Mánudagur, 9. maí 2016
Davíð, Guðni, Ólafur
Þá hefur Davíð Oddsson bæst í hóp frambjóðenda til embættis forseta Íslands. Það eru góðar fréttir. Hann er reynslubolti og þrautreyndur. Hann er ekki hræddur við að taka umdeildar ákvarðanir og standa á sínu. Hann hefur heldur ekki þörf til að sanna sig og getur því einbeitt sér að því að taka sína eigin afstöðu til manna og málefna. Við þekkjum hann - kosti hans og galla - og getum tekið afstöðu út frá því.
Hið sama gildir um Ólaf Ragnar Grímsson. Við þekkjum hann út og inn og vitum nákvæmlega fyrir hvað hann stendur. Hann hefur líka vaxið mjög í starfi og sennilega hættur að láta skuldsetta viðskiptajöfra daðra við sig of lengi.
Forsetaframbjóðandi vinstrimanna (þeirra sem þola ekki Ólaf Ragnar) er að þessu sinni Guðni Th. Jóhannesson. Ég hef ekkert út á hann að setja.
Aðrir frambjóðendur eru líklega úr sögunni.
Ef ég hefði kosningarétt til forsetakosninganna myndi ég sennilega velta fyrir mér Davíð og Ólafi Ragnari fram á seinasta dag. Það væri synd að missa Davíð úr þjóðmálaumræðunni í gegnum ritstjórastöðu sína. Það væri synd að missa Ólaf inn í þjóðmálaumræðuna ef hann missir krúnuna.
Í ríkjum þar sem skrautfjaðrir stjórnkerfisins eru aldraðir einstaklingar sem fæddust inn í embættið þykir fólki vænt um stöðugleika. Forsetaembættið ætti í þeim anda að vera skipað reyndum einstaklingi sem getur átt samskipti við umheiminn án þess að missa taktinn eða stressast upp af sviðsskrekk.
Ég þarf ekki að taka afstöðu því ég hef ekki kosningarétt. Ég vona hins vegar að í stól forseta setjist einstaklingur með bein í nefinu - gjarnan einstaklingur sem hefur sannað að svo sé.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þjóðin er búin að fá upp í kok af Davíð. Hann á því enga möguleika. Ólafur sér að eftir að Davíð bauð sig fram á hann enga möguleika því að framboð hans tryggir sigur Guðna. Ólafur mun því hætta við að hætta við að hætta. Guðni mun sigra með yfirburðum. Andri Snær verður í öðru sæti.
Ásmundur (IP-tala skráð) 9.5.2016 kl. 10:03
Vissulega svíður það mörgum vinstrimanninum sárt að sjá manninn sem hélt vinstrimönnum frá stjórn í um einn og hálfan áratug neiti að setjast í helgan stein.
Þeim sveið að sjá hann í stól seðlabankastjóra og þola ekki að hann fái að munda pennann að vild á blaði með 30 þúsund áskrifendur og hvað þá að síðan hann tók við ritstjórn hefur Morgunblaðið farið úr taprekstri í hagnað.
Hvar sem Davíð hefur komið við hefur vinstrimönnum gengið illa. Þeir vilja því skiljanlega ekki að hann fari á Bessastaði og verði þar einskonar landsfaðir þeirra.
En sjáum hvað setur.
Geir Ágústsson, 9.5.2016 kl. 11:51
3.1% er fylgi Davíðs skv könnun MMR. Reyndar var aðeins eftir að fá svör frá 27% þegar Davíð bauð sig fram og varð þátttakandi í könnuninni. Það má því gera ráð fyrir að fylgið sé um 11%.
Nú þegar Ólafur hefur hætt við að hætta við að hætta fær Davíð eitthvað meira en ekki svo mikið meira held ég. Mikið fylgistap Ólafs sýnir að fylgi Davíðs kemur frá honum. Fylgi Guðna er 59% og eykst nú enn frekar við brotthvarf Ólafs. Ætli Davíð hætti ekki eins og Ólafur til að forðast niðurlægingu?
Guðni var í hópi þeirra sem studdi Buchheit samninginn. Davíð og stuðningsmenn virðist halda að bullið um Icesave komi Davíð á forsetastól. Nú kemst vonandi sannleikurinn um Icesave upp á yfirborðið í stað þess að kafna í þjóðrembu af verstu sort.
Ásmundur (IP-tala skráð) 9.5.2016 kl. 15:21
Talandi um Icesave:
„I’m glad that I’m not in the Icelandic government. I wouldn’t know what to do, I wouldn’t know if I should accept this agreement or not. Guðni Thorlacius Jóhannesson.“
Sami maður um Icesave I:
„We might not like the Icesave deal, but the alternative is much worse, and maybe this is the best we or anyone else could get. Take it or leave it, that’s the message we got. I think anyone criticizing the negotiations team for being weak are ignoring, wilfully or not, the incredibly difficult position the Icelandic authorities find themselves in.“
Tekið af Facebook-síðu bókarinnar Icesave-samningarnir - afleikur aldarinnar?
https://www.facebook.com/afleikur/
Það er erfitt að standa á rétti sínum. Margir gerðu það samt.
Geir Ágústsson, 9.5.2016 kl. 18:29
Annars tel ég nú vera upplagt fyrir stuðningsmenn einhvers Icesave-samninganna eða þeirra allra að skrifa eins og eina bók og færa rök fyrir máli sínu í stað þess að pipra skoðunum sínum á víð og dreif.
Hér er innblástur:
http://www.bokafelagid.is/products/icesave-samningarnir-afleikur-aldarinnar
Geir Ágústsson, 9.5.2016 kl. 18:32
Það var rétt hjá Guðna að hinn kosturinn var enn verri. Okkur bráðlá að fá lán frá AGS og skilyrði fyrir þeim var að samið yrði um Icesave.
Að mati hæfustu manna var einnig mikil hætta á að við þyrftum að greiða margfalt meira enn skv samningnum ef við höfnuðum þeim. Að við sluppum með skrekkinn réttlætir ekki höfnunina. Það hefði getað farið á hinn veginn. Stjórnmálamenn sem sækja í rússneska rúllettu í ríkksfjármálum eiga ekki rétt á sér.
Annars hef ég fært rök fyrir því annars staðar að sennilega höfum við tapað á að hafna samningnum þrátt fyrir að málið vannst fyrir EFTA dómstólnum:
Hvenær ætlar Icesave bullinu að linna? Hvenær kemst sannleikurinn upp á yfirborðið? Ég held reyndar að bullararnir trúi sjálfir bullinu og að ekki sé alfarið um blekkingar að ræða.
Icesave kosningin gekk út á val um að hafa lítinn kostnað af Icesave með því að samþykkja samninginn eða taka þá áhættu með því að hafna honum að kostnaðurinn yrði gífurlegur.
Sem betur fór vannst málið fyrir EFTA-dómstólnum en það hefði eins getað farið á hinn veginn. Það er í raun engin afsökun fyrir því að taka slíka áhættu að við sluppum með skrekkinn í þetta sinn. Að taka slíka áhættu að óþörfu er einfaldlega galið.
Með því að samþykkja Buchheit-samninginn hefðu fallið á okkur 67 milljarðar ef greiðslurnar hefðu borist eins og reyndin varð. Þær töfðust vegna gjaldeyrishafta.
Að lokum var veitt undanþága frá höftum. Sú undanþága hefði komið miklu fyrr ef samningurinn hefði verið í gildi vegna þess að þá hefði verið um hagsmuni ríkissjóðs að ræða. Greiðslan hefði því orðið mun minni en 67 milljarðar.
Buchheit samningurinn hafði að geyma ákvæði sem tryggðu okkur gegn frekari greiðslum síðar. Við hefðum því sloppið við að greiða 20 milljarða úr tryggingarsjóðnum sem samið var um vegna krafna frá innistæðueigendum eftir dóm EFTA- dómstólsins.
Höfnun Icesave kostaði okkur fúlgur fjár. Þar vó mest að þegar ÓRG boðaði til fyrri þjóðaratkvæðagreiðslunnar lækkaði lánhæfismat í ruslflokk þar sem það var næstu misserin. Það má meira en vera að þessi kostnaður hafi verið meiri en samningurinn hefði kostað okkur.
Í Icesave umræðunni náði þjóðremba í sinni verstu mynd yfirhöndinni. Raunveruleikinn átti enga möguleika. Ég mundi aldrei treysta stjórnmálamanni sem hafnaði Icesave. Lítið bara yfir völlinn og sjáið hverjir það voru og hverjir samþykktu samninginn.
Ásmundur (IP-tala skráð) 9.5.2016 kl. 18:59
"Færustu menn"eiga etv annan titil skilið eftir að málið fór eins og "þjóðremburnar" spáðu fyrir um.
Geir Ágústsson, 9.5.2016 kl. 19:48
Var AGS lánið notað í eitthvað?
Geir Ágústsson, 9.5.2016 kl. 19:49
Alls ekki. Færustu menn geta ekki sagt fyrir um hvernig fjárhættuspil endar. Þeir hafa hins vegar vit á að taka ekki mikla áhættu að óþörfu.
Ásmundur (IP-tala skráð) 9.5.2016 kl. 20:56
Geir, veistu ekki að Ísland var í raun gjaldþrota eftir hrunið?
Það þurfti nauðsynlega lán til að lifa af en fékk ekki eða ekki nema á svo háum vöxtum að við stóðum ekki undir þeim. Þess vegna var lán á hagstæðum vöxtum frá AGS nauðsynlegt.
Það var notað til að forða okkur frá endanlegu gjaldþroti.
Ásmundur (IP-tala skráð) 9.5.2016 kl. 22:22
Voru þessir peningar frá AGS nýttir í eitthvað? Mig minnir að einhvers staðar hafi staðið að þeir hafi bara staðið óhreyfðir og safnað vöxtum og í raun verið óþarfaskuldsetning.
Varðandi lögfræðileg álitaefni þá var nú óvissan í kringum Icesave ekki meiri en svo að fljótlega eftir hrun taldi ESB þörf á því að setja á sérstaka löggjöf um ríkisábyrgð á innistæðutryggingasjóðum umfram fyrri kröfur.
Ágæt rök hafa svo verið færð fyrir því að áhugi sumra á að taka á sig Icesave hafi verið að þóknast ESB og liðka fyrir innlimum Íslands í sambandið.
Geir Ágústsson, 10.5.2016 kl. 06:56
Efling tóms gjaldeyrisvarasjóð var aðeins eitt af því sem lán AGS var notað til.
Gjaldeyrisvarasjóður er ekki óþarfa fjárfesting. Það er auðvelt að koma þjóð með örmynt og engan gjaldeyrisvarasjóð á kaldan klaka. Hrægammasjóðir sjá mikil tækifæri í slíku og notfæra sér það grimmt.
Gjaldeyrisvarasjóður gerir þjóðarbúið tilbúið til að takast á við áföll og fælir hrægammasjóði frá. Hann nýtist því vel þó að ekki sé tekið af honum.
Ein helstu mistök Davíðs Oddssonar fyrir hrun voru veikur gjaldeyrisvarasjóður sem tæmdist í hruninu. Með skuldir þjóðarbúsins (einkum bankanna) upp á tífalda landsframleiðslu var öflugur gjaldeyrisvarasjóður nauðsyn. Um það eru allir sérfræðingar sammála.
Þú ert greinilega vel að þér i Icesave bullinu. Óvissan um Icesave snerist ekki bara um ábyrgð ríkisins á innistæðum. Meiri óvissa var um mismunun vegna innistæðna eftir því hvort þær voru innanlands eða utan.
Allir voru sammála samninganefndinni um óvissuna fyrir hrun. En eftir hrun hafði skyndilega ekki verið nein óvissa hjá mörgum, ekki bara framsóknarmönnum.
Finnst þér við hæfi að gera svona lítið úr samherjum þínum sem samþykktu Icesave? Þar á meðal voru formaður og varaformaður flokksins. Eru þetta allt hálfvitar sem ólmir og uppvægir vildu sólunda ríkisfé?
Og hvað með forsetann sem undirritaði Icesave 1 sem var mun óhagstæðari en Icesave 2 og 3? Voru það Bretar og Hollendingar sem björguðu okkur þar frá hörmungum?
Telurðu kannski að bestu stjórnendur fyrir Ísland séu þeir sem hafa unnið hæstu upphæðirnar í spilavítum?
Ásmundur (IP-tala skráð) 10.5.2016 kl. 08:43
Ég tel að það hafi verið heppni að Bretar og Hollendingar hafi hafnað fyrirvörunum sem stjórnarandstaðan náði að troða við Icesave 1.
Í tilviki Icesave 2 og 3 sýndi þjóðin - með aðstoð forseta - að hún getur haft vit fyrir yfirherrum sínum og spekingum hennar.
Geir Ágústsson, 10.5.2016 kl. 11:16
Svo að þú telur að Hollendingar og Bretar hafi bjargað okkur frá Icesave 1 fyrir hreina heppni en að það hafi ekki verið heppni að höfnun Icesave 2 og 3 leiddi ekki yfir okkur óyfirstíganlegar skuldir.
Að ÓRG skrifaði undir Icesave 1 en ekki Icesave 2 og 3 bendir til að hann hafi ekki haft hagsmuni þjóðarinnar í huga heldur aðeins eigin tækifærismennsku.
Fyndið, en þó hálfdapurlegt, þegar óbreyttir telja sig vita betur en helstu sérfræðingar á viðkomandi sviði. Veit Bjarni Ben af þessari framsóknarmennsku þinni?
Ásmundur (IP-tala skráð) 10.5.2016 kl. 14:10
Tjah eitthvað var varið i mannskapinn í baráttunni gegn Icesave sem lauk með fullnaðarsigri eins og hann spáði fyrir um með góðum og gildum rökum, bæði lögfræðilegum og réttlætisrökum.
Geir Ágústsson, 10.5.2016 kl. 15:48
AGS lánið var víst aldrei notað nema til að greiða vexti af því.
Gjaldeyrisvarasjóður er til þess að ríkið geti staðið við sínar skuldbindingar erlendis. Þær höfðu víst verið flestar greiddar upp fyrir hrun svo þær urðu ekki vandamál.
Gjaldeyrishöftin og neyðarlögin sáu svo til þess að eðlilegt innflæði af gjaldeyri vegna útflutningi dugði til að til væri gjaldeyrir til að flytja inn það sem þyrfti.
Það er misskilningur að ríkið hafi ábyrgst einhverjar innistæður. Einhverjar yfirlýsingar einstakra forystumanna ríkisstjórnar hafa enga lagalega merkingu. Hins vegar gerðu neyðarlögin það að verkum að hægt var að stofna nýja banka um innlendar skuldbindingar (innlán) til þess að þjóðfélagið héldi áfram að virka (auk þess að setja innlán sem forgangskröfur). Innlend innlán (óháð þjóðerni eigenda) glötuðust því ekki.
ls (IP-tala skráð) 10.5.2016 kl. 16:48
IS, þú veist greinilega lítið um tilganginn með gjaldeyrisvarasjóði og ættir þess vegna ekki að tjá þig um hann. Með veikan gjaldmiðil eins og krónuna er alltaf nauðsynlegt að hafa öflugan gjaldeyrisvarasjóð.
Þeir sem halda að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um eigin ábyrgð hafi ekkert gildi eru að lýsa því yfir að Ísland sé bananalýðveldi. Margir hafa að vísu þá skoðun en það hefur þó ekki enn verið endanlega staðfest.
Ásmundur (IP-tala skráð) 10.5.2016 kl. 21:46
Geir, gaman af þessari heimssýn ykkar framsóknarmanna.
Í ykkar augum er kjáninn Sigmundur Davíð ekki bara klárasti flokksformaðurinn. Hann stendur öllum í samninganefndinni langtum framar að andlegu atgervi. Þó var þar valinn maður í hverju sæti og formaðurinn heimsfrægur samningamaður.
Það fer þó að kárna gamanið þegar maður hugsar um hvert þessi heimsmynd getur leitt okkur. Næst þegar þessi rómuðu vinnubrögð verða við höfð er nefnilega líklegt að allt fari í kaldakol og Íslendingar verði afhjúpaðir sem hálfvitar.
Eða trúirðu að Sigmundur Davíð muni alltaf hafa rétt fyrir sér?
Ásmundur (IP-tala skráð) 10.5.2016 kl. 22:01
Ásmundur,
Þú þarft að fara ákveða þig - er ég stuðningsmaður Bjarna Ben. eða Sigumundar Davíðs? Þér hefur ekki dottið í hug að afstaða mín til Icesave hafi byggst á sjálfu Icesave-málinu en ekki því hvaða stjórnmálaleiðtogi rambaði á mína línu hverju sinni af sínum eigin ástæðum?
Það er einnig ljóst að allir sem eru ósammála þér "vita lítið", eru "þjóðrembur" eða byggja afstöðu sína á furðulegum hvötum og eiginhagsmunum.
En gott og vel - þú taldir þig vera í hópi "færustu sérfræðinga" þegar þú tókst þína afstöðu. Þið töpuðuð málinu og það fer greinilega í taugarnar á þér.
Málinu lauk þannig að íslenskir skattgreiðendur voru ekki látnir taka á sig aukalega ríkisábyrgðir umfram skilmála regluverks ESB, sem var einmitt kjarni málsins.
Það má vera að þeir sem börðust fyrir máli sen endaði með fullnaðarsigri þeirra séu allt að því ósómi heimsins en ég vona nú að allir kunni að meta afraksturinn engu að síður.
Næsta skref ætti nú að vera að aðskilja ríkisvald og bankarekstur með öllu.
Geir Ágústsson, 11.5.2016 kl. 04:13
ásmundur, þú veist greinilega lítið um tilganginn með gjaldeyrisvarasjóði og ættir þess vegna ekki að tjá þig um hann.
Þeir sem halda að yfirlýsingar einstakra ráðamanna hafi lagalegt gildi eru að lýsa því yfir að Ísland sé bananalýðveldi. Margir hafa að vísu þá skoðun en það hefur þó ekki enn verið endanlega staðfest.
ls (IP-tala skráð) 11.5.2016 kl. 11:49
Geir, við sem vildum samþykkja Icesave töpuðum ekki málinu. Að þú haldir slíku fram sýnir hve lítinn skilning þú hefur á því.
Við vissum vel að málið gæti endað með þessum hætti en það var langt frá því að vera öruggt. Miðað við hvað mikið var í húfi var ábyrgðarlaust að taka áhættuna.
Eftir alla múgæsinguna sem Indefence stofnaði til, hélt almenningur að honum stæði til boða að ákveða hvort Íslendingar greiddu Icesave eða ekki. Varst þú einn af þeim?
Icesave snerist um mat á líkum fyrir ólíkar sviðsmyndir. Jafnvel þó að líkurnar á að málið tapaðist hefðu aðeins verið 25% var það of mikið því að afleiðingarnar hefðu orðið svo svakalegar ef það hefði tapast.
Þeir sem höfnuðu samningnum hafa ekki hugmynd um hverjar afleiðingarnar hefðu orðið ef við hefðum ekki sloppið með skrekkinn í þetta sinn.
Umræðan um Icesave hefur verið svo galin að ég efast stundum alvarlega um hvort við séum fær um að sjá um okkur sjálf.
Ásmundur (IP-tala skráð) 11.5.2016 kl. 14:31
Is, ríkisstjórnin er ekki sama og einstakir ráðherrar.
Þar að auki er undarlegt að draga þetta fram vegna þess að ríkisstjórnin stóð við þetta með því að láta nýju bankana taka við innlendum innistæðum en ekki erlendum.
Erlendar innistæður voru áfram kröfur í þrotabú gömlu bankanna og því óvíst á þessum tíma hvort þær fengjust greiddar nema að hluta. Þetta var mismununin sem tekist var á um hjá EFTA dómstólnum.
Ásmundur (IP-tala skráð) 11.5.2016 kl. 14:44
Þessi meinta mismunun var tekin fyrir af Héraðsdómi og svo Hæstarétti þar sem tekist var á um lögmæti neyðarlaganna. EFTA dómstóllinn tók fyrir kröfu um ríkisábyrgð á tryggingasjóðnum. Þetta er ekki það sama.
Ríkisstjórnin lýsti aldrei yfir ríkisábyrgð á innistæðum, þó einstakir ráðherrar (forsætisráðherra) gerðu það. Þó svo væri getur aðeins Alþingi veitt slíka ábyrgð.
Það er hins vegar alveg rétt hjá ásmundi að umræðan um Icesave hefur verið býsna galin, sést best hér...
ls (IP-tala skráð) 11.5.2016 kl. 15:56
Is, það er erfitt að ræða málin við mann sem þekkir ekki einu sinni aðalatriðin.
Málið fyrir EFTA dómstólnum snerist ekki bara um ábyrgð ríkisins á innistæðum erlendis heldur einnig um mismunun á innistæðum eftir því hvort þær voru innanlands eða utan. Það var álitin vera meiri hætta á að við töpuðum málinu varðandi seinna atriðið.
Að halda öðru fram er eins og að segja að 2+2 séu 5. Þetta er hins vegar góð vísbending um að að þeir sem höfnuðu Icesave vissu lítið um hvað þeir voru að greiða atkvæði.
Gott dæmi um hve galin umræðan er að þegar réttar staðreyndir koma fram er ekki kannað hvort þær séu réttar heldur fullyrt að bullið sé rétt. Það er eins og hálfvitar hafi náð yfirhöndinni í umræðunni og þeir sem þekkja til mála eigi ekki séns.Þessu verður að linna ef Ísland á að eiga sér einhverja framtíð.
Við þessar aðstæður fáum við yfir okkur einstaklinga eins og Vigdísi Hauks og Sigmund Davíð. Það er tími til kominn að rugludallar víki fyrir þeim sem hafa vit í kollinum.
Ásmundur (IP-tala skráð) 11.5.2016 kl. 16:44
Hárrétt hjá ásmundi að það er erfitt að ræða við menn sem þekkja ekki aðalatriðin.
ls (IP-tala skráð) 11.5.2016 kl. 16:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.