Þriðjudagur, 9. ágúst 2016
Verðtrygging er viðbragð við vandamáli en ekki vandamálið í sjálfu sér
Íslenska ríkisvaldið hefur ásetning um að gefa út gjaldmiðil: Íslensku krónuna. Útgáfan sem slík hefur alltaf gengið ágætlega. Að hafa hemil á útgefnu magni hefur ekki gengið eins vel.
Verðbólga er afleiðing aukningar á peningamagni í umferð. Hún kemur fram þegar aukið magn peninga keppir um svipað magn af vörum og þjónustu. Verð er einfaldlega sú upphæð sem verður til þegar framboð og eftirspurn nær jafnvægi. Verðbólga er niðurstaðan þegar eftirspurnin eykst en framboðið helst óbreytt eða svipað.
Verðtrygging er viðbragð við verðbólgunni, þ.e. hinu aukna peningamagni í umferð. Hún er ekki vandamálið. Henni var ekki komið á af einhverri léttúð. Lánamarkaðir voru ekki til staðar á Íslandi og verðtryggingin var viðbragð við því.
Ef menn banna verðtrygginguna eða setja hömlur á hana sem valkost fyrir þá sem vilja (því ekki er hún lagaskylda) þá geta menn búist við afleiðingum.
Auðvitað væri réttast að íslenska ríkið léti peningaútgáfu alveg eiga sig og gerði val fólks á peningum frjálst, sem og útgáfu á peningum. Við því er samt ekki að búast í náinni framtíð. Á meðan er verðtryggingin í einhverri mynd e.t.v. nauðsynleg til að dempa óhagræðið af ríkisafskiptunum.
Verða Íslandslán bönnuð? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ef ég man rétt er Ísland eina ríkið með íbúafjölda undir hálfri miljón sem er með sinn eigin gjaldmiðil. Færeyjar eru að vísu með færeyska krónu sem er í raun Danska krónan en færeyski gjaldmiðilinn er bundinn henni og gengið bundið Danskri krónu.
Ég er sammála þér að krónan sem slík er ekki vandamálið, heldur umhverfið sem henni er búið þ.e fámennið og smæð þjóðarinnar, einhæfur atvinnuvegur og brothættur efnahagur, sem gerir það að verkum að erfitt getur verið að halda stöðuleka til langs tíma.
Efnahagssaga íslands er þyrnum stráð, gengislækkanir, óðaverðbólga og hrun einkenna hana fram á þennan dag.
Mín spurning er þessi: getur einhver annar gjaldmiðill lagað þessa stöðu og dregið úr þessum óstöðuleika, og þá er ég að tala um alþjóðlega gjaldmiðla s.s Dollar, Evru eða Kanadiskur dollar, eða verðum við einfaldlega að vera áfram með krónuna sem auðvitað endurspeglar bara stöðuna..?
Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 9.8.2016 kl. 14:38
"..verðum við einfaldlega að vera áfram með.."
Þarna er "verðum við" vandamálið að mínu mati. Af hverju verðum VIÐ að vera með eitthvað sérstakt? Þú getur verið með einn gjaldmiðil og ég annan. Ef þú vilt nota krækiber sem gjaldmiðil, ég vil nota sauðfé, sá þriðji gull og sá fjórði bandaríska dollara, þá eigum við allir að geta gert það ef við viljum. Þetta á ekki að koma ríkinu neitt við.
Ragnar (IP-tala skráð) 9.8.2016 kl. 17:02
Helgi,
Það væri engin varanleg lausn að taka upp aðra fjöldaframleidda peninga sem dylja betur undirliggjandi verðbólgu. Dollar, evra og yen eru allir í fjöldaframleiðslu og bóla er að þenjast sem mun springa.
Ragnar,
Ég er sammála því að val á peningum eigi ekki að koma ríkinu við. Verðtrygging er einfaldlega eitthvað lánveitendur hafa geta stutt sig við EF svo vill til að blásið verður í nýja bólu á íslensku krónunni. Að banna verðtryggingu er engum til gagns í því umhverfi sem peningamálum er búið á Íslandi.
Einu sinni var hægt að fara með íslenska krónu í evrópskan banka og skipta á hreinu gulli. Slíka krónu gæti ég vel hugsað mér að velja af fúsum og frjálsum vilja.
Geir Ágústsson, 9.8.2016 kl. 17:26
Ég hef nú lesið það frá fleiri en einum stað, að í raun sé verðtryggingin orsök verðbólgu.
Ótrúlegt hvað fólki getur dottið í hug.
En ég held að þessi verðtryggingarhstería sé að mestu yfirstain. Það er ekki eins aggresífur áróður í gangi og þegar hægri-öflin voru í stjórnarandstöðu og beitt brútalt própagandaofbeldi gegn Jafnaðarstjórninni, m.a. að bara einfalt mál væri að afnema verðtryggingu og þá á þann hátt að sá hluti hyrfi bara, þyrfti ekkert að borga.
Síðan þegar hægri-öflin höfðu komist að kjötkötlunum með óheiðarlegum aðferðum, þá hættu þeir að kosta og kynda undir própaganda og þar með fór alveg vindurinn úr þessari ,,afnema verðtryggingu" blöðru. Er ekki eins mikil stemming fyrir þessu núna, held ég.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.8.2016 kl. 23:30
Það vaða uppi margar villukenningar um verðbólgu en hún er alltaf afleiðing aukningar á magni peninga í umferð. Hvernig sú aukning á sér stað er svo önnur saga. Á Íslandi (og víðar) sjá viðskiptabankarnir um að hlaða peningum ofan á grunnfé sitt í Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn ræður bindiskyldunni. Neytendur éta kaupmáttarrýrnunina.
Geir Ágústsson, 10.8.2016 kl. 08:28
Sæll Geir.
Þú segir fyrst: "Verðtrygging er viðbragð við verðbólgunni, þ.e. hinu aukna peningamagni í umferð. Hún er ekki vandamálið."
Og svo segirðu líka: "Það vaða uppi margar villukenningar um verðbólgu en hún er alltaf afleiðing aukningar á magni peninga í umferð. Hvernig sú aukning á sér stað er svo önnur saga."
Það er hárrétt hjá þér að verðbólga er (næstum) alltaf afleiðing of mikillar aukningar á peningamagni í umferð. Það er hinsvegar röng fullyrðing að verðtrygging sé ekki hluti af því vandamáli. Ástæða þess er nefninlega sú, að verðtrygging eins og hún er iðkuð hér á landi og hvernig verðtryggð útlán eru bókfærð í bankakerfinu, hefur einmitt nákvæmlega þau áhrif að auka sífellt við peningamagn í umferð. Ólíkt því þegar slæmar ákvarðanir mannfólks valda aukningu peningamagns í umferð, gerir verðtrygging það sama nema alveg sjálfkrafa án þess að nein sérstök ákvörðun hafi verið tekin um það, önnur en sú þegar henni var upphaflega komið á sem meginreglu í útlánum bankakerfisins. Þannig er verðtrygging alls ekki afleiðing og verðbólga orsökin, heldur er orsakasamhengið þveröfugt það er að segja: verðtrygging er orsakavaldur og (aukin) verðbólga er afleiðing af þeirri orsök. Afnám verðtryggingar er því beinlínis forsenda fyrir lægri verðbólgu en ella.
Lengi var deilt um hvort slíkt orsakasamband væri fyrir hendi og í hvora áttina það lægi, en af því voru tekin öll tvímæli með rannsókn sem gerð var árið 2013. Við gerð rannsóknarinnar var meðal annars rætt við aðila sem starfa innan bankageirans og staðfestu þeir að svona væri raunverulega í pottin búið. Hér má nálgast skýrslu þar sem greint er frá niðurstöðum rannsóknarinnar: [1302.4112] An examination of the effect on the Icelandic Banking System of Verðtryggð Lán (Indexed-Linked Loans)
Tekið skal fram að rannsókn þessi var unnin í samræmi við raunvísindaleg vinnubrögð sem byggjast á staðreyndum, en ekki ósönnuðum kenningum eins og tíðkast í félagsvísindagreinum á borð við hagfræði. Þar af leiðandi eru niðurstöðurnar ekki bara enn ein kenningin af mörgum, heldur staðreyndir sem hægt er að sannreyna með sama hætti og gert var við framkvæmd sjálfrar rannsóknarinnar sem greint er frá í skýrslunni. Ég skora á þig og alla sem hafa áhuga á þjóðhagsmálum eða vilja hafa skoðanir á verðtryggingu, að lesa þessa skýrslu, hún er ekki löng en afar fróðleg og upplýsandi.
Þessu til viðbótar get ég greint frá því að með hliðsjón af framangreindri rannsókn reiknaði ég nýlega út á grundvelli tölulegra gagna frá Seðlabanka Íslands um verðtryggð lán heimilanna og peningamagn í umferð á árabilinu 2004-2010, að á því tímabili er hægt að rekja að minnsta kosti helming allrar verðbólgu beinlínis til þeirra áhrifa sem verðtrygging hefur haft til aukningar á peningamagni. Athugið að sá helmingur verðbólgunnar er bara vegna útlána til heimila, en restina má líklega að stóru leyti rekja til verðtryggðra útlána til fyrirtækja og annarra lögaðila. Að þessum áhrifum frádregnum hefði hinsvegar verðbólga á þessu sama tímabili verið svo lág að hún hefði að jafnaði verið innan verðbólgumarkmiðs seðlabankans, og að öllum líkindum hefði verðlag hjaðnað á köflum í stað þess að hækka sífellt. Undir slíkum kringumstæðum hefði varla neinn forsendubrestur orðið á lánum í tengslum við hrunið, hvorki skuldaramegin né lánveitanda megin. Jafnframt hefðu allir aðrir í þjóðfélaginu hagnast á meiri verðstöðugleika en ella.
Guðmundur Ásgeirsson, 11.8.2016 kl. 00:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.