Fimmtudagur, 1. september 2016
Að eiga fyrir náminu
Það er gott að LÍN upplifi nú fækkun á umsóknum um námslán frá ríkinu. Það bendir til þess að fleiri hafi nú efni á því að sjá fyrir sjálfum sér. Efnahagsástandið er líka betra en það hefur verið í 10 ár og auðveldara fyrir ungt fólk að skrapa saman aur fyrir veturinn.
Námsmenn vinna yfirleitt ekki fulla vinnu nema á sumrin. Það þýðir að þeir geta nýtt sér uppsafnaðan persónuafslátt og borgað nánast enga tekjuskatta af sumarlaununum. Þeir geta því safnað peningum og sleppt því að taka lán. Að hugsa sér ef skattar væru yfirleitt og almennt lægri og jafnvel nálægt núllinu! Þá gætu mun fleiri en ungir námsmenn leyft sér að eiga fyrir framfærslu sinni í stað þess að sökkva sér í skuldafen, t.d. vegna húsnæðis- eða bílakaupa!
Yrði það ekki stórkostleg búbót fyrir samfélagið - að fólk ætti yfirleitt fyrir hlutunum í stað þess að borga himinháa skatta og vonast svo til að "fá eitthvað til baka" í formi allskyns styrkja, bóta og niðurgreiðsla?
Nú fyrir utan að það er hundleiðinlegt að skulda LÍN.
Það besta við að námsmenn eigi fyrir náminu er að ég tel að það bæti val þeirra á námi. Námsmaður sem er að reyna hámarka afraksturinn af þeirri fjárfestingu sem nám er hlýtur að velja frekar nám sem skilar honum vinnu og tekjum en sá sem lítur á niðurgreidd námslán sem einhvers konar réttmæta heimtingu á fé annarra. Vonandi.
Færri sækja um námslán hjá LÍN | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.