Smámál gert að stórmáli

Höfum eitt á hreinu: Að leyfa öðrum en ríkinu að selja áfengi er sjálfsagt mál og frekar léttvægt. Svona er fyrirkomulagið í nánast öllum ríkjum heims. Áfengisneysla Íslendinga er hvorki betri né verri en hjá öðrum ríkjum. Aðgengi að áfengi á Íslandi er alveg nægjanlegt og verðlagið kemur ekki í veg fyrir að þeir sem vilja drekka geri það.

Að heimila áfengissölu í öðrum verslunum en ríkisverslunum (og flugvöllum Isavia) er því smámál.

Hins vegar gætu jákvæðar afleiðingar þess að hleypa þessu smámáli í gegn orðið stórar. Gefum okkur að verðlag verði óbreytt og að skilríkjaskoðun haldist óbreytt eða verði jafnvel strangari. Það sem breytist samt er að litlir verslunareigendur gætu eignast von á ný. Litlu hverfisbúðirnar gætu aftur keppt við stórmarkaðina sem deila bílastæði með ÁTVR. 

Það sem breytist líka er að íslenskir neytendur geta nú sparað sér búðarferðirnar og jafnvel haldið þeim innan hverfisins í stað þess að þurfa keyra á sérstakan stað til að kaupa vínflösku. Þeir þurfa ekki að keyra í margar verslanir til að eignast löglegan neysluvarning í formi matar og drykkjar. 

Það sem breytist líka er að forræðishyggjufólkið missir enn eitt vígið. Það ætti að vera öllum frjálslyndum mikilvægt hugsjónamál. Sem dæmi um önnur vígi sem hefur mátt berja niður eru: Litasjónvarp, frjálst útvarp og einkavæðing á sementsframleiðslu á vegum ríkisins. Þetta eru hlægileg vígi þegar litið er til baka. Hið sama mun eiga við um þetta áfengissölufyrirkomulag.

Sem sérstakur bónus mun Íslendingum ekki lengur líða eins og fávitum þegar þeir ferðast til útlanda og sjá þar vín til sölu í öllum verslunum. Þeir hætta að fá þetta hálfgerða áfall þegar þeir geta sett súkkulaði og bjórkippu í sömu innkaupakörfu. 

Smámálið er sjálfsagt að afgreiða í hvelli og setja orku þingmanna í önnur og stærri mál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband