonar annan varning sem er seldur með hagnaði. Þetta er víst bannað á Íslandi. Costco gerir þetta samt. Það er ósanngjarnt. Á frjálsum markaði ættu allir að mega selja með hagnaði eða tapi eins og þeim sýnist. Í viðskiptum getur verið skynsamlegt að bjóða ríflega afslætti á ákveðnum vörum af ýmsum ástæðum, t.d. til að lokka til sín viðskiptavini, hreinsa út lager eða byggja viðskiptasambönd. Verðlag kemur yfirvöldum einfaldlega ekkert við.
Costco merkir ekki vörur samkvæmt íslenskum lögum. Það þurfa aðrar verslanir að gera með tilheyrandi kostnaði. Það er ósanngjarnt. Er kannski búið að þvinga Costco til hlýðni eins og aðrar verslanir? Það veldur hækkun verðlags en eitt skal yfir alla ganga. Yfirvöld ættu að stefna að því að einfalda lögin svo bandarískar merkingar, sem eru nú ekkert slor í sjálfu sér, dugi.
Costco er að kynda undir mjög mikla samkeppni á smásölumarkaði á Íslandi sem er gott. En af hverju mega samkeppnisaðilar ekki bregðast við, t.d. með því að sameinast? Nei, það þóknast ekki yfirvöldum. Samkeppnisaðilum Costco skal haldið sundruðum og veikbyggðum. Hagkaup og Bónus eru bara litlar sjoppur við hlið Costco. Yfirvöld eiga ekki að skipta sér af því hver sameinast og hver ekki.
Svo já, það er ýmislegt sem yfirvöld eru að gera sem beinlínis tryggir sterka stöðu Costco. Costco er ekki fyrir alla. Þetta er gímald sem selur í stórum umbúðum. Flestir kjósa að versla nær sér og margir vilja geta keypt í litlum umbúðum án þess að borga miklu meira fyrir einingarnar en þeir sem versla stórt. Sérhæfing er líka eitthvað sem samkeppni leiðir af sér og hún á að fá að þróast á markaðsforsendum.
Vandamálin í kringum Costco eru ekki Costco að kenna heldur afskiptasömum yfirvöldum sem eiga að hypja sig úr veginum.
Ófyrirséðar afleiðingar af Costco | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:14 | Facebook
Athugasemdir
Ætla að benda þér á, að "selja með tapi" er hættulegt.
Til dæmis, geta Kínversk fyrirtæki sett upp allt mögulegt og selt með tapi þangað til að "keppinautar" þeirra fara á hausinn. Síðan hafa þeir einokun á markaðinum.
Atriði sem þú þarft að skoða. Og hefur verið leikið erlendis, aðalega í Bandaríkjunum. Sem byggist á "póker" spilamensku ... ég býð í pottinn, þangað til þú átt ekkert eftir ... þá hirði ég hann.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 24.8.2017 kl. 10:22
En segjum að fyrirtæki sé með stóran lager af vöru sem selst ekki, ekki einu sinni á kostnaðarverði (innkaupastjórinn gerði mistök). Hvernig á fyrirtæki að losa um lagerinn?
En segjum að framleiðslufyrirtæki hafi framleitt lélega vöru í of miklu magni, eða dýra vöru sem kemur svo í ljós að enginn vill (markaðsstjórinn las vitlaust í kannanir). Á það frekar að henda framleiðslunni en selja ódýrt?
Af hverju á að neita neytendum um ódýran varning? Já, framleiðendur eru auðvitað hagsmunaaðilar en eru neytendurnir ekki um það sem málið snýst?
Kínverjar framleiða nú þegar fullt af dóti og senda ókeypis með pósti út um allan heim. Ég hef keypt ýmislegt þannig, t.d. í gegnum eBay. Fyrir alvörufjárfestingar vill ég samt hafa aðgang að þjónustu eða geta farið með vöruna og skilað henni ef hún er gölluð.
Já, Kínverjar geta ýmislegt en ég efast um að þeir nenni endalaust að niðurgreiða neyslu alls heimsins eins og þeir hafa gert fyrir Bandaríkin undanfarna áratugi (með því að senda varning til USA og fá rýrnandi Bandaríkjadollara til baka).
Og ef Kínverjar eru í slíku stuði um skamma hríð þá er það á þeirra kostnað. Aðrir græða. Góðir framleiðendur standa af sér orrahríðir eftirlíkinga á útsöluverði.
Geir Ágústsson, 24.8.2017 kl. 10:54
Í verðstríðinu milli Krónunnar og Bónus 2005 tók Bónus þá ákvörðun að selja mjólkurlítrann á eina krónu sem er auðvitað langt undir kostnaðarverði.
Fyrir vikið var Bónus/Hagar dæmt til að greiða stjórnvaldssekt að upphæð 330 miljónir vegna þessa, og eru Hagar að ég held eina fyrirtækið á Íslandi sem hefur fengið slíka stjórnvaldssekt.
Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 24.8.2017 kl. 12:08
Þú ert eins langt frá því að vera frjálhyggjumaður og hægt er....
Arnar Bj. (IP-tala skráð) 24.8.2017 kl. 18:17
Það þurfa ekki allir að kalla mig frjálshyggjumann þótt ég geri það en ég heyri gjarnan ástæður fyrir því að ég eigi ekki þann titil skilinn.
Geir Ágústsson, 25.8.2017 kl. 09:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.