Laugardagur, 29. október 2016
Er Ísland tilbúið í ríkissjóðahrunið?
Haustið 2008 var hrun hins alþjóðlega fjármálakerfis. Stórir bankar fóru á hausinn. Aðrir voru gleyptir af hinu opinbera eða fengu lán úr vösum skattgreiðenda. Yfirskuldsett fyrirtæki fóru á hausinn. Margir töpuðu miklu fé. Sársaukinn var mikill fyrir marga. Þetta voru samt bara bankar. Verksmiðjur stóðu ennþá. Ríkissjóðirnir gátu ennþá fjármagnað hinn opinbera rekstur.
Næsta hrun verður af öðru tagi - eins konar bankahrun á sterum. Hér hrynja ekki bara bankar heldur líka ríkissjóðir. Ítalía, Grikkland, Spánn og jafnvel Frakkland, Portúgal og fleiri ríki munu ramba á barmi gjaldþrots. Það er ekkert gÅ•ín að búa í gjaldþrota ríki. Hver á að bjarga öllum þessum ríkissjóðum? Einhverjir sjóðir? Kínverjar byrja sjálfsagt að kaupa sig inn í evrópsk ríkisskuldabréf í auknum mæli til að eignast hlutdeild í verðmætasköpun álfunnar. Ýmislegt ófyrirsjáanlegt mun eiga sér stað.
Er Ísland tilbúið í þennan veruleika?
Já og nei.
Það hefur verið gæfa Íslands að undanfarin fjögur ár hefur tekist að greiða niður megnið af skuldum hins opinbera. Samkeppnishæfni landsins er einnig að vaxa svolítið. En hvað á Ísland að gera ef ferðamenn hafa ekki lengur efni á því að heimsækja landið? Fellur þá allt hagkerfið? Getur sjávarútvegurinn haldið áfram að standa fyrir sínu? Á kannski að mjólka hann til dauða áður en þörfin fyrir verðmætasköpun hans verður meiri en nokkru sinni fyrr?
Nú hef ég svo sem engin svör við komandi hörmungum önnur en þau að skuldir eru slæmar og að ekki dugi að veðja öllum sparnaðinum á eitthvað eitt.
Það er gott að eiginfjárstaða Íslendinga hefur náð sér á strik undanfarin misseri og að skuldir þeirra hafi lækkað.
Það er gott að viðskiptahindranir við útlönd hafi hörfað, t.d. með afnámi vörugjalda og komandi afnámi næstum því allra tolla.
Er þetta nóg til að verja sig fyrir ríkissjóðahruninu? Um það er erfitt að spá.
Ég vona að Íslendingar geri sig tilbúna. Þeir munu ekki sleppa óskaddaðir þótt þeir séu að mörgu leyti betur undirbúnir en margir aðrir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.