Mánudagur, 5. desember 2016
Verðbólga er bara peningaprentun
Verðbólga, þ.e. almennt hækkandi verðlag á öllu, er með einfaldar rætur: Peningaprentun. Ef þú eykur við magn gjaldmiðils í umferð þá rýrir þú kaupmátt hans.
Flökt á kaupmætti gjaldmiðils getur auðvitað átt sér stað af ýmsum ástæðum: Væntingum og vonum, slæmum fréttum eða vondu veðri. Þetta eru hins vegar skammtímasveiflur. Til lengri tíma getur almennt hækkandi verðlag í gjaldmiðli ekki átt sér aðrar ástæður en aukningu á magni hans í umferð.
Peningamagn í umferð getur svo vissulega aukist með öðrum leiðum en beinni útgáfu peninga í umferð. Bankar hafa t.d. víða mikið vald til auka við magn peninga í umferð, t.d. í gegnum bindiskylduna. Maður dregur 1000 kr. undan kodda sínum og leggur inn á bankabók. Bankinn er e.t.v. bundinn 10% bindiskyldu í seðlabankanum og leggur 100 kr. þar inn en lánar svo 900 kr. út til næsta manns, sem fær peninginn inn á sína bankabók, og hvers banki tekur 90 kr. og leggur inn á reikning sinn hjá seðlabankanum og lánar 810 kr. út og svona koll af kolli þar til upphaflegi 1000-kallinn er kominn margfaldur í umferð.
Þetta vefst fyrir mörgum og kannski skiljanlega enda er þetta kennt mjög víða. Fólk heldur að verðbólga sé einskonar "draugur" sem sækir á lasburða hagkerfi eins og vont veður eða ólæknanleg plága. Menn kenna allskyns fyrirbærum um komu verðbólgudraugsins, eins og lækkandi olíuverði eða uppnámi á fiskmörkuðum.
Í Venesúela keyra menn peningaprentvélarnar á fullu. Verðbólgan þar í landi er heimatilbúið vandamál. Þar mæla menn nú verðgildi peningaseðla með vigtum en ekki aflestri. Og heimurinn heldur að olíuverðið sé hér vandamálið.
Bæta mörgum núllum á seðlana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.