Ríkisvaldið í borðspili

Flestir kannast við borðspilin Matador og Monopoly sem snúast um að kaupa og selja og kreista leigu út úr þeim sem lenda á tilteknum reitum. Menn spila oft kæruleysislega og taka áhættur enda eru þátttakendur ekki að spila með eigin peninga. Auðvitað er metnaður að þéna sem mest og vinna spilið en lengra nær það samt ekki. Spilað er með gervipeninga og leikendur eru jafnvel staddir eftir spilið hvort sem þeir vinna eða ekki.

Þegar ríkisvaldið reynir að reka fyrirtæki er svipuð staða í gangi. Stjórnmála- og embættismenn reyna að græða og vinna ákveðna leiki en eru ekki að spila með eigin peninga. Þeir fá sín laun hvort sem spilið gengur upp eða ekki.

Menn geta alveg ímyndað sér muninn á hvötum þegar þetta er staðan samanborið við viðskipti einkaaðila sem leggja eigið fé undir. Hvatarnir eru einfaldlega aðrir.

Sumir vilja meina að sá sem spilar borðspil spili með betra hugarfari eða göfugra - hann fjárfestir í sjálfbærni, umhverfi, jafnrétti og til langtíma á meðan sé sem spilar með eigið fé spilar til skamms tíma og af annarlegum hvötum. Þessu er ég ósammála. 

Íslenska ríkisvaldið á auðvitað að koma sér út úr rekstri flugvalla með öllu. Til vara ætti að minnka hlut ríkisins til mikilla muna. Hér má leita fordæma í hinum Norðurlandanna (frekar en til Sovétríkjanna sálugu eins og Íslendingum er gjarnan tamt). Til dæmis er Kaupmannahafnarflugvöllur að mestu leyti í eigu einkaaðila. Margir óttuðust það versta þegar ríkisvaldið seldi ráðandi hlut sinn á sínum tíma en enginn kvartar í dag enda flugvöllurinn einn sá besti í heimi að margra mati.

Borðspil eru skemmtileg en eiga ekki að spilast með eignir annarra.  


mbl.is Of mikil áhætta fyrir ríkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er algerlega ósammála þessum málflutningi. Málið er að Isavia er ríkisfyrirtæki sem á eftir að græða milljarða á komandi árum. Það var enginn einkaaðili til í að byggja flugstöðina á sínum tíma. En nú þegar alvöru hagnaðarvon er eru þeir alveg eins og tíkin tilbúin að fjárfesta. Reynslan sýnir okkur að þegar svona gjörningar fara fram, þá er ekkert greitt fyrir þessi fyrirtæki. Heldur eru þau bara afhent einhverjum vildarvinum stjórnmálamanna. Það er ríkið sér um kostnaðinn en vildarvinirnir hirða hagnaðinn. Eru menn virkilega búnir að gleyma einkavæðingu bankanna svo eitthvað sé nefnt. Svo þarf styrkjadrengurinn að skila eigendum sínum einhverju til baka að því sem þeir fjárfestu í honum á sínum tíma og gera sjálfsagt enn. Ég hef heyrt utanaf mér að framundan sé mesta rán Íslandssögunnar á bitastæðum ríkisfyrirtækjum og að það sé raunverulega  ástæðan fyrir því að svona margir eru að hætta á þingi eftir þetta kjörtímabil. Þeir bara geta ekki hugsað sér að taka þátt í þessu rugli. Og þegar ég les svona grein, hugsa ég með mér. "Jæja er þá eitthvað til í þessum sögusögnum".

Menn sem þurfa að stela ríkisfyrirtækjum til að "plumma" sig í rekstri, eiga ekkert og kunna ekkert að reka fyrirtæki. sagan hefur margsýnt okkur það. En hvernig á að stoppa svona þjófnað, það bara veit ég ekki. Það eru alltaf einhverjir tilbúnir í svona siðblindu. Og að lokum, ef bitastæð ríkisfyrirtæki fengju að vera í ríkiseigu þá ættum við nóga peninga til að reka samneysluna. Og værum búin að byggja nýjan Landsspítala svo eitthvað sé nefnt.

Stoppum þessa þvælu, því fyrr því betra.

Steindór Sigurðsson (IP-tala skráð) 11.8.2016 kl. 13:15

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sem sagt, sovéska módelið frekar en hið norræna?

Geir Ágústsson, 11.8.2016 kl. 14:59

3 identicon

Mér er nákvæmlega sama hvað þú kallar þessi módel. Ég hef ekkert á móti því að menn stofni fyrirtæki og standi sig vel í rekstri þeirra, en að einkaframtakið grundvallist á að sölsa undir sig, vel rekin ríkisfyrirtæki. Já ég er algerlega á móti því.

Við skulum bara ryfja upp einkavæðingu Landsbankans á sínum tíma. Þá var því logið að þjóðinni að hann væri borgaður með Rússagulli. En sannleikurinn var sá að það var labbað í næsta banka og tekið lán fyrir Landsbankanum. Og eftir því sem ég veit best er ekki ennþá búið að borga eina afborgun af þessu láni.

Að mínu mati eru það algerlega viti fyrrtir menn sem vilja edurtekningu á svonalöguðu. Alveg sama hvorrt menn kalla það norrænt eða rússneskt.

Steindór Sigurðsson (IP-tala skráð) 12.8.2016 kl. 04:24

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Auðvitað á ríkisvaldið að fá peninga fyrir sölu á eignum. Það er tæknilegt útfærsluatriði sem hlýtur að vera hægt að ganga sómsamlega frá, t.d. í ljósi reynslunnar.

Það má ekki gleyma því að "vel rekin ríkisfyrirtæki" eru það oft af því ríkisvaldið situr í stöðu einokunaraðila á tilteknum markaði og heldur þannig aftur af eðlilegri þróun. Hver veit, kannski væru nú einkaaðilar búnir að byggja upp flugvallaraðstöðu víðar en í Keflavík í stað þess að beina öllum kröftunum að einu horni landsins og vanrækja afganginn?

Ríkisvaldið sem rekstraraðili er hugmynd sem gengur út á að ríkiseinokun sé betri en markaðsaðhald og samkeppni. Ég er einfaldlega í grundvallaratriðum ekki á þeirri skoðun.  

Geir Ágústsson, 12.8.2016 kl. 04:28

5 Smámynd: Steindór Sigurðsson

Af hverju byggir einkaframtakið þá ekki flugvelli annarsstaðar á landinu í samkeppni við Keflavíkurflugvöll. Ég er viss um að það stendur ekkert í veginum fyrir því.  En við vitum báðir að það tæki svo langan tíma að borga sig ef það þá borgar sig nokkurntímann. Það væri alveg sársaukalaust af minni hálfu. Gangi þeim bara sem allra best.

Steindór Sigurðsson, 12.8.2016 kl. 04:44

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Af hverju eru ekki fleiri að framleiða skyr og jógúrt í samkeppni við MS og bændastéttina sem á hlut þar og gerir sérstaka búvörusamninga við ríkið?

Af hverju fer enginn í samkeppni við taphítina í Hörpu?

Af hverju eru ekki vegaframkvæmdir víðar á könnu þeirra sem hafa hag af þeim? 

Af hverju fer enginn í samkeppni við lögregluna sem virðist eyða mikið af tíma sínum í að farga plöntum, hella niður úr landabrúsum og ónáða fólk sem leigir út herbergi á heimili sínu?

Af hverju eru ekki fleiri bankar á Íslandi sem keppa við stóru viðskiptabankana og Seðlabanka Íslands?

Það er eitt að "mega" gera eitthvað en þegar hindranir eru margar, samkeppnisaðilinn vel hjúfraður í verndarhjúp ríkisvaldsins og regluverki yfirþyrmandi þá kafna margar góðar hugmyndir strax í fæðingu.

En auðvitað er dýrt og erfitt að byggja alþjóðaflugvöll sama hvað, en við vitum ekki hvað væri orðið raunin í dag ef einum flugvelli væri ekki hampað svona mikið. 

Geir Ágústsson, 12.8.2016 kl. 07:35

7 Smámynd: Steindór Sigurðsson

Já það má velta hlutunum fyrir sér á marga vegu t.d. eiga sum fyrirtæki að vera í eigu almennings. Þar getum við nefnt Orkuveituna, hvað heldur þú að rafmagn og hiti til heimila kostaði í dag á höfuðborgarsvæðinu ef þeim hefði tekist að einkavæða hana fyrir hrun. Ég þori bara ekki að hugsa þá hugsun til enda.

En svo eru önnur fyrirtæki sem eiga að vera í einkaeigu. T.d. finnst mér allt í lagi að selja R.Ú.V. En svo eru aðrir fjölmiðlar sem okkur er talið trú um að séu einkareknir en eru reknir af einkaaðilum en fjármagnaðir af ríkinu. Þá er nærtækast að nefna fjölmiðilinn sem við erum að tjá okkur í núna. Vegna afskrifta er ekki hægt að tala um að sá miðill sé einkarekinn. Hann er rekinn af einkaaðilum en fjármagnaður af ríkinu. Því afskriftir enda alltaf á almenningi í landinu.

En að byggja upp fyrirtæki af ríkinu og svo þegar menn sjá hagnaðarvon þá á að setja hagnaðinn í eikavasa. Geir erum við ekki búin að fá að sjá nóg af svoleiðis rugli á Íslandi. 

Steindór Sigurðsson, 12.8.2016 kl. 14:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband