Föstudagur, 8. janúar 2016
Lögreglan er í eðli sínu einokunarfyrirtæki
Það gera sér vonandi allir grein fyrir því að lögreglan er í eðli sínu einokunarstofnun. Hún hefur ein stofnana leyfi til að svipta menn frelsi og læsa inni. Hún ein getur fært menn inn í dómssal og látið þá svara fyrir gjörðir sínar. Hún ein getur heimsótt fólk sem borgar ekki skattana sína og dregið það út og læst inn í búri.
Íslendingar tala oft um að hér og þar sé einokun í gangi og að slíkt skaði almenning og neytendur. Það er líka rétt. Mörg fyrirtæki sitja á bak við skjöld af tollum, lögum og skilyrðum sem verja þau beint eða óbeint fyrir samkeppni. Slík fyrirtæki mæta ekki sama markaðsaðhaldi og önnur fyrirtæki. Það er munur á því að reka sjoppu og stofna banka. Það er erfiðara að stofna banka en sjoppu - fleiri reglur, skilyrði og lágmörk sem hamla samkeppni. Bankar græða meira en sjoppur. Sjoppur geta síður gengið að viðskiptavinum sínum sem vísum hlut.
Nákvæmlega hið sama gildir um lögregluna og jafnvel í meiri mæli. Lögreglan þarf ekki að óttast samkeppni eða markaðsaðhald. Óánægðir skjólstæðingar hafa ekki um aðra kosti að velja. Þeir verða að hringja í lögregluna eftir innbrot þótt þeir viti að svarið sé að lögreglan hafi ekki tíma og geti ekkert gert (hún er upptekin við að hella niður áfengi unglinga og gera kannabisplöntur upptækar).
Lögreglan víða um heim rekur innra eftirlit af einhverju tagi en það breytir engu. Innra eftirlit er skipað starfsmönnum sem búa við sömu varnir gegn samkeppni og aðrir lögreglumenn. Á þá að skipa eftirlit með eftirlitinu? Hver gætir þeirra sem eiga að gæta okkar?
Einokun hefur aðra fylgifiska í för með sér. Hvernig eiga yfirvöld að vita hvað er rétt verð á löggæslu? Hvenær er löggæslan orðin of mikil? Það er alltaf hægt að kaupa meiri og meiri löggæslu en hvenær hættir aukið fjármagn að skila sér í aukinni löggæslu? Það er engin leið til að vita neitt af þessu í fjarveru markaðsaðhaldsins.
Íslensk yfirvöld ættu að huga að einkavæðingu lögreglunnar en til vara hluta hennar. Um leið mætti fækka töluvert þeim boðum og bönnum sem gilda á Íslandi á t.d. allskyns neyslu og framleiðslu allskyns varnings. Það fækkar töluvert verkefnum lögreglunnar.
Þeir sem styðja einokun láta sér auðvitað ekki segjast en aðrir sem eru efins um ágæti einokunar ættu að hugleiða að hugsa aðeins út fyrir kassann sem ríkisvaldið byggir í kringum okkur.
Ný stofnun lyktar af popúlisma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:24 | Facebook
Athugasemdir
"...kærur og kvartanir á hendur lögreglumönnum séu flestar þeirra tilefnislausar eða byggðar á misskilningi..." Segir hver? Nú, löggan auðvitað!
corvus corax, 8.1.2016 kl. 14:32
og þú vilt gera hvað? Koma á einkavæddum lögæslufyirtækjum eins og eru til í að ég held, einu landi í heiminum? Slíkt þekkist í Suður Afríku. Reynslan þar.. Ja gúgglaðu það og skrifaðu svo annað blogg handa okkur ;o)
ólafur (IP-tala skráð) 8.1.2016 kl. 14:38
ólafur,
Það geri ég með ánægju þegar tíminn leyfir en mér þykir þú djarfur að nota eitthvað dæmi á stangli (og frá Afríku) til að svara fyrir ríkiseinokun á löggæslu og uppljóstrun glæpa.
Ég læt duga að vísa á eitt upplýsandi en um leið skemmtilegt vídjó frá Bandaríkjunum:
https://www.youtube.com/watch?v=3kEpZWGgJks
Geir Ágústsson, 8.1.2016 kl. 14:47
Já ég mun skoða þessa slóð. En þetta er ekki frá eh þróunarríki í Afríku. þetta er Suður Afríka. þeir hafa reynnt einkavædda löggæslu. Sem er alveg skelfileg. þarna eru hlutirnir þannig að venjulegt fólk fær lögregluna til að rannsaka mál... Með litlum árangri því lögreglumenn það er allir dugandi sem slíkir eru farnir yfir í einkafyrirtækin sem þeir ríku ráða til að ransaka sín mál.
Upphaflega voru þetta örggisþjónustur en í dag er þetta lögregla við hlið lögreglunar í landinu. Og til að toppa ruglið þá eru þessi fyrirtæki samanlagt jafn fjölmenn og bæði her og lögregla landsins! Já og allir vopnaðir og það betur en lögreglan!
ólafur (IP-tala skráð) 8.1.2016 kl. 15:39
Var að horfa á þetta. Magnað. En lögreglan í usa er alveg sér á báti. Sem og það land bara eins og það kemur fyrir. þetta er fasistaríki bara. En hvernig helduru að hlutirnir yrðu ef þeir mundi bæta þarna við einarekini lögreglu? ;o)
ólafur (IP-tala skráð) 8.1.2016 kl. 21:08
ólafur,
Þú nefnir dæmi um slæma löggæslu rekna af einkaaðilum og ég dæmi um aðra rekna af hinu opinbera (sem að vísu þú kallar "sér á báti" en er það bara ekki heldur miklu frekar dæmigerð fyrir þróunina víða um heim). Svona geta dagarnir alveg liðið. Það sem eftir stendur er almenna atriðið, að þú boðar hér ágæti ríkiseinokunar á meðan ég er gagnrýninn á slíkt fyrirkomulag, hér sem annars staðar.
Geir Ágústsson, 9.1.2016 kl. 11:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.