Fimmtudagur, 17. ágúst 2017
Skyldusparnaður og hlutabréfabrask
Íslendingar eru skyldaðir til að borga í lífeyrissjóði. Fyrir því eru ýmis rök. Þau snúa aðallega að því að koma í veg fyrir að fólk leggi ekkert fyrir á lífsleiðinni og endi sem baggi á skattgreiðendum í ellinni.
Íslenskir lífeyrissjóðir eiga digra sjóði. Þeir þurfa að ávaxta það fé. Innan gjaldeyrishaftanna voru möguleikar til slíks takmarkaðir og mikið fé rann því í opinberar skuldir. Það er glapræði. Þá er alveg eins hægt að sleppa skyldusparnaðinum því opinberar skuldir þarf að borga og þá er peningurinn tekinn af skattgreiðendum, m.a. þeim sem eru á lífeyri og borga tekjuskatt af honum.
Greiðendur í lífeyrissjóðina hafa mjög takmarkaða möguleika til að hafa áhrif á ráðstöfun lífeyris síns. Lögin leggja ákveðnar takmarkanir á fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðir hafa sett mikið fé í hlutabréf í fyrirtækjum í áhættusömum rekstri. Stundum skilar það góðri ávöxtun, stundum ekki. Að þessu leyti eru lífeyrissjóðir alveg jafnslæmir varðveislumenn peninga og ríkisvaldið eyðslusama.
Ungt fólk sem er að kaupa fasteign þarf að skuldsetja sig mikið. Það er um leið neytt til að borga í lífeyrissjóði. Það er því að borga niður lán á háum vöxtum en safna í sjóði á lágum vöxtum. Þetta er í grundvallaratriðum heimskuleg ráðstöfun á peningum.
Framundan er skellur á fjármálamörkuðum heimsins. Þeir sem vilja verja kaupmátt peninga sinna ættu að setja peningana í gjaldmiðla sem eru ekki í stórkostlegri fjöldaframleiðslu, eða í hlutabréf fyrirtækja sem eru ekki mjög berskjölduð fyrir hræringum í peningaheiminum, eða góðmálma sem er erfitt að auka magn í umferð á (t.d. gull). Lífeyrissjóðsþegar geta ekki gert neitt af þessu að neinu ráði. Þeir eru því dæmdir til að tapa stórum fjárhæðum þegar hlutabréfaverð taka svolitla dýfu.
Ávöxtun lífeyrissjóða er almennt léleg. Rekstur þeirra kostar háar fjárhæðir og fjárfestingar þeirra algjört happdrætti. Menn sem hafa borga fúlgur í lífeyrissjóði á ævi sinni sitja uppi með útgreiðslur sem eru litlu hærri en ellilífeyrir ríkisvaldsins til þeirra sem spöruðu ekkert. Við andlát gufar svo sparnaður þeirra upp og erfingjar fá ekki krónu. Hagsmuna hverra er verið að verja eiginlega?
Þessar örfáu hræður sem leggja ekkert til hliðar til efri áranna - hvorki í formi fjárfestinga í fasteign og öðru eða í sjóði - af hverju eiga þær að valda því að allir aðrir þurfa að hlaupa fram af bjargbrún í hjörð sem er teymd áfram af einhverjum sjóðsstjórum og stjórnmálamönnum?
Hafa lagt milljarða í United | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Raunávöxtun lífeyrissjóðanna hefur að meðaltali verið góð undanfarna áratugi. Hún er eðlilega misjöfn milli ára einkum vegna þess að hlutabréfamarkaðir eiga það til að lækka sum árin auk þess sem gengi krónunnar hefur áhrif á erlendar eignir.
Íslenskir lífeyrissjóðir hafa ekkert getað fjárfest erlendis eftir hrun vegna hafta. Það hefur því skort á fjárfestingarkosti. Þegar þannig háttar til er hætt við að miklar áhættur séu teknar. Uppgreiðsla á skuldum ríkisins hefur einnig gert lífeyrissjóðunum erfitt fyrir.
Nú þegar höftum hefur verið aflétt stendur svo á að erlend hlutabréf hafa hækkað svo mikið árum saman að lækkun er yfirvofandi. Lífeyrissjóðirnir halda því enn að sér höndum þrátt fyrir afnám hafta.
Samtryggingarsjóðir eru nauðsynlegir vegna þess að aðeins þannig er hægt að tryggja lífeyri til æviloka óháð því hve fólk verður gamalt. Séreignasjóðir sem gefa jafn miklar tekjur og sameignarsjóðir verða óhjákvæmilega upp urnir þegar meðalaldri lífeyrisþega er náð þó að lífeyrisþeginn lifi mörg ár til viðbótar.
Sú staðreynd að mörgum finnst þeir fá lítið í lífeyri þótt þeir hafi greitt í lífeyrissjóð alla sína starfsævi hefur lítið með lífeyrissjóðina að gera. Hér er einkum við skerðingarákvæði Tryggingarstofnunar að sakast sem stjórvöld bera ábyrgð á.
Ásmundur (IP-tala skráð) 17.8.2017 kl. 21:16
Skerðingarákvæði stjórnvalda, á lögbundnum lífeyri, er stjórnarskrábrot. Hreinn og klár þjófnaður. Þjófarnir koma úr öllum flokkum og eru upp til hópa andskotans aumingjar, að haga sér svona.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 18.8.2017 kl. 00:41
Íslenskir lífeyrissjóðir eru ekki þeir verstu í heimi þótt þeir fjármagni skuldir ríkis og sveitarfélaga, kaupi hlutabréf í áhættusömum rekstri og haldi úti gríðarstórri yfirbyggingu.
Það versta við allt kerfið er að menn eru neyddir til að tilheyra því. Það er ekki hægt að byggja upp stafla af gullpeningum í öryggishólfi - eitthvað sem er hægt að taka út, gefa, setja í erfðaskrá eða gefa til Rauða krossins. Það er hreinlega bannað.
Geir Ágústsson, 18.8.2017 kl. 06:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.