Þriðjudagur, 11. apríl 2017
Hvenær gefst ríkið upp á því að reka fyrirtæki?
Hver krísan á eftir annarri eltir heilbrigðiskerfið á Íslandi. Stundum er það fjárskortur, en þegar komið er til móts við hann kemur í ljós að einhver stéttin er óánægð. Þá er samið en svo kemur í ljós að fólk getur fengið betri laun annars staðar. Þá skulu launin hækkuð en þá þarf að draga fé úr ríkisrekstrinum á öðrum stað eða hækka skatta. Skattar eru hækkaðir en þá kemur í ljós að það bitnar á fyrirtækjum sem geta flúið land, flutt rekstur til útlanda eða þurfa skera niður hjá sér eða einfaldlega fara á hausinn. Þeim er þá veitt ívilnun en þá kvarta aðrir og vilja sömu ívilnun. Og á meðan hrannast sjúklingar upp á göngum spítala eða lenda á dauðalistum - biðlistum sem eru svo langir að þeir eru í raun gagnslausir.
Ráðherrarnir klóra sér í kollinum. Þeir vita ekki hvernig á að fínstilla allt hagkerfið þannig að allir séu sáttir, enda er það ekki hægt. Þeir gleyma bara einu: Á frjálsum markaði eru fyrirtæki í stanslausri keppni um starfsafl, fjármagn og viðskiptavini. Þar eru engar kjaradeilur nema þar sem verkalýðsfélögin hafa orðið sér úti um lagalega mismunun. Gleraugnaverslanir lækna sjóndepurð á hverjum degi. Sérþjálfaðir augnlæknar nota rándýr og fullkomin tæki til að senda leysigeisla í augu fólks og gefa því fullkomna sjón. Einkaaðilar mæla heyrn og útvega heyrnatæki. Bakveikir fara í skóbúð og kaupa innlegg til að líða betur. Þeir sem eru óánægðir með spegilmynd sína heimsækja lýtalækna og láta stækka á sér brjóstin, minnka nefið eða fjarlægja húsflipa án þess að gista á göngum eða bíða á biðlistum.
Þar sem ríkið heldur sig fjarri gengur frjáls markaður eins og vel smurð vél.
Ríkisvaldið ætti að játa sig sigrað. Það er einfaldlega ekki vel í stakk búið til að standa í rekstri og ætti alls ekki að koma í veg fyrir að einkaaðilar bjóði sjúklingum upp á þjónustu sína. Á hinum Norðurlöndunum vinna ríki og einkaaðilar í sameiningu að því að stytta biðlista, bjóða upp á valkosti og takmarka kostnað við heilbrigðisþjónustu. Á Íslandi er enginn einkaspítali og þótt einkaaðilar séu vissulega til innan íslenska heilbrigðiskerfisins þá mætti gera ýmislegt til að fjölga þeim umtalsvert. Hér þarf ríkisvaldið fyrst og fremst að hætta afskiptum sínum og afnema boð og bönn.
Ráðherrar, kíkið í augnblik út um gluggann á skrifstofu ykkar. Lausnin blasir við fyrir utan.
Stefnir í lokun deilda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
"Þar sem ríkið heldur sig fjarri gengur frjáls markaður eins og vel smurð vél." Kjaftæði. Enda engin tilraun gerð til rökstuðnings.
Nonni (IP-tala skráð) 11.4.2017 kl. 13:06
Kjaftæði er sagt, án rökstuðnings.
Er það mitt að réttlæta að þrællinn sé gefinn frjáls, eða þrælaeigandans að réttlæta að hann sé ófrjáls?
Er það mitt að réttlæta að bifvélavirkinn megi opna verkstæði, eða ríkisins að réttlæta af hverju má banna honum það?
En gott og vel, ágæt og mjög stutt samantekt á því af hverju frjáls markaður er betri en ófrjáls má lesa hér:
https://www.frjalshyggja.is/blank-c192n
Geir Ágústsson, 11.4.2017 kl. 13:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.