Miðvikudagur, 8. mars 2017
Þessir helvítís neytendur
Eftirfarandi grein mín birtist í Morgunblaðinu í dag. Vonandi fær hún einhvern til að hugsa hlutverk stjórnmálamanna upp á nýtt!
Þessir helvítis neytendur
Íslenskir stjórnmálamenn eru talsmenn kjósenda á þingi (a.m.k. að nafninu til). Því miður eru þeir um leið andstæðingar neytenda. Hvernig stendur á þessu?
Það ætlar til dæmis að standa mjög í þingmönnum að koma á vestrænu fyrirkomulagi í áfengisverslun á Íslandi. Fyrirkomulagið skal þess í stað vera það strangasta sem finnst í okkar heimshluta. Hvers vegna? Af því að þessir helvítis neytendur kunna sér víst ekki hóf.
Nú eru viðraðar hugmyndir um að koma öflugustu leiðinni til að hætta að reykja rafsígarettunum í felur og bak við skattabrynju. Tiltölulega skaðlaus gufa leysir af eiturefnamettaðan tóbaksreykinn en það dugir þingmönnum ekki. Geta þeir sem vilja hætta að reykja ekki bara hætt því eða þakið líkama sinn með plástrum og troðið tyggjói í munninn á sér? Þurfa þessir helvítis neytendur endilega að blása frá sér vatnsgufu sem allar rannsóknir sýna að mörg hundruð sinnum skaðminni en tóbaksreykurinn? Nei takk, segja sumir þingmenn, og halda áfram að gera illt verra.
Síðan eru það þessir ökumenn sem þurfa að fylla vegina á leið inn og út af höfuðborgarsvæðinu. Ofan á eldsneytis- og bílaskattana á að bæta við tollahliðum til að fjármagna vegauppbyggingu. Geta þessir helvítis ökumen neytendur gatnakerfisins ekki bara dreift sér skynsamlega á vegina á öllum tímum sólarhrings þótt í því felist enginn hvati fyrir þá sjálfa? Nei, hér þarf að rukka nýja skatta ofan á þá gömlu. Er þá ekki snyrtilegra að selja vegina og leyfa einkaaðilum að finna leiðir til að dreifa álaginu og byggja upp flutningsgetu vegakerfisins? Einkaaðilar geta byggt farsíma- og vöruflutningakerfi. Þeir geta líka byggt vegakerfi. Þá geta neytendur hætt að vera helvítis neytendur og orðið venjulegir neytendur.
Svo er það blessað heilbrigðiskerfið. Neytendur þess geta ekki látið sig veikjast nægilega lítið til að skattgreiðslur þeirra sem skattgreiðenda dugi til að lækna þá. Þeir þurfa að sofa á göngum og bíða á biðlistum. Helvítis neytendur heilbrigðisþjónustu, látið heilbrigðiskerfið í friði! Nú eða dreifið ykkur í gleraugnaverslanirnar, frjálsasta afkima heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Þar er tekið við ykkur með bros á vör.
Svo eru það neytendur heitavatnsins og rafmagnsins. Hellisheiðarvirkjum var reist fyrir ykkur en stefnir nú í að verða risavaxið umhverfisslys og töpuð fjárfesting fyrir eigendur sína sem um leið eru skattgreiðendur sem um leið eru neytendur. Þurfið þið nokkuð allt þetta heita vatn og rafmagna? Farið í kalda sturtu og slökkvið ljósin! Helvítis neytendur.
Þingmenn eru e.t.v. talsmenn kjósenda en þeir kæra sig lítið um þessa helvítis neytendur. Kannski væri ráð að einkavæða svolítið í ríkisrekstrinum svo neytendur hætti að vera svona mikill höfuðverkur fyrir upptekna þingmenn?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
http://www.visir.is/sala-an-afengisgjalds-ekki-upplyst-af-atvr/article/2012708219911
http://www.dv.is/frettir/2016/12/9/afengisgjold-hafa-haekkad-um-100/
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 8.3.2017 kl. 09:48
Besta leiðin til að mjólka fé úr lágtekjufólki er að hækka gjöld á áfengi og tóbak. Fólk kvartar ekki ef það er ölvað eða búið að svala nikótínfikninni.
Þeir efnameiri eru með fulla vínskapa úr fríhöfninni og reykja bara vindla við sérstök tækifæri. Þeim er alveg sama um áfengis- og tóbaksgjöldin.
Geir Ágústsson, 8.3.2017 kl. 11:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.