Mánudagur, 14. mars 2016
Hugmyndir að úrræðum
Stjórnmálamenn leita margra leiða til að koma sér í fjölmiðla og minna kjósendur á tilvist þeirra. Hér er ein slík leið:
Sveitarfélagið Hornafjörður stefnir að því að draga úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum um að minnsta kosti 3% á ári í samræmi við samning sem það hefur undirritað við Landvernd.
Auðvitað er þetta tilgangslaus vegferð og algjör óþarfi en stjórnmálamaðurinn fékk mynd af sér birta vegna málsstaðs sem sumir en ekki allir telja göfugan.
En úr því svo er komið er rétt að bera á borð nokkrar hugmyndir til að ná þessu blessaða markmiði:
Sveitarfélagið hætti að slá grasið í bænum: Plöntur gleypa í sig CO2 og stórar plöntur gera það í meira magni en litlar. Útsvarsgreiðendur spara fé og grasið fær að vaxa og dafna og breyta koltvísýring í súrefni.
Sveitarfélagið minnki akstur starfsmanna sinna: Brennsla eldsneytis losar koltvísýring. Minni akstur þýðir minni útblástur. Útsvarsgreiðendur spara fé.
Sveitarfélagið minnki við sig húsnæðið: Kynding fer víða fram með jarðhita og við borun eftir honum losna allskyns lofttegundir úr jörðinni, þar á meðal koltvísýring. Sums staðar er díselolía notuð til kyndingar sem losar koltvísýring. Sveitarfélagið þyrfti ekki að kynda eins mikið í minna húsnæði. Um leið mætti lækka rekstrarkostnað sveitarfélagsins vegna húsnæðis. Útsvarsgreiðendur spara fé.
Sveitarfélagið tali við Landvernd í gegnum Skype í stað þess að bjóða á fund: Akstur á vegum Landverndar gæti þá dregist saman og þannig er minna losað af gróðurhúsalofttegundum. Skattgreiðendur spara fé vegna fundarhalda í sveitarfélaginu (kaffi og kökur og þannig lagað).
Sveitarfélagið bjóði út ýmsan rekstur til einkaaðila og hætti honum hreinlega alveg: Rekstur sem er ekki á vegum sveitarfélags telst væntanlega ekki með í útblástursútreikningum þess. Um leið gætu útsvarsgreiðendur sparað fé vegna starfssemi sveitarfélagsins.
Það er úr mörgu að velja og vonandi verður eitthvað fyrir valinu sem bitnar ekki á útsvarsgreiðendum.
Draga úr losun um 3% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.