Stúlkur á flótta undan öllum

Þeir sem leiðast út í vændi eða velja að stunda vændi eða láta táldraga sig út í að stunda vændi gera það af mörgum ástæðum.

Stundum eru einstaklingar í vændi - yfirleitt stúlkur - fórnarlömb mansals. Mansal er hræðilegt og ber að stöðva með öllum tiltækum ráðum. Um það er varla deilt. Nánar um það seinna. 

Stundum eru einstaklingar sem stunda vændi hins vegar ekki fórnarlömb mansals. Kannski vantar þeim kannski bara peninga (t.d. til að fjármagna fíkniefnaneyslu en hún er mjög dýr því fíkniefni eru víða ólögleg). Kannski eru ekki önnur störf í boði (t.d. af því hið opinbera kæfir hagkerfið með sköttum, reglum og viðskiptahindrunum). 

Er einhverjum greiði gerður með því að gera einstaklinga sem stunda vændi eða viðskiptavini þeirra að glæpamönnum?

Því hvað gerist þegar einhver iðja er bönnuð með lögum?

Það er ekki eins og hún hverfi af yfirborði jarðar. Þvert á móti skýtur hún rótum í undirheimunum og þar þrífast ósvífnir einstaklingar sem leggja ýmislegt á sig til að ekki komist upp um þá. 

Þegar eitthvað er bannað - hvort sem það er tóbak, áfengi, fíkniefni eða vændi - virkar það eins og vítamínsprauta fyrir undirheimana. Glæpamenn brosa í hring þegar stjórnmálamenn setja á nýtt bann við sölu eða framleiðslu á einhverjum varningi eða þjónustu. 

Glæpamennirnir láta sér heldur ekki nægja að brjóta lög sem banna neyslu og sölu á einhverju. Þeir brjóta öll lög. Þeir stela, berja og hóta. Fyrir þá skiptir það litlu máli hvort þeir fái 10 ára fangelsisdóm fyrir sölu fíkniefna eða 12 ár fyrir að berja mann til óbóta svo hann kjafti ekki frá. Munurinn á því að bjóða upp á ofbeldislaus viðskipti og því að kynna ofbeldi til leiks er lítill. Sakaskráin fær svarta bletti hvort sem maður er dæmdur fyrir sölu á smygluðum sígarettupakka eða handrukkun. Fyrir þeim er lítill munur á mansali og sölu eiturlyfja því afleiðingarnar af því að vera tekinn eru svipaðar. Bæði mansal og ofbeldislaus viðskipti eru sett á sama stall og bæði þrífst betur fyrir vikið. 

Íslendingar ættu að stíga stór skref í átt að mannúðlegra samfélagi og afnema bönn við sölu og kaupum á vændi og fíkniefnum. Íslendingar ættu einnig að leyfa fjárhættuspil. Svarta markaðinn þarf að aflífa með löglegum, hreinlegum og aðgengilegum hvítum markaði þar sem ofbeldi er ekki umborið. Þannig verða glæpamennirnir afvopnaðir. Um leið má ganga harðar á raunverulega glæpi eins og mansal, þjófnaði og ofbeldi. 

Þetta ætti að gerast hið fyrsta til að lina hinar miklu mannlegu þjáningar sem eiga sér stað í undirheimunum. 


mbl.is Umfangsmikil vændissala á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband