Miðvikudagur, 7. september 2016
Vandamálin við skattheimtu í flóknu skattkerfi
Skattkerfi eru víða flókin og erfið í framkvæmd. Þetta veldur mörgum tegundum af vandræðum.
Í fyrsta lagi getur heiðarlegt fólk sem gjarnan vill greiða alla skatta í topp lent í vandræðum með að gera það því skattkerfið er svo flókið að fólk getur einfaldlega ekki komist að því hvað það á að borga í skatt. Ágætur vinnufélagi minn hérna í Danmörku sagði mér einu sinni að hann þyrfti að fá endurskoðanda á hverju ári til að fara yfir gögnin hans og að það færi í taugarnar á honum að geta ekki reiknað út sína eigin skattbyrði.
Í öðru lagi er eftirlit með skattheimtu allt í senn þungt, tímafrekt og dýrt. Oft er miklu fé eytt í að fylgjast með skattheimtunni. Í Danmörku gera vinnufélagar mínir nú grín að því að vegna einhverra mistaka hjá hinu opinbera þarf nú að eyða 7 milljörðum danskra króna til að rekja 7 milljarða af töpuðu skattfé. Er þá ekki betur heima setið en af stað farið?
Í þriðja lagi eru flókin skattkerfi alltaf full af holum. Engu máli skiptir hvað hið opinbera gerir til að reyna loka holunum - alltaf eru til duglegir lögfræðingar sem gera ekki annað en að þefa þær uppi og nýta fyrir skjólstæðinga sína. Hér er ég ekki að tala um lögbrot heldur löglegar leiðir til að lágmarka eða a.m.k. takmarka skattheimtuna.
Í fjórða lagi geta þeir sem vilja brjóta lög nýtt sér alla ringulreiðina og komist hjá skattgreiðslum með ýmsum aðferðum, bæði löglegum og ólöglegum. Fórnarlömbin eru fyrstu og fremst þeir sem eru heiðarlegir en lenda í ítrekuðum fyrirspurnum tortrygginna skattayfirvalda og þurfa að gera grein fyrir öllu með smásmugulegum hætti - nokkuð sem er ekki á færi allra nema mestu sérfræðinganna.
Best væri auðvitað að ríkisvaldið væri svo lítið og afmarkað að skattheimta væri varla nokkur. Næstbest er að átta sig á því að einfalt, gegnsætt, hófsamt og undanþágulaust skattkerfi er að sama skapi skilvirkast og réttlátast. Um leið skilur það ekki eftir sig slóð af vel meinandi fórnarlömbum meðal þeirra sem vilja vera löghlýðnir en vita ekki hvernig á að fara að því.
Greiddu 155 milljónir fyrir Panamagögn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.