Formennirnir finna út úr þessu sjálfir

Það stefnir í að forseti Íslands ætli að láta flækja sig í einhvers konar valkvíða. Það er skiljanlegt. Eins geðþekkur og ágætur og maðurinn er þá hefur hann ekki beinlínis haft góða upplifun af því að taka ákvörðun. Í kosningabaráttunni eyddi hann miklum tíma í að tala um hvað aðrir hefðu misskilið hann og hvað hann hefði í raun átt við með hinum og þessum ummælum. Varla vill hann byrja forsetaferil sinn á því að taka einhverja umdeilda ákvörðun, er það?

Það stefnir í að formenn þriggja flokka ætli að ná saman um myndun ríkisstjórnar, sem yrði þá samsett úr Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð. Þetta er að mínu mati algjör draumastjórn miðað við kosninganiðurstöðurnar. Þetta yrði - með orðum Stundarinnar - hægrisinnaðasta ríkisstjórn lýðveldissögunnar, sem er auðvitað alveg frábært. 

Slík stjórn verður ekki lengi að standa við afnám tolla um áramótin og fyrirhugaðar skattalækkanir. Hún yrði líka að byrja endurskoða aðkomu ríkisins að allskonar rekstri sem það flækist fyrir í dag, svo sem á heilbrigðisstofnunum og skólum, vegum og fjölmiðlafyrirtækjum. Hún þarf að innleiða markaðsaðhald og samkeppni þar sem í dag er ríkiseinokun og stöðnun. Hún verður vonandi ekki í neinum vandræðum með að gera áætlanir um frelsun landbúnaðarins úr klóm hins opinbera og stuðla þannig að því að bændur verði sjálfstæðir atvinnurekendur en ekki leiguliðar og ölmusaþegar hjá hinu opinbera. Ísland gæti haldið áfram að gera fríverslunarsamninga við umheiminn. 

Og drífur sig svo vonandi í að gefa áfengissölu frjálsa á Íslandi (til allra eldri en 18 ára). 

Sjáum hvað setur en það stefnir í að úr því sem komið var þá verði niðurstaðan þolanleg. 


mbl.is Forsetinn ræddi við Benedikt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hefur Katrín nokkuð verið spurð út í launahækkun kjararáðs?  Hún mun taka við þessu þegjandi og hljóðalaust en hækka skatta til að ná fram sínum frábæra jöfnuði.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 2.11.2016 kl. 07:43

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Nú er það reyndar svo að hún hefur ekkert um það að segja hvort hún taki við launahækkuninni eða ekki, og sýndarmennska borgarstjóra mun engu breyta. Það er Alþingi sem þarf að breyta lögum. Eða svo skilst mér.

A.m.k. var það álit spekinga að Davíð Oddsson yrði skyldugur til að taka við launum sem forseti hvort sem honum líkaði betur eða verr.

Hvað fólk gerir þegar það hefur fengið útborgað er önnur saga. Peninga má alveg gefa eftir útborgun og launin þar með, að hluta eða í heild. 

Geir Ágústsson, 2.11.2016 kl. 08:05

3 identicon

Heldurðu að hún geti allt í einu ekki tjáð sig núna?  Mér finnst ekki nema eðlilegt að hún sé spurð og í rauninni furðulegt að hún hafi ekkert um málið að segja. Hún hefur talað svo mikið um jöfn tækifæri fyrir alla.  Af hverju heyrist ekkert í henni?  Er hún alveg að kafna úr hlátri heima hjá sér?

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 2.11.2016 kl. 09:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband