Þriðjudagur, 10. febrúar 2015
Bless, draugur 20. aldar
Ríkisverslun er draugur frá 20. öld sem tók við af frjálsara fyrirkomulagi 19. aldar (a.m.k. á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum). Fasismi, kommúnismi og jafnaðarmennska lögðust á 20. öld á eitt við að smíða ríkisvald sem mátti gera hvað sem er á meðan það þjónaði einhverjum "æðri" eða "göfugri" markmiðum öðrum en að senda lögreglumenn á glæpamenn og landamæraverði á móti innrásaraðilum.
Ýmis afsprengi ríkisdýrkunarinnar finnast enn í dag. Ríkisvaldið á að sögn að geta stemmt stigu við of lítilli samkeppni, keypt og selt ýmislegt og gert það betur en einkaaðilar, smíðað reglur um öryggi á vinnustöðum, lengt líf okkar, aukið læsi barna, ræktað gagnrýna hugsun í börnum og passað upp á sparnaðinn í bankanum.
Ekkert af þessu stenst. Það eina sem ríkisvaldið gerir er að sópa til sín verkefnum og gefa fólki þá ranghugmynd að það geti núna hent sér blint aftur á bak með lokuð augun út í hvaða vitleysu sem er og ef eitthvað fer úrskeiðis er fóstruríkið tilbúið að grípa í þéttriðið öryggisnet sem flækir suma í sér til dauðadags. Enginn þarf að taka ábyrgð á sínu lífi, haga lífsstíl sínum þannig að heilsukvillar séu í lágmarki, tryggja sig fyrir áföllum, leggja fyrir, mæta til vinnu, passa peningana sína, stilla neyslu sinni í hóf eða halda lántökum innan viðráðanlegra marka.
Fasisminn, kommúnisminn og jafnaðarmannskan úthluta ríkisvaldinu svo umfangsmiklum verkefnum að fólk telur, með réttu eða röngu, að það sem ríkisvaldið bannar ekki sé hættulaust. Áfengi er löglegt svo drekkum það þar til lifrin bilar. Tóbak er leyfilegt svo reykjum það þar til við þurfum niðurgreidd lungnaþembulyf. Lántökur eru leyfilegar svo stundum þær þar til stjórnmálamenn lofa að bjarga okkur frá þeim.
Ábyrgðartilfinning einstaklinga - þeirra sem þekkja eigin líf best allra og eigin líkama um leið - hefur verið undir stórkostlegri árás með þeim skiljanlegu afleiðingum að menn líta á ríkisvaldið eins og stranga mömmu sem veit best.
Að ríkisvaldið reki smásöluverslanir eru fornminjar frá 20. öld og má gjarnan koma fyrir í litlum glerskáp og setja við hann skiltið: "Dagurinn sem ríkisvaldið skilaði því að hluta sem það tók á sínum tíma af frjálsu samfélagi."
Verslun ekki hlutverk ríkisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.