Föstudagur, 23. júní 2017
Snyrtilegast að banna bara öll viðskipti
Nú tala sumir fyrir því að taka stærstu peningaseðlana úr umferð á Íslandi. Það á að sögn að minnka líkurnar á skattsvikum, t.d. í ferðaþjónustunni.
En gefum okkur að mikið sé um skattsvik. Mun afnám stærstu seðlanna breyta einhverju?
Kannski, en kannski ekki.
Menn brjóta almennt ekki lögin að gamni sínu. Því fylgir áhætta sem allir gera sér grein fyrir. Menn brjóta lögin þegar þau eru orðinn hindrun frekar en gagnlegar leiðbeiningar. Menn brjóta lög sem þykja ósanngjörn.
Nú á það vitaskuld ekki að vera undir hverjum og einum komin að ákveða hvaða lög eru góð og hver ekki. Það má ekki stela þótt viðkomandi telji fórnarlamb sitt hafa efni á því.
Þingmenn mættu samt hugleiða ástæðurnar á bak við hinum ýmsu lögbrotum sem teljast algeng og hugleiða hvort meginþorri almennings sé að haga sér eins og glæpamenn eða bara eins og almennir borgarar sem eru að reyna bæta sinn hag í daglegu amstri.
Nú fyrir utan að seðlabann bítur illa á ferðamanninn sem gengur um með seðla í bandarískum dollurum eða evrum.
Er alveg óhugsandi að koma bara á gegnsæju, einföldu, fyrirsjáanlegu og sanngjörnu skattkerfi? Þá er ég að meina kerfi þar sem eru lagðir á flatir skattar í lágum prósentum sem leggjast jafnt á alla og eru lausir við undantekningar? Er það alveg fáránlegt kerfi í hugum þingmanna?
![]() |
Ferðaþjónustan ekki uggandi yfir seðlinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:47 | Facebook
Athugasemdir
Þegar stórt er spurt Geir, þá er oft fátt um svör.
Við deilum kannski um hvað er sanngjörn skattprósenta, en um það er ekki deilt að ofskattur kallar á viðbrögð.
Líkt og lungnabólga sem fylgir í kjölfar ofkælingar, þá þarf vart að deila um að gáfulegra er að draga úr þeim aðstæðum sem leiða til ofkælingarinnar í stað þess að gefa endalaust pensilín við lungnabólgunni.
Ég held að þú sért að benda á þá visku.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 23.6.2017 kl. 17:15
Ofskattur kallar á viðbrögð já. Byltingar hafa orðið til af minna tilefni.
Flóknir skattar kalla líka á viðbrögð. Það er hreinlega ekki þorandi að gera marga hluti nema margborga sprenglærðum sérfræðingum til að fylgjast með öllu ferlinu svo ríkið sé sátt. Ég þekki einn sem hafði keypt og selt hlutabréf og var mjög ósáttur við að geta ekki fundið út úr skattalegu hliðinni sjálfur. Sá maður vinnur vel á minnst við verkefnastjórnun á flóknum verkefnum og er með verkfræðimenntun á bakinu.
Ég þekki svo annan sem á nokkur "helgarbörn". Hann er búinn að ráðstafa heilli hæð fyrir þau sem hann leigir svo út á Airbnb þegar hæðin stendur tóm. Þessi einstaklingur reyndi sitt besta mjög lengi til að komast að því hvernig hann ætti að eiga við kerfið og gafst svo upp. Kannski nýleg lög hafi hjálpað til en fjárfesting hans gekk út á aðeins meira en 90 daga á ári í útleigu, svo kannski ekki.
Það er eitt að hafa fyrirferðarmikið ríkisvald sem gerir miklu meira en nokkur bað um, en annað að það sé beinlínis að þröngva fólki út í lögbrot.
Geir Ágústsson, 23.6.2017 kl. 19:57
Stærstu skattsvikin fara ekki fram í reiðufé.
Það eru til dæmis engir krónuseðlar á Tortola.
Ávinningurinn af sölu Búnaðarbankans var ekki greiddur til huldufélagsins Dekhill Advisors í reiðufé heldur með bankamillifærslu.
Álfyrirtækin framkvæma ekki skattasniðgöngu með þunnri eiginfjármögnun í íslensku reiðufé heldur með bókhaldsbrellum, tölum á blaði.
Hugmyndir um að stöðva skattsvik með því að banna reiðufé eru því einfaldlega byggðar á rökvillu. Þær eru álíka gáfulegar og að ætla sér að stöðva innbrot með því að banna kúbein.
Guðmundur Ásgeirsson, 23.6.2017 kl. 20:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.