Miðvikudagur, 10. febrúar 2016
Vilja bændur sæta miðstýringu?
Oft líður þeim vel grísunum sem fá að sjúga spena ríkisgyltunnar. Ríkisgyltan veitir skjól og tryggir fæðuframboð. Hún fer grísina fyrir samkeppni og hlífir við átökum umheimsins.
Verndin er samt ekki ókeypis. Í staðinn fyrir hlýjuna og verndina ræður ríkisgyltan því hvað grísirnir mega gera og hversu langt þeir mega ráfa frá stíunni. Grísirnir fá ekki að vaxa og dafna á eigin forsendum.
Hinn stóri heimur getur vissulega verið harður heimur. Menn prófa sig áfram og hrasa. Sumir fara á hausinn. Tilraunir ganga ekki alltaf upp. Mistök í dag þýða ekki endilega velgengni á morgun.
Ég spyr mig stundum hvort bændur vilji virkilega vera grísir á spena ríkisgyltunnar, og ef svo er: Hvers vegna? Bændur eru ekki vitlausari en aðrir. Þeir geta alveg fengið góðar hugmyndir. Þeir geta hins vegar ekki gert hvað sem þeir vilja á meðan þeir þiggja opinbera framfærslu og starfa á bak við tollamúra og vernd gegn erlendri samkeppni á kostnað skattgreiðenda.
En segjum að allar niðurgreiðslur, tollamúrar og tæknilegar hindranir á samkeppni erlendra bænda (oft á niðurgreiðslum sjálfir) við íslenska yrðu afnumdar. Hvað gerist? Líklega fara einhverjir bændur á hausinn. Sumir selja bú sín. Aðrir kaupa þau. Líklega byrja einhver bú að stækka með uppkaupum á minni búum. Í samkeppnisumhverfinu byrja sumir að prófa sig áfram með nýjungar, t.d. í vöruúrvali, framleiðsluaðferðum eða markaðssetningu.
Íslenskir bændur geta státað af hreinni framleiðslu og búa að mörgu leyti við kjöraðstæður til að framleiða og markaðssetja framleiðslu sína í heimi þar sem eftirspurn eftir valkostum við verksmiðjuframleiðsluna fer ört vaxandi. Hafa engir bændur áhuga á að spreyta sig á þessum markaði? Halda þeir að allir muni bara yfirgefa afurðir þeirra og kaupa verksmiðjukjúkling frá Póllandi eða niðurgreitt kálfakjöt frá Þýskalandi?
Ég skora á íslenska bændur að hugleiða þetta og íhuga að skera snöru ríkisgyltunnar af hálsi sínum og spreyta sig úti í hinum stóra heimi.
Hafa áhyggjur af offramleiðslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:29 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.