Fimmtudagur, 14. janúar 2016
Góð byrjun en bara það
Það er gott að skattar eru að lækka á Íslandi um leið og ríkisvaldið er byrjað að greiða niður skuldir. Þetta er samt bara byrjunin. Enn sitja allir skattar fráfarandi ríkisstjórnar eftir í einhverri mynd. Enginn þeirra hefur verið afnuminn. Enn er ríkisvaldið að reyna reka heilbrigðiskerfi og meira og minna allt skólakerfið frá skrifstofum sínum í Reykjavík. Það er ávísun á sóun, hallarekstur, skort á viðhaldi, kjaradeilum og almennt versnandi þjónustu fyrir sífellt hærra verð.
Næsta skref þarf að vera miklu stærra en þau hænuskref sem hingað til hafa verið tekin. Stefna þarf að því að lækka skatta um marga tugi prósenta en ekki um nokkrar kommur hér og þar.
Til þess að ná því markmiði þarf að skera stór verkefni úr snöru ríkisvaldsins. Einkaaðilar geta alveg læknað önnur mein en lélega sjón eða lélega heyrn og framkvæmt skurðgerðir á öðrum líkamshlutum en brjóstum sem á að stækka eða augnpokum sem þarf að lyfta.
Einkaaðilar geta alveg lesið bækur fyrir börnin á sama hátt og kennarar hins opinbera. Raunar fer megnið af námi barna fram heima í ró og næði yfir heimanáminu en ekki í háværum og loftlausum skólastofum.
Einkaaðilar geta alveg rekið vegina og fjármagnað slíkar framkvæmdir með sölu aðgengis að þeim. Það er raunar ávísun á betra viðhald og heppilegri nýtingu fjármuna.
Andstæðingar samkeppni sem um leið eru stuðningsmenn ríkisreksturs geta ekki boðið upp á önnur rök fyrir málstað sínum en þau að allir eigi að hafa það jafnskítt. Það má vel vera að það sé göfug hugsjón. Ég bendi bara á að jafnvel lélegustu gleraugun í Kolaportinu eru sennilega betri en bestu gleraugun sem almenningur getur nálgast í Norður-Kóreu.
Skattar á fjölskyldu lækkað um 400.000 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:18 | Facebook
Athugasemdir
hve oft þarf maður að heira þetta bull um að allt sé betur gert í einkageiranum.
hvaða einkavæðing var það á íslandi sem þú varst svona ánægður með.
Ingi Þór Jónsson, 14.1.2016 kl. 11:26
Það er ekkert allt "betur gert" og heldur ekkert síður. Það eru einfaldlega hvatar í einkarekstri sem eru ekki til staðar í opinberum rekstri nú fyrir utan að svigrúm til athafna, tilraunastarfsemi og nýjunga er miklu takmarkaðra þegar unnið er innan reglugerða- og fjárlagaramma sem koma rekstrarfræðilegum raunveruleika ekkert við.
Ég er ánægður með að íslenska ríkið rekur ekki lengur verksmiðjur. Ég er ánægður með að það sé bara örfáar fjármálastofnanir eftir sem stanslaust þarf að bjarga á kostnað skattgreiðenda (LÍN, ÍLS). Ég er ánægður með að ríkisvaldið rekur ekki né á millilandaflugfélag sem er alltaf á hausnum. Mér finnst flott að ríkisvaldið leyfi augnlæknum og gleraugnabúðum að starfa óáreitt á frjálsum markaði. Það er frábært að ríkisvaldið gaf á sínum tíma einkaaðilum leyfi til að selja heyrnatæki á Íslandi án afskipta hins opinbera (sem fljótlega leiddi til þess að biðlistum eftir slíkum tækjum var útrýmt).
Ríkiseinokun í stað samkeppni er hugsjón margra, en ekki mín.
Geir Ágústsson, 14.1.2016 kl. 11:34
Þetta er vont fyrir allan almenning. Gott fyrir elítusjalla sem baða sig í peningum alla leið í bankann.
Þetta þýðir á mannamáli að elítu og auðmönnum eru gefnir peningar en ráðist á samhjálparkerfið og það molað allt niður.
Og svo segja þessir frjálshyggjuguttar simmi&baddi: Það er svo gaman að rústa!
Það er algjörlega ömurlegt hvernig framsjallar hafa farið með þetta sker.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 14.1.2016 kl. 12:08
Ég sé að sumir lepja hagfræðiþekkingu sína úr viskubrunni Stefáns Ólafssonar og Paul Krugman. Óneitanlega er það hvetjandi fyrir mig til að halda áfram að skrifa.
Geir Ágústsson, 14.1.2016 kl. 12:25
En hvað er þetta..??...
http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/01/14/einstaklingar_borga_a_endanum/
Már Elíson, 14.1.2016 kl. 12:43
Takk fyrir þetta Már.
"Meginþorri breytinganna hafa verið skattahækkanir eða 132 á meðan 44 skattalækkanir hafa átt sér stað frá árinu 2008, flestar á árinu 2014."
Með öðrum orðum: Sitjandi ríkisstjórn er ekki komin nema hænufet áleiðis í að vinda ofan af skemmdarverkum fráfarandi ríkisstjórnar. Menn tala samt um að einhverjar róttækar breytingar séu í gangi.
Geir Ágústsson, 14.1.2016 kl. 13:16
það væri samt betra að sjá hvað bír bak við þessar skattalækkanir í krónum og hvaða fólk í landinu fær þær heldur en hvað magnið af þeim er mikið.
Ingi Þór Jónsson, 14.1.2016 kl. 15:06
að einkavæða allt batterýið er ekki rétt, slíkt kallar á að fólk verði að kaupa sér sérsjúkratryggingar eins og tíðkast í Ameriku, þar er dýrt að koma á spítala til að fá meina sinna bót og margir veigra sér við því sem hafa ekki efni á tryggingum...
Viltu hafa svoleiðs hér?
-------------
Þú greinilega fylgist ekki með hvernig skólar eru í dag, margir þeirra klára heimanám sitt í skólanum en þeir sem eru ekki nógu duglegir við það fá vissulega að taka sitt heimanám með sér heim. dóttir mín klárar sitt í skólanum en stundum verður hún að taka það bara með sér heim til að klára þar
En það er ekkert miðað við hvernig þetta var þegar ég var í skóla
-----------------
Gott mál að skattar eru lækkaðir og þeir mega lækka enn meira í raun.
að vera borga um eða yfir 40% tekna sinna í skatta og samt er kerfið hér í algjörum rústi, Hagstjórnin er ekki góð og kemur krónan með sitt upp og niður kerfi sterk þar inn.
-------------------
Kauphækkanir eiga ekki að vera gerðar í prósentum, heldur í krónutölu,
sá sem er með 300þús á mánuði fær 10% eða 30 þús en sá sem er með 3millur fær 10% líka en fær 300þús, þetta skapar gríðarlegan ójöfnuð og bilið eykst alltf meira og það er bara þannig að of háar launahækkanir hækka allan kostnað fyrir fyrirtæki,ríki og borg sem verða þá að hækka sínar skrár. og 300þús kr hækkun á laun er gríðarleg hækkun miðað við 30þús
----------------------
Einkavæðing þarf samt ekki alltaf að vera af hinu vonda en miðað við hvað við erum lítið samfélag þá eru menn alltaf að hygla sínu fólki...
Þannig ég segi nei við einkavæðingu...
Guðmundur (IP-tala skráð) 14.1.2016 kl. 15:44
Guðmundur,
Takk fyrir innlegg þitt. Ég sé að þú ert opinn fyrir því að ríkisvaldið skeri eitthvað úr snöru sinni en með á því svo marga fyrirvara að það kemur samt ekki til greina.
Varðandi skólana þá er ég með einn í grunnskóla og annan á leiðinni í haust og tala út frá eigin reynslu. Að vísu úr danska skólakerfinu en svipað fyrirkomulag og ég heyri frá Íslandi: Heimanám þannig séð hægt að klára í skólatíma og gert af sumum en ekki öðrum.
Varðandi fyrirkomulag kauphækkanna þá hlýtur það að vera undir atvinnurekanda komið hvernig hann laðar til sín og heldur í viðeigandi starfskrafta. Í tilviki ríkisvaldsins skiptir oft meira máli að eiga hliðholla tindáta á góðum launum en fólk með ákveðna þekkingu og hæfileika.
Geir Ágústsson, 14.1.2016 kl. 19:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.