Miðvikudagur, 25. maí 2016
Norræna módelið og það sovéska
Margir verða veikir í hnjánum þegar hið svokallaða norræna módel er nefnt, þ.e. blanda af opinberum rekstri og einkarekstri í einhverju.
Íslendingar eru duglegir að herma eftir frændum sínum á Norðurlöndum. Ef eitthvað er bannað í einhverju norrænu landi er það bannað á Íslandi. Ef eitthvað er ríkisrekið á einhverju hinna Norðurlandanna er það ríkisrekið á Íslandi. Hið sama gildir um niðurgreiðslur og þess háttar.
Þetta þýðir að Ísland er sennilega norrænast allra Norðurlandanna en verður þannig sovéskast þeirra allra. Sovéska módelið er oftar en ekki fyrirkomulagið sem Íslendingar taka upp á sína arma.
Á hinum Norðurlöndunum er starfsemi einkaaðila umborin miklu víðar en á Íslandi. Tökum nokkur dæmi:
Í Danmörku selja einkaaðilar áfengi til allt niður til 16 ára ungmenna. Í landinu er einnig ógrynni af einkareknum fyrirtækjum í heilbrigðisgeiranum. Atvinnuleysistryggingar eru í höndum og á ábyrgð einstaklinga sjálfra sem greiða sín eigin (skattfrádráttarbæru) iðgjöld til þar til gerðra tryggingafélaga. Allt ofannefnt er í höndum ríkisins á Íslandi. En Danir eru með umsvifamikið velferðarkerfi sem festir stóran hluta íbúanna í fátæktrargildru, t.d. með gjafmildum skilyrðum fyrir örorku, og það er fordæmið sem Íslendingar hafa tekið upp á sína arma.
Í Svíþjóð og sérstaklega Stokkhólmi er að finna fjöldan allan af einkareknum skólum og fyrirtækjum í heilbrigðisgeiranum. Þar er til að mynda fullbúinn spítali í einkaeigu. Svíar geta víða valið á milli opinberra skóla og einkaskóla án þess að fá aukareikning. Í Svíþjóð má kaupa sér munntóbak löglega enda hafa Svíar lengi reykt mun minna en aðrar Evrópuþjóðir. Á Íslandi er allt ofannefnt í höndum ríkisins eða bannað með lögum. En Svíar setja áfengi í ríkisverslanir og herða aðgengi að því svo það hafa Íslendingar líka valið að gera.
Í Noregi má einnig neyta hins sænska munntóbaks og þar er einnig að finna einkarekin fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum. Bjór má kaupa í verslunum til kl. 20 á kvöldin. Ekkert ofannefnt gildir um Ísland. Norðmenn eru hins vegar duglegir að niðurgreiða gjaldþrota starfsgreinar úti á landi (sérstaklega sjávarútveginn sinn) og auðvitað skulu Íslendingar þá gera það sama (með landbúnaðinn sinn).
Þegar þú tekur allt það strangasta, mest ríkisrekna og mest bannaða frá öllum Norðurlöndunum og raðar niður á Ísland er niðurstaðan ekki norræna módelið, heldur hið sovéska.
Hrifinn af norræna módelinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.