Föstudagur, 6. febrúar 2015
Þingmenn raða sér í tilvitnanabækurnar
Ég hef áður bent á að þingmenn og aðrir ætli að nota umræðuna um breytt fyrirkomulag á áfengissölu á Íslandi til að raða sér í tilvitnanabækur framtíðarinnar.
Hérna er einn gullmoli í viðbót, sem Vefþjóðviljinn tekur svo ágætlega fyrir.
Í tilvitnanabækur framtíðarinnar á eftirfarandi tvímælalaust heima:
Þetta mál er engan veginn tilbúið og þetta er mál sem að bannar ríkisrekstur. Það er nefninlega það að þegar menn eru að tala um aukið frelsi þá er það gert þegar er verið að banna ríkisrekstur, segir Guðbjartur, en varla sé hægt að tala um aukið frelsi þegar lagt sé til bann á aðkomu ríkisins að smásölunni á sama tíma.
Einhvern tímann tekst að hrinda aftur ríkiseinokun á áfengissölu á Íslandi. Þegar sá dagur kemur legg ég til að andstæðingar þeirrar breytingar verði settir undir rækilega smásjá almennings til að athuga hvort þeir nýti sér nýfengið frelsi til að kaupa sér rauðvín með matnum um leið og þeir kaupa matinn, eða öl með pizzunni, eða snakk með ölinum. Hinn möguleikinn, að kaupa alltaf áfengi í sérstökum áfengisverslunum (sem spretta eflaust upp líka ef svigrúm er gefið til þess), stendur þeim væntanlega áfram opinn þótt ríkisvaldið standi ekki í þeim verslunarrekstri.
Það er svo áhyggjuefni út af fyrir sig ef einhver lítil nefnd á Alþingi getur hreinlega komið í veg fyrir að Alþingi fái mál til meðferðar af því að hún var skipuð einhverjum siðapostulum og smákóngum í hrossakaupum þingflokkanna við upphaf þings.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.