Miðvikudagur, 14. september 2016
Þegar heyrnaskertir þurftu að bíða
Árið 2006 birtist lítil frétt í Fréttablaðinu þar sem lesendum var tjáð að biðlistar hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands heyrðu nú sögunni til, hvorki meira né minna, og eitthvað sem er varla hægt að segja um mörg önnur svið heilbrigðiskerfisins.
Hvernig stóð á því að biðlistar eftir heyrnartækjum hurfu? Fréttin veitir örlitla innsýn í það: Kostnaðarþáttur einstaklingsins hafði aukist og fjármagn hafi myndast eftir reglugerðarbreytingu tæpum þremur árum áður.
Á mannamáli þýddi reglugerðarbreytingin einfaldlega að ríkið afnám einokun sína af viðskiptum með heyrnartæki. Einkaaðilar urðu til sem náðu til sín vel borgandi viðskiptavinum, þ.e. þeim sem gátu keypt sig út úr biðröð hins opinbera, og flöskuhálsar, biðlistar og önnur óþægindi hurfu á örfáum misserum.
Talsmenn ríkiseinokunar á heilbrigðisþjónustu segja gjarnan að aukin aðkoma einkaaðila muni leiða til þess að þeir ríku kaupi sig fram fyrir í röðinni. Hvað ef þeir ríku mynda einfaldlega aðra röð og stytta þannig hina sem hinir efnaminni þurfa að standa í, eða hreinlega útrýma henni? Eru þá ekki allir betur staddir?
Reynsla heyrnaskertra bendir a.m.k. til þess og aldrei hafa sjónskertir þurft að standa í röð svo hví ekki að leyfa einstaklingum með athyglisbrest að njóta sömu þjónustu?
636 fullorðnir bíða greiningar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.