Mánudagur, 3. júlí 2017
Búið í haginn fyrir næstu vinstristjórn
Núverandi ríkisstjórn hefur lagt mikla áherslu á að lækka skuldir ríkisins. Það er gott. Um leið hefur hún ekki gert neitt að ráði til að minnka ríkisbáknið sjálft. Það er slæmt. Niðurstaðan er sú að ríkissjóður er rekinn með afgangi en bara af því það er uppsveifla í hagkerfinu. Allar áætlanir stjórnvalda gera beinlínis ráð fyrir áframhaldandi uppsveiflu sem getur fjármagnað bæði útþenslu ríkisrekstursins og niðurgreiðslu skulda.
Afleiðingin verður slæm fyrir íslenskan almenning.
Það er auðvelt að auka útgjöld til risavaxins ríkisreksturs. Bara örfá prósent í aukin ríkisútgjöld þýðir margir milljarðar af fé skattgreiðenda.
Það er erfitt að draga saman útgjöld ríkisvaldsins. Bara með því að hægja á hækkun ríkisútgjalda þýðir að sumir byrja að tala um niðurskurð. Já, ríkisútgjöld jukust ekki nóg! Það er verið að skera niður að beini!
Íslenskir kjósendur sjá ekki muninn á vinstrimanni sem lofar öllu fögru og hægrimanni sem uppfyllir loforð vinstrimannsins. Af hverju að kjósa hægrimanninn til að framkvæma loforð vinstrimannsins þegar það er hægt að kjósa vinstrimanninn?
Það sem gerist er að þegar næsta vinstristjórn nær völdum þá tekur hún við skuldlausu búi. Hún hefst handa við að hækka skatta og auka ríkisútgjöldin ennþá meira. Það mun samt ekki duga til. Þá taka við lántökurnar. Ríkissjóðir með sitt góða lánstraust og lágu skuldir verður skuldsettur á bólakaf. Þegar vinstristjórnin springur eða er kosin frá völdum taka svo vægari vinstrimenn við völdum til að taka til.
Kæra ríkisstjórn, það er ekki nóg að lækka skuldir. Það þarf líka að minnka ríkisvaldið svo það sé erfiðara að réttlæta skuldsetningu ríkissjóðs með tilvísun í rekstrarvandræði opinberra eininga.
![]() |
Ríkið heldur sömu lánshæfiseinkunn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Allir vilja (og verða) að koma sínum að. Þess vegna stækkar kerfið.
Verst er að kerfið er ekki framleiðandi starfsemi, svo þetta er í raun að valda manneklu meðal þeirra sem halda systeminu uppi.
Ekki fæ ég séð vit í að flytja bara inn endalaust af útlendingum til þess að vinna þau störf, þó þjóðþrifaverk séu.
En svona er þetta...
Ég reyni, en fólk vill víst hafa þetta svona.
Ásgrímur Hartmannsson, 3.7.2017 kl. 17:39
Skuldlaust ríki með alla innviði að hruni komna er engin óskastaða. Byggingar í eigu ríkisins verða myglu að bráð vegna viðhaldsleysis. Viðgerðarkostnaður er gífurlegur og stundum svo mikill að það borgar sig að rífa byggingar.
Vegir eru svo illa farnir eftir langt viðhaldsleysi að oft þarf að byggja þá upp frá grunni. Þannig tapast milljarðar meðan milljónir sparast.
Verst er þó siðleysið og glæpastarfsemin sem þrífst vegna skorts á eftirliti fámennrar lögreglu, fjármálaeftirlits, skattrannsóknarmanna ofl. Það getur orðið erfitt að snúa þeirri þróun við eftir að allt hefur verið látið reka á reiðanum árum saman. Fólkið verður samdauna spillingunni.
Jafnvel dómsmálar5áðherra hótar að láta Ísland hætta að taka þátt í bandarískri könnun um frammistöðu yfirvalda vegna þess að hún var óánægð með sanngjarna gagnrýni. Er Ísland að Trumpvæðast? Það er auðvitað ekki eðlilegt að engin ákæra hafi verið gefin út á Íslandi í mansalsmálum í sex ár.
Í raun er Ísland stjórnlaust. Allt sem til uppbyggingar horfir er algjörlega vanrækt. Einkavinavæðing á öllum sviðum og minni skattar auðmanna og hátekjufólks er nánast það eina sem stjórnin lætur sig varða.
Það er auðvitað gott að losna við skuldir. En þegar sama sem engu er eytt í uppbyggingu er það nánast óhjákvæmilegt í því góðæri sem nú ríkir.
Ríkisstjórnin hangir á Óttarri Proppé. Hann er sá sem getur losað okkur úr snörunni með því að hætta stuðningi við stjórnina. Með því að mynda ríkisstjórn með stjórnarandstöðunni gæti hann tryggt BF framhaldslíf.
Ásmundur (IP-tala skráð) 3.7.2017 kl. 21:02
Það verða aldrei nógu margir á Íslandi sammála Ásmundi ár
eftir ár, áratug eftir áratug, til að viðhalda hans stefnumálum til lengri tíma litið.
Það verða heldur aldrei nógu margir á Íslandi sammála Geir (og mér) ár eftir ár, áratug eftir áratug, til að viðhalda okkar stefnumálum til lengri tíma litið.
Þannig virkar einfaldlega lýðræði þegar það er á of stórum skala. Hinir og þessir stærðarinnar lýðræðismúgir með gjörólíkar skoðanir á mikilvægum málum ráðast á hverja aðra á fjögurra ára fresti í gegnum ríkisvaldið.
Það væri mun stöðugra til lengri tíma litið að skipta Íslandi upp í mörg sjálfstæð ríki. Þá gæti Ásmundur flutt þar sem fleiri vinstrimenn eru og Geir (og ég) þar sem fleiri frjálshyggjumenn eru. Mun fleiri væru þá líklegri til að fá það þeir vilja frá sínu ríkisvaldi.
Væri það ekki betra heldur en að tala sífellt um hvað mönnum finnst að gjörvallt Ísland "eigi að gera"?
SR (IP-tala skráð) 4.7.2017 kl. 14:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.