Þegar eitthvað er of dýrt hvað er þá til ráða?

Í frétt segir að áætlað er að 25 þúsund manns, eða um 10% fullorðinna á Íslandi, hafi einhvern tímann ekki farið til tannlæknis vegna kostnaðar þegar þeir þurftu á aðstoð tannlæknis að halda í fyrra.

Viðbrögðin er auðvitað fyrirsjáanleg: Margir munu boða skattahækkanir til að fjármagna niðurgreiðslur vegna tannviðgerða á fullorðnum.

Það væri eins og að pissa í skóinn sinn. Hærri skattar skerða kaupmátt allra, bæði þeirra með tannpínu og annarra.

Því er þá um leið bætt við að skatta eigi bara að hækka á fyrirtæki og ríka einstaklinga. Það hljómar eins og söluvænleg ræða fyrir stjórnmálamenn en er ekki skattheimta sem skilar neinum skatttekjum að ráði, og að því ráði sem hún gerir það flýr skattstofninn til útlanda. Sem sagt, eins og að pissa í skóinn sinn.

Það þarf ekki að niðurgreiða tannlækningar svo fleiri hafi efni á einhverju sem er dýrt heldur þarf að finna leiðir til að gera tannlækningar ódýrari svo fleiri hafi efni á henni án aðstoðar.

Spurningin sem við ættum því að spyrja okkur er: Af hverju eru tannlækningar svona dýrar?

Fyrir því eru margar ástæður:

Í fyrsta lagi reisir ríkisvaldið aðgangshindranir að markaði tannlækninga með því að takmarka fjölda einstaklinga sem fá að hefja nám í tannlækningum við sex. Þetta er gömul tala og fyrir löngu orðin alltof lítil.

Í öðru lagi mega tannlæknar ekki auglýsa verðskrá sína eða eins og lögin segja (í 11. gr.): "Tannlæknum eru óheimilar hvers konar auglýsingar um starfsemi sína sem tannlæknar." Markaðsaðhald er því markvisst og vísvitandi takmarkað (sem og málfrelsi). Nýútskrifaður tannlæknir er mun lengur en ella að afla sér viðskiptavina því hann getur ekki keppt í verði, t.d. á algengustu viðgerðum.  

Í þriðja lagi er hár skattur á öllu á Íslandi: Launum, hagnaði, aðföngum og búnaði. Þetta birtist í verðlagi.

Í fjórða lagi eru töluverðar aðgangshindranir að þessum markaði í formi lagaákvæða og reglugerða sem gera tannlækningar dýrari en þær þyrftu að vera.

Í ljósi alls þessa kemur e.t.v. á óvart að það kosti ekki meira en 15-25 þús. að láta tannlækni yfirfara allt, hreinsa tannstein, taka myndir og gefa krökkunum svolítið dót.

Ég vona að umræðan um tannlæknakostnað á Íslandi snúist um það hvernig má gera tannlækningar ódýrari svo fleiri hafi efni á þeim en ekki hvernig á að gera fleirum kleift að ráða við dýrar tannlækningar. 

 


mbl.is Hafa ekki ráð á tannlækningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fréttin ætti að vera:  Hafa ekki ráð á alþingismönnum, þurfa að komast til tannlæknis.

http://www.visir.is/laun-althingismanna-haekka-um-nalega-340-thusund/article/2016161039748

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 12.12.2016 kl. 12:37

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ríkið niðurgreiðir nú þegar almenna læknisþjónustu, en bara ef maður veikist eða slasast annars staðar en í munninum eða heilanum. Þetta felur í sér mismunun sem er mannréttindabrot og samræmist ekki stjórnarskrá.

Guðmundur Ásgeirsson, 12.12.2016 kl. 15:01

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Ekki gleyma okkur gleraugnaglámunum með síbreytilega sjón! 

Geir Ágústsson, 12.12.2016 kl. 16:02

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Góður punktur. Ég er einmitt gleraugnaglámur líka. :)

Reyndar má færa rök fyrir því að þetta sé innifalið í fyrri athugasemd minni, þar sem augun eru í raun framlenging á heilanum. Með því á ég við að sjóntaugin vex beint út úr heilanum sjálfum og endar í ljósviðtökum augnbotnsins. Ólíkt öðrum taugum mannslíkamans fara taugaboð frá augunum því ekki gegnum mænuna heldur beinustu leið frá þeim inn í heilann.

Guðmundur Ásgeirsson, 12.12.2016 kl. 19:29

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Svo er nú góð spurning hvort ríkið eigi ekki líka að gefa okkur að borða, því lítill tilgangur er nú í að hafa heilar tennur fái fólk ekki næringu.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.12.2016 kl. 23:36

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Úff, er lambakjötið ekki nógu dýrt og ósamkeppnishæft nú þegar?

En það er rétt að ríkið mismunar sjúklingum. Lausnin er samt ekki að sópa fleirum í ríkisjötuna heldur koma fleirum úr henni. 

Ríkiseinokun hækkar verð og rýrir gæði. Ég er þakklátur fyrir það á hverjum degi að vera með "kvilla" sem ég get leitað á frjálsan markað til að leiðrétta (sjóndepurð). Þeir sem hafa ekki aðra kosti en hið opinbera eru algjörlega pikkfastir og hafa engin önnur úrræði en að bíða þegar þeim er sagt að bíða og kyngja því sem þeim er sagt að kyngja (bókstaflega). Ég get hins vegar látið slást um viðskipti mín og geri það gjarnan. 

Geir Ágústsson, 13.12.2016 kl. 04:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband