Sunnudagur, 10. júlí 2016
Atvinnuleysi bundið í stefnuskrá
Bandaríkin virðast vera á svipaðri vegferð og Norðurlöndin fyrir um 30-40 árum. Báknið þar er að þenjast út og því haldið fram að hin örfá prósent þeirra ríkustu geti borgað reikningana. Það er tálsýn. Svíar og Danir hafa áttað sig á því að þessi stefna grefur undan verðmætasköpun samfélagsins og leiði til slæmra langtímaafleiðinga. Þeir hafa því spólað töluvert til baka þótt báknið sé vissulega ennþá stórt.
Bandaríkin eru, líkt og t.d. Svíþjóð á sínum tíma, að dragast aftur úr í samkeppnishæfni, hagvexti og hreyfanleika innan hagkerfisins. Velferðargildran heldur sífellt fleirum í einskonar velferðarfangelsi þar sem öll viðleitni til að klifra tekjustigann er ónýtt með flóknu samspili tekjuskerðinga bóta og hárrar skattheimtu á hærri laun.
Bandaríkjamenn eru líka á góðri leið með að eyðileggja gjaldmiðill sinn og hann prentaður í risastórum upphæðum til að fjármagna skuldir hins opinbera, hernaðarbrölt og stækkandi bákn.
Bandaríkin þurfa greinilega að fá að ljúka þessari vegferð sinni með einhverjum hörmungum þar sem spilaborgin hrynur og byrjað er upp á nýtt. Annar möguleiki er sá að einstaka ríki spyrni við og lýsi yfir auknu sjálfstæði frá alríkisvaldingu í Washington. Ekki standa öll ríki illa og þau vilja ekki sökkva með hinum sem standa verr.
Sjáum hvað setur.
Samþykktu lágmarkslaun í stefnuskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:27 | Facebook
Athugasemdir
Kannski að einhver kasti sprengjum á Bandaríkin og Evrópu til að losa íbúana við þessa óstjórn. Það væri auðvitað vinsamleg og vel meint íhlutun með heill og hamingju borgaranna að leiðarljósi.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 11.7.2016 kl. 09:13
Vonum ekki en fordæmislaust væri það ekki.
Stríð er gömul tylliástæða fyrir því að réttlæta verðbólgu. Í fyrsta lagi má þá réttlæta peningaframleiðsluna því stríðið þarf jú að fjármagna. Í öðru lagi er hægt að sannfæra almenning um að eyða minna í sjálfan sig og meira í skuldabréf til ríkisins því ekki dugir verðbólgan ein og sér fyrir utan að þannig má draga úr eftirspurn og halda aftur af annars óumflýjanlegum verðhækkunum vegna hins aukna peningamagns í umferð. Í þriðja lagi má þannig halda uppi elítunni sem lifir á því að fá peningana fyrst í hendurnar og eyða í varning og lífsstíl áður en verðlag hækkar á almenning.
Geir Ágústsson, 12.7.2016 kl. 04:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.