Endurskoða: Já. Að fara úr öskunni í eldinn: Nei

Það er alveg sjálfsagt að biðja þingheim um að íslenska ríkið skoði peningastefnu sína. 

Menn skulu samt vara sig á því að taka við slíkri endurskoðun með það eina markmið að koma hagkerfi Íslands í klær erlends seðlabanka frekar en íslensks.

Ríkisvaldið ætti að endurskoða peningastefnu sína með það að markmiði að koma íslenska ríkinu alveg út úr útgáfu peninga.

Um leið ætti að breyta lögum þannig að kverkatak verkalýðsfélaga á atvinnulífinu er losað, að hinn svokallaði verkfallsréttur, þar sem fólk getur lagt niður vinnu án þess að missa vinnuna, sé afnuminn.

Markaðurinn verður fljótur að skipta út íslensku krónunni fyrir allskonar annað: Dollara, pund, danskar krónur, svissneska franka, evrur eða hvað það nú er sem höfðar til hvers og eins. Það má jafnvel hugsa sér að Bitcoin og gullpeningar byrji að láta sjá sig. Einstaklingar og fyrirtæki vilja peninga sem hafa stöðugan kaupmátt og duga til að skiptast á varningi og þjónustu. 

Fari svo að gjaldmiðill sem fyrirtæki gerir upp í eða aflar megnið af tekjum sínum í styrkist á það fyrirtæki að geta lækkað laun (sem gerir það að verkum að upphæð launanna lækkar án þess samt að kaupmáttur þeirra geri það). Hér kemur kverkatak verkalýðsfélaganna til sögu. Það getur í dag lamað fyrirtæki sem reynir að aðlaga launaútgjöld að tekjum ef það vill halda í alla starfsmenn sína. Verkalýðsfélögin stuðla að atvinnuleysi og hafa gert alla tíð.

Svo já, endurskoðun peningastefnu ríkisins: Komum ríkinu út úr framleiðslu og verðlagningu peninga eins og ríkinu var á sínum tíma komið úr framleiðslu og verðlagningu á sementi á sínum tíma. 

Þess má að lokum geta að lágir vextir evrusvæðisins eru merki um veikt hagkerfi, ekki sterkt, og þar með eitthvað sem ætti í sjálfu sér að vera fráhrindandi. 


mbl.is Spurði út í „óþolandi vaxtabyrði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Mesta þarfmál stjórnmálanna. Íslenska krónan óþörf fyrir smáþjóð eins og þú bendir á. Er á sífeldu flökti sem ruglar allt efnahagslíf. Nú er krónan að draga úr getu sjávarútvegsins til eflingar og þróunar. Krónan skapar óvissu fyrir ferðamannaiðnaðinn. Alþingis er að leysa okkur úr álögum krónunnar og lífeyris / verklýðsfélaga. Geta Seðlabankans er lítill til að festa gengi krónunnar og ekki rétt að kenna honum um kollsteypur.

Sigurður Antonsson, 8.12.2016 kl. 10:03

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er að mínu mati ekki endilega smæð myntarinnar sem er vandamál íslensku krónunnar heldur það einfaldlega að það virðist vera rosalega auðvelt fyrir bankakerfið að auka magn hennar í umferð og almennt fikta við það magn með opinberri verðstjórnun á lánsfé (vextir). Á þjóðveldisöld voru Íslendingar einhverjar 20-30 þúsund hræður og versluðu bæði innanlands og utan í silfri, vaðmáli, þorskflökum og hvaðeina og ekki skóku öfgakenndar fjársveiflur hagkerfi þeirra (eða ekki veit ég til þess). 

Geir Ágústsson, 8.12.2016 kl. 19:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband