Miðvikudagur, 16. ágúst 2017
Þingmenn í forstjóraleik
Af hverju hefur ríkisvaldið aðkomu að framleiðslu á kjöti, mjólk og öðrum landbúnaðarvörum á Íslandi?
Eru íslenskar landbúnaðarvörur svo óætar og lélegar að það þarf að knýja skattgreiðendur til að halda framleiðslu þeirra í gangi?
Sumir segja að íslenskar landbúnaðarvörur séu þær bestu í heimi og að þess vegna þurfi ríkisstyrki til að framleiða þær. Það eru meiriháttar öfugmæli.
Sumir halda að ríkið þurfi að koma að landbúnaði til að tryggja að einhver búi í hverjum einasta firði svo þeir leggist ekki í eyði. Hvað varð um að varðveita óspillta náttúru og selja aðgengi til vistvænna ferðamanna? Hér eru líka einhver öfugmæli á ferð.
Þingmenn ræða nú birgðastöðu á kjöti og hvernig á að bregðast við henni. Þetta er brandari. Þingmenn eru ekki forstjórar, hluthafar, framkvæmdastjórar eða framleiðendur. Þeir eru vel borgað fólk sem fær laun fyrir að tala og setja lög.
Bændur ættu að hugsa sinn gang og breyta hagsmunabaráttu sinni í þá áttina að vera lausir við ríkisstyrkina og afskipti hins opinbera. Þeir ættu að líta til Nýja-Sjálands sem er landbúnaðarstórveldi á heimsmælikvarða. Áður fyrr voru bændur þar líka ölmusaþegar sem börðust í bökkum. Núna eru þeir sjálfstæðir atvinnurekendur.
Enn eitt kjaftshögg bænda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.