Ekki rétt að útiloka en ...

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, sagði í þættinum Eyjunni í dag það vera áhugaverðan kost að mynda stjórn Pírata og Sjálfstæðisflokks. Píratar hefðu víða skírskotun til kjósenda en þyrftu að fara í meiri málefnavinnu áður en hægt væri að fullyrða um slíkt samstarf. 

Nú er auðvitað ekki rétt að útiloka samstarf við einn né neinn fyrirfram. Til að mynda voru margir að máta saman Sjálfstæðisflokk og Vinstri-græna á sínum tíma vegna andstöðu beggja flokka við ESB-aðild og þótti það vera áhugaverð hugmynd. Eins má finna ágæta samsvörun við málflutning einstaka Sjálfstæðismanna og einstaka Pírata. En eftir slíkar hugaræfingar ber að staldra við.

Sjálfstæðisflokkurinn er í ákveðinni tilvistarkreppu. Hann hefur sótt mjög á miðjuna og reynt að klóra til sín fylgi þaðan. Um leið hefur hann vanrækt stuðningsmenn sína í hópi frjálshyggjumanna og annarra sem kalla sig ýmsum nöfnum en eru yfirleitt tortryggnir á ríkisvaldið.

Píratar hafa að hluta náð í fylgi frjálshyggjumanna. Píratar hafa líka náð í fylgi frá stækasta vinstrinu. Þeir eru óskrifað blað og margir vilja bjóða fram blýantinn sinn og skrifa á það blað. Það að kjósa Pírata er því ekki kosning á einhverri hugsjón eða almennri stefnu heldur hálfgert lottó: Vonandi nær þingmaðurinn eða frambjóðandinn sem heillaði mig inn á þing en ekki hinir Píratarnir sem boða eitthvað allt annað!

Þetta er auðvitað bæði styrkur og veikleiki Pírata. Þeir rúma að því er virðist allar skoðanir en standa um leið ekki fyrir neina stefnu, hvorki almennt orðaða né þröngt skilgreinda. Að ræða samstarf við slíkan flokk hlýtur að vera háð því nákvæmlega hvers konar þingmenn ná kjöri fyrir flokkinn. Ef þeir eru yfirgnæfandi sósíalistar er eðlilegt að Píratar endi í vinstristjórn, en annars má hugsanlega máta þá í samstarfi sem gengur út á að minnka ríkisvaldið og styrkja eignarrétt borgaranna.

Sjálfstæðismenn ættu að skrá hjá sér langan lista af fyrirvörum áður en þeir tala um að samstarf við Pírata sé áhugaverður kostur - mun lengri en ritari Sjálfstæðisflokksins býður upp á!


mbl.is Samstarf við Pírata spennandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Flokkur án stefnu í skattamálum á í raun ekki rétt til að hafa stefnu í útgjaldamálum.

Að því leiti eru Pí-ratar vart annað en ein stór vinsældakosning.

Óskar Guðmundsson, 11.1.2016 kl. 08:18

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er vissulega góður punktur. Píratar hafa nú samt leyft Samfylkunni að leggja til bæði skattheimtu- og útgjaldahugmyndir fyrir sig. Það veit ekki á gott:

http://samfylkingin.is/Frettir/ID/4305/Sameinu_stjornarandstaa_me_fjarlagatillogur

Geir Ágústsson, 11.1.2016 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband