Niðurgreiðslur eru ríkisafskipti

Þegar ríkisvaldið niðurgreiðir eitthvað með fé skattgreiðenda er það um leið að taka við stjórnartaumunum, a.m.k. að hluta til. Enginn fær fé úr ríkissjóði nema standast ákveðnar kröfur sem ríkisvaldið setur eða hafa ákveðinn ásetning sem er að skapi hins opinbera. 

Sem öfgadæmi mætti nefna mann sem langar að skrifa nýja bók. Hann er mjög hæfileikaríkur rithöfundur, vel lesinn, vel skrifandi og sem manneskja almennt vel liðinn. Hann hefur skrifað margar bækur sem hafa selst vel og um hann er talað sem næsta Laxness sem stefni á Nóbelsverðlaunin. Hann sækir um listamannalaun. Öllum finnst sjálfsagt að hann hljóti þau. Hann verður jú að fá næði til að skrifa meira og vera laus við ónæðið af venjulegri launavinnu.

Í umsókn mannsins um listamannastyrk skrifar hann hins vegar: Mig langar að skrifa skáldsögu sem dásamar bæði Hitler og Stalín, enda misskildir menn sem hafa hlotið ósæmilega umfjöllun.

Hann fær ekki styrkinn. Hvað sem líður hæfileikum hans, sölutölum og lofi á hans fyrri verk þá fær hann ekki styrk til að skrifa svona bók. Nei takk segir nefndin sem úthlutar peningum skattgreiðenda. 

Þetta er öfgadæmi en það gildir um allt. Enginn fær ríkisstyrk nema falla að kröfum hins opinbera. 

Þannig er það og verður alltaf. Bændur fá ríkisstyrki gegn því að framleiða ákveðið magn af ákveðnum hráefnum. Listamenn fá styrki til að skrifa bækur og mála málverk sem eru þóknanleg opinberum starfsmönnum eða nefndum sem ríkisvaldið fjármagnar, eða fara a.m.k. ekki í taugarnar á þeim sem úthluta. 

Ríkisstyrktir fjölmiðlar verða fjölmiðlar ríkisvaldsins. Stöð 2 verður RÚV 2. Fréttablaðið verður Ríkisfréttablaðið. Stundin verður Stundin okkar 2. 

Menntamálaráðherra ætti að skammast sín.


mbl.is Útilokar ekki að ríkið styðji fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Hey, heyr. Fáheyrt rugl í rádherranum. Er hann genginn úr Flokknum og yfir til VG? Ekki eykst hródur hans vid thetta, svo mikid er víst.

Gódar stundir, med kvedju ad sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 13.1.2016 kl. 16:06

2 identicon

Það er munur á hægri mönnum og vinstri mönnum hvað þetta varðar. Hægri mönnum finnst sjálfsagt að hygla eigin flokksystkinum og láta sig oftast hæfni engu varða.

Vinstri menn hugsa meira um þjóðarhag og hafa því frekar tilhneigingu til að velja þann hæfasta. Þetta er auðvitað viss einföldun en þó nærri lagi.

Í kapítalísku þjóðfélagi er nauðsynlegt að jafna kjörin með greiðslum úr ríkissjóði þó að ekki væri nema til að koma í veg fyrir að ójöfnuðurinn aukist enn frekar.

Slíkar greiðslur eru sanngjarnar til að vega upp á móti göllum kerfisins. Þeir efnaminni þurfa td að greiða mun hærri vexti en hinir auðugu þó að þeir hafi síður efni á því.

Ásmundur (IP-tala skráð) 13.1.2016 kl. 16:18

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásmundur,

Mér finnst meira við hæfi að skilja hugtökin "hægrimenn" og "vinstrimenn" sem mælikvarða á tortryggni gagnvart ríkisvaldinu. Sá sem er mjög til hægri væri þá, skv. þessum skala, mjög tortrygginn á allt ríkisvald á meðan sá til vinstri væri mjög hlynntur miklum ríkisafskiptum sem víðast. Hægrimaðurinn væri um leið mjög hrifinn af hinu frjálsa framtaki þar sem fólk velur og hafnar með viðskiptum sínum á meðan vinstrimaðurinn vill frekar eiga sem mest af sínum samskiptum og viðskiptum við einn aðila - ríkisvaldið.

Um leið verður ljóst að "mikill" hægrimaður er tæplega að fara beita stjórnmálaflokkum til að toga í spotta. Miklu nær væri að vinstrimaðurinn hefði hug á slíku enda eru stjórnmálaflokkar eina leiðin til að stjórna hegðun og atferli ríkisvaldins (gefið að það bjóði upp á kosningar). 

Meintur "þjóðarhagur" er svo ekki til í umhverfi hins stóra og sterka ríkisvalds. Ríkisvaldið framleiðir engin verðmæti. Það getur bara neytt þeirra eða flutt á milli vasa. 

Geir Ágústsson, 13.1.2016 kl. 21:09

4 identicon

Afstaða hægri manna annars vegar og vinstri manna hins vegar til ríkisvaldsins hefur minnst með tortryggni að gera. Þetta er spurning um sérhagsmunagæslu eða að standa vörð um almannahag.

Þó að hægri menn vilji sem minnst ríkisafskipti er af og frá að vinstri menn vilji ríkisvæða sem mest. Afstaða hægri manna minnir á trúarbrögð en vinstri menn vilja að skynsemi og hagsýni ráði hvað sé á vegum ríkisins og hvað á vegum einkaaðila.

Að grafa undan opinberu heilbrigðiskerfi og menntakerfi til að greiða fyrir leið einkavæðingar er skýrt dæmi um afstöðu hægri manna til stórtjóns fyrir almenning.

Það er sagt að Kári Stefánsson hafi gert hægri mönnum mikinn grikk með jáeindaskannanum sem hann gaf LHS. Þannig kom hann í veg fyrir að einkaaðilar gætu stórhagnast með einokum á slíkri þjónustu. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 13.1.2016 kl. 22:28

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásmundur,

Það var nú aldeilis gott að Kári hafði efni á jáeindaskanna. Megi einstaklingar í auknum mæli fá svigrúm til að skapa verðmæti, halda í þau verðmæti og sjálfir ákveða í hvað verðmætum þeirra er eytt (án þess að þú gagnrýnir innræti þeirra svona harkalega). 

Geir Ágústsson, 14.1.2016 kl. 04:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband