Uppskeran brennd

Lægstu laun eru lág. Ég get tekið undir það. Það er erfitt að lifa á þeim. Ég hef fullan skilning á því. Margir sem fá hærri laun en þau lægstu eiga erfitt með að setja sig í spor þeirra sem hafa lægstu launin. Sammála.

Að því sögðu get ég samt ekki séð skynsemina í því að fara í verkfall til að knýja á um launahækkun. 

Hér þarf að hafa óteljandi atriði í huga, og skulu nokkur nefnd.

Að laun séu í lægri kantinum er ekki slæmt fyrir alla. Fyrirtæki taka t.d. frekar áhættuna með ungt og óreynt starfsfólk, eða ótalandi innflytjendur, ef launin geta verið lág, a.m.k. til að byrja með. Með því að þvinga lægstu taxtana upp er verið að búa til atvinnuleysi fyrir þá sem eiga hvað erfiðast með að komast inn á atvinnumarkaðinn. (Þetta vita verkalýðsfélög reyndar, og nýta sér óspart til að minnka eftirspurn eftir vinnuafli og halda launum uppi.)

Að laun eigi að hækka umfram getu fyrirtækja til að greiða laun hefur sömu afleiðingar. Fyrirtæki þurfa að segja upp fólki ef launakostnaður hækkar of mikið. Þetta mættu eigendur fyrirtækja gjarnan hafa miklu oftar í huga þegar þeir ákveða laun æðstu stjórnenda. Æðstu stjórnendur eru samt ekki dýrasti útgjaldaliðurinn. Kannski gleymist þess vegna að halda aftur af hækkun launa þeirra.

Laun er alltaf hægt að hækka til lengri tíma. Til dæmis geta fyrirtæki fjárfest í tækni og tækjum sem auka verðmætasköpun hvers starfsmanns. Kannski þarf þá færri starfsmenn, en þeir verða verðmætari. Að leggja niður vinnu er eins og að eyðileggja tækjabúnað og bitnar alvarlega á fyrirtækjum sem verða fyrir barðinu á verkföllum. Þeim er oft bannað að ráða starfsfólk til að fylla í skörð þeirra sem mæta ekki í vinnuna. Sjóðir þurrkast upp, pantanir hverfa og tekjurnar frjósa. Hvernig eiga fyrirtæki í slíkri stöðu að geta greitt hærri laun?

Framundan er sumar sem fyrir marga þýðir aukin vinna og jafnvel yfirvinna. Verkföll svipta fólk í þeirri stöðu miklum tekjum.

Samúð mín fyrir þeim sem eru fastir í gamaldags kjarabaráttu valdamikilla verkalýðsfélaga við "samtök" atvinnurekenda er mikil. Þetta er fólk sem virðist aldrei mega fá hærri laun án þess að það sé kallað aðför að kaupmætti og stöðugleika í samfélaginu á meðan topparnir raka til sín fé.

Kannski er kominn tími til að hugsa út fyrir rammann, t.d. með því að hætta þessum "kjarasamningum" heilu hópanna af misleitum hópi einstaklinga, og leyfa fólki að semja á einstaklingsgrundvelli við atvinnurekendur sína. Þá munu góðir starfsmenn uppskera meira, og þeir lélegu minna, sem aftur verður þeim hvati til að gera betur eða finna sér eitthvað annað að gera. 


mbl.is Félagar SGS kjósa um verkfallsboðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Eða koma á vinnustaðasamningum.  Innan atvinnugreina er jafnmisleitur hópur fyrirtækja, rekstrarlega séð, og meðal starfsmanna.

Kolbrún Hilmars, 13.4.2015 kl. 17:00

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Já hví ekki.

Kona sem stendur mér mjög nærri fékk t.d. þær upplýsingar að ekki væri hægt að hækka laun hennar meira - hún væri komin í hæsta "taxtann" í launaflokki hennar skv. kjarasamningi og við það staðnæmdustu þær viðræður.

Fékk líka að vita það einu sinni sem unglingur í sumarstarfi að laun mín kæmust ekki hærra innan ramma kjarasamnings. 

Þetta er tvíeggja sverð sem bitnar fyrst og fremst á þeim sem vilja skara fram úr.

Geir Ágústsson, 13.4.2015 kl. 19:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband