Ný söguskoðun vinstrimanna

Í þessari grein Píratans Smára McCarthy eru helstu þættir í nýrri söguskoðun vinstrimanna dregnir saman. Greininni hefur verið deilt af kappi og margir taka undir efni hennar.

Það væri meiri vinna en ég hef tíma fyrir núna að hrekja allt sem kemur fram í greininni. Það tekur minna pláss að fullyrða en hrekja, því miður. Þó stenst ég ekki að draga fram nokkur atriði sem vert er að nefna.

Í greininni er það nefnt að Warren Buffett, einn ríkasti maður heims, segist borga lægri skatta en ritarinn hans. Það er bara að hluta til rétt. Hann borgar lægri skatt af fjármagnstekjum sínum en ritarinn af launatekjum en áður en fjármagnstekjur má greiða út þarf fyrirtækið sem greiðir þær að borga skatta af hagnaði sínum. Samanlagt hefur því Buffett greitt meira í skatt en ritarinn hans. Með því að skilja hluta af skattheimtunni útundan er Buffett að reyna ná fram pólitískum boðskap sem stenst ekki skoðun. Þetta er nánar útskýrt hér.

Í greininni er ekkert gert úr þeirri einkennilegu tilviljun að með tilkomu seðlabanka með nánast ótakmarkað vald til að prenta peninga hefur orðið til nýtt peningakerfi á heimsvísu. Nýir peningar dreifast ekki jafnt í alla vasa. Þeir byrja hjá þeim sem standa næst bankakerfinu og valda aukinni eftirspurn eftir ýmsum varningi og þjónustu sem breiðist síðan út til hagkerfisins. Verðlag hækkar jafnt og þétt. Þeir sem hafa fastar tekjur eða sitja eftir í launahækkunum fá verðbólguna í höfðuðið af fullum þunga. Þeir sem fengu peningana fyrstir gátu notið kaupa sinna á hinu gamla verðlagi.

Ofan á seðlabankakerfið er svo búið að byggja víðtækt net af tryggingum á t.d. innistæður (beint) og gjaldþrot (óbeint). Til að torvelda aðgengi hafa bankarnir svo stuðlað að því að háir aðgangsþröskuldar bíði þeirra sem vilja keppa við þá.

Eða, eins og segir á einum stað (í mikilvægri grein):

Bankar eru ekki venjuleg einkafyrirtæki heldur ríkiseinokunarfyrirtæki. Ríkið reisir háa aðgangsþröskulda að fjármálaþjónustu með reglugerðum og ábyrgist síðan rekstur bankanna með yfirlýsingu um að Seðlabankinn sé lánveitandi til þrautavara og innstæðutryggingu.  

Það má segja að þetta sé hinn raunverulegi flutningur á fjármagni úr vösum fátækra í vasa ríkra. Hefur enginn velt fyrir sér hvers vegna menn sem sýsla við fjármagn geta uppskorið háa bónusa og lifað hátt, nánast sama hvernig árar? Af hverju eru ekki aðrar greinar atvinnulífsins að greiða svona háa bónusa?

Skortur á hagfræðiþekkingu er engum með frumlegar söguskoðanir til bóta.

Það er líka til lítils að gagnrýna ríki fyrir að bjóða upp á hagstæð kjör fyrir þá sem eiga peninga eða vilja eyða peningum. Íslendingar eru að reyna laða til sín kvikmyndaframleiðendur til að framleiða afþreyingu með því að borga beint úr ríkissjóði fyrir hluta af útgjöldum kvikmyndaframleiðenda. Allar ríkisstjórnir - þar á meðal fráfarandi ríkisstjórn - hafa talað fyrir sértækum skattaívilnunum fyrir útvalin iðnfyrirtæki. Ferðamannaiðnaðurinn nýtur hagstæðari kjara gagnvart skattayfirvöldum en flestar aðrar greinar. Það er ekki í tísku að tala fyrir almennum skattalækkunum á allt og alla, hvorki á Íslandi né annars staðar. Stjórnvöld leita því leiða til að keppa í kjörum og fjármagnsöryggi á aðra vegu. Hér væri vissulega til bóta að koma frekar á almennum skattalækkunum sem allir njóta góðs af en það er ekki vð frjálshyggjumenn að sakast að svo sé ekki raunin.  

Að lokum verð ég að staldra aðeins við þessa setningu:

Stærsta vandamál samtímans er efnahagslegur ójöfnuður. Ekkert einstakt vandamál er stærra að umfangi og ekkert vandamál er rót jafn margra annarra vandamála.

Nei, ójöfnuður er ekki rót annarra vandamála heldur afleiðing. Nú er ójöfnuður ekkert sérstakt vandamál í sjálfu sér - það er alveg skiljanlegt og eðlilegt að Brad Pitt sé ríkari en ég og þú og að börn hans haldi áfram að vera rík vegna sjóðssöfnunar föður síns og móður. Í  frjálsum markaðshagkerfinum er hreyfanleiki upp og niður tekjustigann mikill enda byggist auðsköpun í slíkum hagkerfum á eltingaleik við síbreytilegar kröfur neytenda. Ójöfnuður er vandamál að því marki að lög og reglur og fyrirkomulag peningamála gera suma ríka á kostnað annarra, t.d. með notkun, framleiðsu og viðhaldi á stöðugri verðbólgu. 

Hin nýja söguskoðun vinstrimanna er fyrst og fremst byggð á tveimur stoðum:

  • Skilningsleysi á hagfræði
  • Öfund

Vonandi má bæta úr hvoru tveggja og komast nær kjarna málsins svo allir geti rætt um hin raunverulegu vandamál sem blasa við af yfirvegun og þekkingu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fróðleg pæling, persónulega er ég uppteknari af því að arðsemiskrafa t.d. lífeyrissjóða sé hér allt að drepa sem og peningaútgáfa þeirra sem ekkert eiga með slíkt að hafa (eins og þú kemur reyndar inn á).

En að það sé eitthvað nýtt að vinstrimenn byggi sínar skoðanir á ruglaðri hagfræði og öfund, það held ég að sé nú ekki alveg rétt hjá þeir.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 12.7.2016 kl. 07:53

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Bjarni,

Takk fyrir athugasemdina. Að vinstrimenn rugli saman hagfræði og magatilfinningu er ekkert nýtt né einsdæmi. Þeirra eina hagfræði snýst um "skiptingu" verðmæta. Þeir hafa engar kenningar um sköpun þeirra. Þeir spá líka lítið í hvötum. Ég held að flestir vilji og reyni að vera heiðarlegir en láti afvegaleiðast af hvötum, t.d. þeim sem ýta undir að taka mikla áhættu í staðinn fyrir hugsanlegan mikinn ágóða (eiturlyfjasalar), svo ég tali nú ekki um hvata þar sem gróðinn er einkavæddur en tapið þjóðnýtt (bankamenn og aðrir fjársýslumenn). 

Geir Ágústsson, 12.7.2016 kl. 08:26

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er síðan efni í annan pistil að launafólk sé þvingað til að láta af hendi stóran hluta launa sinna og læsa hann inni í lífeyrissjóðum sem starfa nánast eftir eigin hentisemi. Hér skiptir engu máli að mörg lög gilda um starfsemi lífeyrissjóða - þeir haga sér oft eins og fé án hirðis þar sem starfsmenn þeirra halda áfram að fá laun þótt þeir sólundi öllu fé skjólstæðinga sína. Á sama tíma og fólk er þvingað til að læsa fé inni á lítilli ávöxtun er það svo að rembast við að borga niður skuldir á háum vöxtum (húsnæði, námslán og slíkt). Bankamenn gleðjast yfir peningunum sem þeir fá að taka áhættu með í skiptum fyrir bónusa (ef spilið gengur upp) eða skammir (ef það gengur ekki upp). 

Geir Ágústsson, 12.7.2016 kl. 08:28

4 identicon

Það er dapurlegt að sjá að það eru ennþá margir sem telja sig eiga "grundvallar-mannréttindi" að vöru eða þjónustu sem aðrir menn framleiða.

D (IP-tala skráð) 12.7.2016 kl. 18:17

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

"A crowd of people had gathered on the footpath, near my bike. Most of them were local people from servants’ quarters in the surrounding streets. They’d gathered in the cool nightfall to admire the fine cars and elegantly dressed guests entering and leaving the exhibition.

I heard people speaking in Marathi and Hindi. They commented on the cars and jewellery and dresses with genuine admiration and pleasure. No voice spoke with jealousy or resentment. They were poor people, living the hard, fear-streaked life crusted into the little word poor, but they admired the jewels and silks of the rich guests with joyful, unenvious innocence..."

Út The Mountain Shadow eftir Gregory David Roberts (Shantaram)

Þorsteinn Siglaugsson, 13.7.2016 kl. 09:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband