15 tíma vinnuviku!

Ég ætla að bjóða betur en nokkur stjórnmálaflokkur og lofa öllum 15 tíma vinnuviku! Hvernig? Jú, sjáið til. Ein möguleg útfærsla er sú að vinna 7,5 tíma á mánudegi og 7,5 tíma á þriðjudegi og vinna ekki meira þá vikuna. Voila!

Önnur útfærsla er sú að vinna 3 tíma á dag 5 daga vikunnar.

Sjá ekki allir hvað þetta er einfalt?

En alltaf þurfa einhverjir afturhaldssinnar að mótmæla og segja: Fólk fær varla borgað nóg af það vinnur bara 15 tíma á viku. Þarf ekki að skylda fyrirtækin til að halda laununum óbreyttum?

Við því er ekki hægt að segja annað en jú - fyrirtæki verða að halda áfram að borga sömu laun þótt vinnuvikan sé stytt úr 40 tímum í 15 tíma. Þau geta það auðvitað ekki og slík kvöð dregur úr þeim þrótt en þetta er svo mikið réttlætismál að slíkt á ekki að ræða.

En þá segir einhver: Getur fólk ekki bara tekið á sig smá skerðingu í staðinn fyrir 5 tíma meiri frítíma? Hafa ekki margir það svo gott á 40 tímum að þeir geta leyft sér að vinna minna og fá minna í laun?

Við því er ekki hægt að segja annað en nei - þetta á ekki að vera eitthvað einkamál hvers og eins. 

Enn er spurt: Eru ekki til þeir sem vilja vinna mikið eina vikuna til að geta unnið lítið aðra vikuna? Hvað á að gera við slíkt fólk?

Slíkt á auðvitað að banna. Vinnuvikan er ákveðinn tímafjöldi sem þingmenn koma sér saman um. Hann er ekki eitthvað samkomulag launþega og atvinnuveitenda.

Ég segi: Gleymið þessu ömurlega tilboði um 35 tíma vinnuviku og takið þátt í minni byltingu fyrir 15 tíma vinnuviku! Því ef launþegar komast ólaskaðir frá 35 tíma vinnuviku með valdboði þá komast þeir ólaskaðir frá 15 tíma vinnuvikunni. Það gefur augaleið. 


mbl.is Styttri vinnuvika innan seilingar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hefðir þú sagt það sama þegar lög um 40 tíma vinnuviku voru sett á?

Bjarni Þór Sigurðsson (IP-tala skráð) 28.10.2016 kl. 14:52

2 identicon

Bjarni

Frjálshyggjumenn hefðu að sjálfsögðu sagt hið sama þá.

Staðallinn á að vera einstaklingsfrelsi. Ef ég vil vinna hjá fyrirtæki í tilteknar klukkustundir á viku fyrir tiltekin laun og báðir aðilar samþykkja það af fúsum og frjálsum vilja, þá hefur meirihluti lýðræðismúgs engan rétt á því að koma þar inn á milli, banna viðskiptin og traðka þar með á einstaklingsrétti annarra.

R (IP-tala skráð) 28.10.2016 kl. 17:41

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Löggjöf sem kveður á um ákveðna vinnuviku geta verið af tvennu tagi:

- Fylgt almennri tilhneigingu í hagkerfum vaxandi verðmætasköpunar þar sem fólk dregur sjálfviljugt úr vinnutímanum því það hefur efni á því. Löggjöfinni er svo breytt til að falla að þeirri tilhneigingu. Fólk hætti t.d. að vinna 50 tíma og fer niður í 40. Löggjöfin kemur svo í kjölfarið og kveður á um 40 tíma vinnuviku. Þetta er eins og að setja hámarksverð á eitthvað í upphæð sem nú þegar er markaðsverð.

- Löggjöfin reynir að hlaupa á undan verðmætasköpuninni og styttir vinnutíma fólks þótt það sjálft eða fyrirtækin sem hafa það í vinnu hafi engan veginn efni á því. Slík löggjöf veldur atvinnuleysi og kostnaði sem þarf að velta é neytendur og sem þeir eru ekki alltaf tilbúnir að borga. 

Nú er það mín tilfinning að margir vinni ekki nema 35 tíma á viku, t.d. vel borgað skrifstofufólk með börn. Kannski þarf það samt að hanga 40 tímaá skrifstofunni en gæti sleppt því. Þeir munu ekki bera mikinn skaða af löggjöf sem þessari. Aðrir eru hins vegar að vinna stanslaust í 40 klst á viku og jafnvel yfirvinnu ofan á það því fyrirtækið hefur ekki efni á að borga fyrir iðjuleysi né ráða fleira fólk. Þessu fyrirtæki þarf að loka og starfsfólkið missir vinnuna.

Geir Ágústsson, 29.10.2016 kl. 13:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband