Föstudagur, 14. júlí 2017
ÁTVR í dauðateygjunum
Stjórnendur ÁTVR vita að þessi stofnun og það fyrirkomulag sem hún stendur fyrir er í dauðateygjunum.
Fólk er orðið þreytt á því að fara í sérstaka verslun til að kaupa áfengi. Fólk er orðið þreytt á því að geta ekki bara kippt með einni kippu eða flösku þegar það verslar inn og þarf þess í stað að kaupa gríðarmiklar birgðir sem taka upp pláss svo það sé nú örugglega til nóg.
Fólk vill hafa lítinn kaupmann eða hverfisverslun í göngufæri sem væri hægt ef áfengi fengi að fara í matvöruverslanir. Fólk er farið að sjá í gegnum það hvernig stóru verslunarkeðjurnar lokka ÁTVR til að opna verslun sem deilir bílastæði með þeim sjálfum og geta þannig krækt í viðskiptavini áreynslulaust.
Verjendur núverandi fyrirkomulags - íhaldsmennirnir sem vilja aldrei breyta neinu í frjálsræðisátt - óttast það versta ef fyrirkomulag áfengisverslunar fer að líkjast meira því sem gengur og gerist í Evrópu. Íhaldsmennirnir hafa samt engar áhyggjur af sjálfum sér þegar þeir ferðast til útlanda, eða hvað? Þeir segja væntanlega börnum sínum að ferðast helst ekki til annarra landa en Svíþjóðar með sína ÁTVR, eða hvað?
Íslandi átti að fara lóðbeint til helvítis þegar bjórinn var leyfður. Svo fór ekki. Áfengi í matvöruverslanir er heldur enginn aðgangsmiði í helvíti.
Hættum nú þessari vitleysu. Bjórinn í búðir, takk!
Benedikt gagnrýnir fjáraustur ÁTVR | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mikið óskaplega er það dýrmætt að eiga aðgang að þessum samfélagslegu viskubrunnum sem efast ekki andartak um að þeir hafi umboð til að rita yfirlýsingar á borð við: ,,Fólk er orðið þreytt á því að fara í sérstaka verslun til að kaupa áfengi."
Reyndar hef ég ekki séð neinn taka til máls um þessa voðalegu þreytu fólksins nema tiltekinn hóp ungra og upprennandi sjálfstæðismanna.
Árni Gunnarsson, 14.7.2017 kl. 15:18
Fólk er orðið þreytt á þessum þingmönnum sem ár eftir ár hafa það helsta áhugamál að koma áfengi í matvöruverslanir. Við getum verið þakklát fyrir að þessir þingmenn opinberi sig með þessum hætti sem algjörlega óhæf til að gæta hagmuna þjóðarinnar. Með þetta sem helsta áhugamálið er augljóst að einskis er að vænta af þessu liði.
Rökin eru ekki af verri endanum. Nauðsynlegt að geta keypt hvítvín með humrinum á sunnudögum og að lýðheilsusjónarmið byggð á rannsóknum virtustu stofnana heims eru bara tóm vitleysa. Hefur þessum þingmönnum ekki dottið í hug að ÁTVR getur haft opið á sunnudögum ef það er vandamálið? Þetta fólk ætti að hverfa vestur um haf og ganga í lið með Trump, þar á það heima.
80% þjóðarinnar vill ekki afnema ríkiseinokun á smásölu á áfengi. Öfugt við þessa þingmenn hafa þau ábyrgðartilfinningu og vilja ekki auka áfengisvandann með því böli og heilsuleysi sem auknu aðgengi fylgir eins og reynsla annarra þjóða sýnir. Öfugt við þetta þingmannalið er 80% þjóðarinnar hugsandi fólk.
Ásmundur (IP-tala skráð) 14.7.2017 kl. 17:07
Geir Ágústsson, þú kannt ekki að lesa þjóðina. Í könnun sem framkvæmd var í mars kemur fram: "Stór hluti Íslendinga er andvígur því að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum á Íslandi. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar MMR. 74,3% kváðust andvíg sölu á sterk áfengi í matvöruverslunum"
http://eyjan.pressan.is/frettir/2017/02/24/meirihluti-landsmanna-a-moti-afengi-i-matvoruverslunum/
Varðandi þetta upphlaup frjaáshyggjunar, þá er ÁTVR ekki á fjárlögum og því fara ekki peningar skattborgara í auglýsinguna.
Varðandi bjórinn þá ferðu með rangt mál. Neysla á áfengi jókst um 73%. Sjá:https://www.hagstofa.is/utgafur/frettasafn/heilbrigdismal/afengisneysla/
Áfengisneysla hefur aukist um 73% milli áranna 1980 og 2016
Þú þarft að fara í endurmenntun!
Sigurpáll Ingibergsson, 14.7.2017 kl. 18:13
Gott og vel, hér taka menn til máls. Það er gott.
Íslendingar eru vanir því að birgja sig upp af áfengi. Það minnkar e.t.v. pirringinn að þurfa heimsækja ÁTVR reglulega.
Íslendingar hafa líka fengið fleiri ÁTVR útibú og lengri opnunartíma. Það hefur líka slegið á gremjuna.
Ekki veit ég hverja er hringt í til að framkvæma skoðanakannanir en ég virðist ekki þekkja eina einustu af þeim manneskjum. Það er þá bara þannig.
Áfengisneysla hefur aukist en áfengismenningin batnað. Það er engin þversögn. Íslendingar eru þó enn heimsmeistarar í það sem kallast lotudrykkja. Úr því má bæta með því að gera áfengi ódýrara og aðgengilegra svo fólk drekki það frekar í hópi en magni.
Um er að ræða löglegan neysluvarning. Hann ætti því að mega selja með öðrum löglegum neysluvarningi, svo sem osti og beikoni.
Íslendingar í útlöndum virðast ekki hata fyrirkomulag áfengisverslunar þar. Það er ekki fyrr en þeir eru komnir í predikunarstólinn að vandamálin blasa við þeim, að því er virðist.
Þingmenn hafa eytt of miklum tíma í þetta mál, það er rétt. En það er ekki af því málið megi ekki bara afgreiða úr nefndum og setja í atkvæðagreiðslu. Það væri hægðarleikur. Nei, það eru andstæðingar áfengis í matvöruverslanir sem leggjast í tímafrekt málþóf og gera allt sem þeir gera svo þeir þurfi EKKI að kjósa um málið og opinber þar með afstöðu sína.
Þeir vita jú sem er að ÞEGAR áfengi kemst í matvörubúðir og ENGIR af spádómum bölsýnismanna rætast þá lenda þeir í sögubókunum sem aðhlátursefni, eins og Steingrímur J. og aðrir eins kumpánar.
Svo já, það er vissara að gera allt sem hægt er til að þingmenn geti ekki fengið að kjósa um málið og koma því frá.
Geir Ágústsson, 14.7.2017 kl. 19:10
Sérkennilegt hér á Íslandi, þar sem alltaf er verið að tala um lýðræði eins og að það sé svo mikið hér og jafnvel meira en annarstaðar.
En hér ríkir stjórnræði, en ekki endilega kosið heldur er það iðulega borið uppi af frekju og tryggt með yfirgangi.
Hrólfur Þ Hraundal, 15.7.2017 kl. 12:08
Það er að sjálfsögðu lýðræði að fara að vilja 75% þjóðarinnar. Vilji stjórnmálamanna til að hunsa þennan vilja er hins vegar atlaga gegn lýðræðinu.
Þórdís Kolbrún (eða hvað hún heitir), iðnaðarráðherra, varði áfengisfrumvarpið með því að segja að stundum væri nauðsynlegt að fara gegn vilja meirihlutans.
Ráðherra sem telur það brýna nauðsyn að selja áfengi í matvöruverslunum er ekki bara óhæfur, hann er þjóðinni stórhættulegur.
Ásmundur (IP-tala skráð) 15.7.2017 kl. 19:18
Það er sennilega 75% af 1% af hávaðasömum smá öfgvahópum sem vilja þetta ekki.
Við hvað er fólk hrætt?
Ég verð að taka í sama streng og Geir Ágústsson, ég þekki ekki eina einustu manneskju sem er á móti því að leifa áfengissölu í matvörubúðum.
Kveðja frá Seltjarnarnesi
Jóhann Kristinsson, 15.7.2017 kl. 20:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.