Allt bannað sem er ekki sérstaklega leyft

Á Íslandi er bannað að selja heimabakað bakkelsi. Það er ekkert flóknara en það. Það er líka bannað að leigja út hluta af eigin húsnæði nema að hafa til þess sérstakt leyfi til að bjóða upp á gistingu og sérstakt starfsleyfi frá svokallaðri heilbrigðisnefnd.

Kemur einhverjum á óvart að fáir skrái sig og haldi bara áfram að bjóða upp á gistingu án leyfis?

Það verður spennandi að sjá núna hvort yfirvöld fari á stúfana og deili út sektum til þúsunda Íslendinga. Kannski verður ekki reynt að ná til allra sem brjóta lögin fáránlegu heldur bara örfárra og gera mikið mál úr því og reyna að hræða afganginn til hlýðni. Handahófskennd löggæsla er jú niðurstaða íþyngjandi löggjafar sem almenningur á erfitt með að beygja sig og bugta fyrir. Fyrir handahófskenndri löggæslu eru til alveg óteljandi dæmi á Íslandi.

Það má kannski gera bragarbót á þessu og segja að í stað þess að leyfi sé forsenda reksturs þá sé hægt að stunda rekstur sem gæti orðið fyrir úttekt. Menn gætu þá bara skráð sig með einföldu eyðiblaði á netinu og fengið númerið sitt strax. Á einhverjum tímapunkti gætu svo yfirvöld gert úttekt og t.d. kannað hvort gestir séu útataðir í saur og myglusveppum eða hvort heimilisaðstæður séu ekki bara ósköp venjulegar eins og væntanlega er raunin hjá allflestum útleigjendum. 

Um leið mætti afnema 90 daga regluna enda er hún líka handahófskennd og ósanngjörn, t.d. fyrir gömlu ekkjuna með aukaherbergið sem langar að drýgja ellilífeyrinn eða unga parið sem er að stækka við sig til að rýma fyrir fleiri börnum en leigir út barnaherbergið á meðan ekkert er barnið.

Einn ágætur maður sagði eitt sinn, og skal það hér endurtekið:

Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekk­ert gera fyrr en öll leyfi eru komin.

Megi yfirvöld líta í spegil sem fyrst og þylja upp eftirfarandi orð: "Hættu að troða nefinu þínu þar sem það á ekki heima."


mbl.is Aðeins 28 hafa verið skráðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Góður þessi Geir, pistillinn hittir beint í mark.

Það þarf að ganga í það að leggja niður þær reglugerðir sem þjóna engum tilgangi eins og þær eru.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 23.1.2017 kl. 14:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband