Hvað gerist næst?

Á Íslandi og víðar eru sterk hagsmunaöfl að reyna að koma í veg fyrir að fólk deili svokölluðu höfundarvörðu efni gjaldfrjálst á netinu og að aðrir sæki sér það.

Þessu má líkja við að menn reyni að koma í veg fyrir að vatn renni í gegnum sigti með því að stoppa í götin, eitt í einu. Á meðan eitthvað gat er opið mun vatnið komast í gegn.

Þetta er varhugaverð þróun. Það er eitt að til séu lög sem verja höfundarrétt og að menn brjóti þau lög. Ég get alveg sýnt því skilning að menn reyni hér að framfylgja lögunum. Sumir telja að slík lögbrot dragi úr tekjum listamanna og höfunda að höfundarvörðu efni og skal ég jafnvel samþykkja það hér, röksemdarfærslunnar vegna, þótt ég sé ekki sannfærður.

Hættan er hins vegar sú að þegar yfirvöld eru fyrst byrjuð að leggja hindranir á netumferð, sía út ákveðnar síður og þvinga fyrirtæki til að loka ákveðnum síðum þá sé engin leið að segja til um það hvar slík ritskoðun staðnæmist. 

Til að vita hverju á að loka eða hvað á að sía út eða hverja á að sækja til saka fyrir lögbrot þarf að vita hvaða síður fólk er að heimsækja. Þetta er eftirlit sem yfirvöld hafa með höndum. Sá sem vill fylgjast með hvort maður borði epli eða banana fylgist um leið með því við hverja hann talar, hvað hann er lengi á klósettinu og hvaða bílum hann keyrir, svo dæmi séu tekin. Yfirvöld eru hér að troða sér inn á netið til að fylgjast með borgurunum. 

Í dag berjast yfirvöld gegn barnaklámi, ólöglegu niðurhali og hryðjuverkasamtökum á netinu. Stundum þarf að loka síðum og það er þá rækilega rökstutt með tilvísun í lögin og almennt siðferði í samfélaginu. Á morgun getur tíðarandinn hins vegar breyst og hvað verður þá talið óæskilegt? Heimasíður eins og sú sem þessi orð eru skrifuð á? Málefnaleg barátta gegn hinu sívaxandi ríkisvaldi? Stuðningsyfirlýsingar við ákveðna stjórnmálamenn? Þeir sem vilja giska á það hvert opinbert eftirlit færir út anga sína geta ekki staðnæmst við neitt í raun.

Síður eins og Deildu.net munu alltaf finna farveg á meðan einhver netumferð er leyfð. Í stað þess að beita afli væri e.t.v. ráð að auðvelda löglegum veituaðilum lífið, t.d. með því að afnema skyldu á textun efnis og afnema alla skatta af rekstri fyrirtækja. Ég held að Netflix, Apple og Spotify hafi gert meira fyrir baráttuna gegn ólöglegri deilingu efnis en öll stjórnvöld lögð til samans.


mbl.is Engar aðrar leiðir en DNS-fölsun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Góður pistill. Sammála hverju orði.

Sumarliði Einar Daðason, 19.9.2016 kl. 13:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband