Hverjir eiga að ráða landamærum Bretlands?

Bretar ætla að segja sig úr Evrópusambandinu og standa vonandi við þann ásetning.

Ýmis öfl innan sambandsins vilja samt gera það ferli sem sársaukafyllst og erfiðast fyrir Breta. 

Sumir telja að viðskiptahindranir eigi að rísa við Bretland, sennilega áþekkar þeim og sambandið beitir á önnur ríki utan sambandsins (ef EES-ríkin eru undanskilin, að hluta). 

Sumir telja að landamæri Bretlands eigi áfram að vera opin öllum íbúum Evrópusambandsins. Það má teljast ólíklegt að Bretar loki á útlendinga. Þeir munu áfram vilja vinnandi hendur og erlenda fjárfestingu en e.t.v. loka á þá sem eru bara á eftir bótum og húsnæði. Þetta dugir ekki þeim sem vilja losna við ónytjunga sína úr eigin landi og moka yfir í velferðarkerfi annarra sambandsríkja. 

Úrsögn Bretlands verður prófraun á það hversu mikið "samband" Evrópusambandið er og hvort það líkist ekki miklu frekar sambandsríki þar sem úrsögn er mætt með valdi (svipað því og Suðurríki Bandaríkjanna urðu fyrir þegar þau vildu segja sig frá Washington). 

Styrkleiki Evrópu var um langa hríð (fleiri aldir) pólitísk samkeppni. Evrópa samanstóð af gríðarlegum fjölda ríkja, furstadæma, borgríkja og þess háttar. Þessi pólitíska sundrung var mikill suðupottur tilraunastarfsemi í auðsköpun (meðal annars). Að vísu fylgdi þessari pólitísku sundrungu líka stríðsbrölt, a.m.k. fram á 19. öld. Þökk sé hinni pólitísku sundrungu var auðveldara en ella fyrir Martin Luther að finna skjól fyrir ofsóknum kaþólsku kirkjunnar. Hollendingar sérhæfðu sig í bankastarfsemi og stóðu sig betur en aðrir og uppskáru ríkulega. Fleiri dæmi má týna til en boðskapurinn ætti að blasa við. 

Nú er hætt við að stöðlun Evrópuríkja leiði til stöðnunar þeirra - efnahagslegrar sem og á öðrum sviðum mannlífsins. Og enginn fær að hætta sársaukalaust. 


mbl.is Gætu beitt neitunarvaldi gegn Bretum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Það sem afskaplega fáir vita er að Bretar eru með alla ásana á hendi í þeim viðræðum sem senn fara í hönd.

70 milljarða viðskiptahalli er á viðskiptum Breta við ESB, Bretum í óhag. Það þýðir á mannamáli að ef elítan innan ESB ætlar að vera ósveigjanleg í viðræðum við Breta munu þúsundir manna hið minnsta missa vinnuna innan ESB - sérstaklega franskir vínframleiðendur og framleiðendur bíla í Þýskalandi. Miklu skiptir því fyrir mikinn fjölda manna innan ESB að skynsamlegir samningar náist við Breta einfaldlega vegna þess að ESB ríkin þurfa meira á því að halda að slíkir samningar náist en Bretar.

Nú þegar hafa nokkur ríki sett sig í samband við Breta og óskað eftir viðræðum um fríverslunarsamning. Vonandi ganga þær viðræður hratt og vel fyrir sig. 

Ein ástæða þess að Bretar ákváðu að yfirgefa ESB er sú að þeir ráða ekki eigin málum sjálfir, Bretar hafa að sjálfsögðu ekkert á móti innflytjendum en skiljanlega vilja þeir fá að ráða því sjálfir hverjir koma til Bretlands. Þeir vilja líka fá að veiða þann fisk sem er við strendur Bretlands en í dag er sú ekki raunin nema að litlu leyti.

Fólk flýr ekki lönd með blómlegan efnahag, höfum það í huga eins og þú ýjar að. Það þýðir þá að yfirvöld víða í Evrópu eru ekki að standa sig. 

Svo er nú annað sem vert er að vekja athygli á: Elítan í Brussel hefur nú minna vald og úr minna fé að moða. Árið 2015 greiddu Bretar nettó 8,5 milljarða punda til ESB. Fjárþörf landa innan ESB minnkar ekki á milli ára og fyrst 8,5 milljarðar punda eru ekki klink þurfa fátækari lönd ESB einfaldlega að herða sultarólina eða ríkari þjóðir (aðallega Þjóðverjar þá) að greiða meira  í staðinn. Um þetta verður deilt innan ESB á næstunni og verða þær deilur hatrammar.

ESB er dauðadæmt bandalag sem hefur valdið íbúum álfunnar miklum búsifjum. 

Helgi (IP-tala skráð) 18.9.2016 kl. 10:43

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Helgi,

Takk fyrir marga mjög góða punkta. Ég vissi t.d. ekki þetta með viðskiptahallann. 

Það er óhætt að segja að spennandi pólitískur vetur sé framundan í Evrópu!

Geir Ágústsson, 18.9.2016 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband