Bæði og

Ég bý í Danmörku og finnst alltaf gaman að sjá hvernig fréttir frá Danmörku eru bornar á borð Íslendinga. Nokkrar athyglisverðar tilvitnanir í þessa frétt eru, að mínu mati, sem ég tek fyrir eina í einu:

"Helmingur Dana vill að hömlur verði settar á þann fjölda múslíma sem fær að búa í landinu ..."

Ég hef aldrei heyrt neinn Dana tala um ákveðinn fjölda. Hinsvegar finnst mörgum eins og að hægja eigi á innstreymi erlendra múslíma og jafnvel útlendinga af öllu tagi. Innflytjendur eru hlutfallslega miklu fleiri meðal glæpamanna og bótaþega. "Kerfið" sem Danir hafa byggt upp er komið nálægt þolmörkum víða og væri það eflaust ef innfæddir Danir drægju einir úr því lífið, og hvað þá þegar innflytjendur leggjast á sömu árar.

"... innan við fimm prósent Dana eru múslímar."

Það er rétt. En þeir eru nú samt nokkuð áberandi víða. Þeir búa gjarnan í sömu hverfum og blokkum og valda sumir hverjir miklum staðbundnum vandræðum. Þótt hinn venjulegi hvíti Dani búi í úthverfi einbýlishúsa þá sér hann alveg þyrpingar múslíma í nálægum hverfum og stendur stuggur af, sumpart skiljanlega. 

"Talsmaður danska Þjóðarflokks­ins, sem berst gegn inn­flytj­end­um ..."

Þessa kynningu á þessum flokki hef ég aldrei séð áður. Flokkurinn berst vissulega fyrir takmörkunum á fjölda innflytjenda og hælisleitenda og skorar mörg atkvæði út á það, en að hann berjist beinlínis gegn innflytjendum - það er nýtt fyrir mér! 

(Þess má geta að þetta er vinstriflokkur sem mér dytti ekki nokkurn tímann í hug að kjósa.)

"Hann seg­ir að umb­urðarlyndi og skiln­ing­ur Dana á stöðu annarra eigi und­ir högg að sækja."

Er það skrýtið? Segjum að ríkur maður sem búi í stóru húsi bjóði öllum sem vilja um að gista hjá sér og borða úr ísskáp sínum. Hann tekur við öllum. Dag einn rennur upp fyrir honum að gestirnir eru farnir að ganga mjög á eignir hans. Á hann að halda áfram að hleypa gestum inn þar til hann er gjaldþrota eða á hann á einhverjum tímapunkti að byrja takmarka aðgengið? 

Og það er það sem er að gerast í Danmörku. 

Sjálfur er ég nú innflytjandi í Danmörku og held í minn íslenska ríkisborgararétt. Danir hafa ekki dæmt mig af öðru en áhuga mínum á dönskum bjór og súrum mat. Á mínum vinnustað eru Indverjar, Króatar, Frakkar, Spánverjar, Norðmenn, Íranir og margt fleira. Allir vinna saman. Umburðarlyndi Dana er mikið þegar allir synda í sömu átt. Það er fyrst þegar menn byrja beinlínis að bíta í höndina sem fóðrar þá að umburðarlyndið gefur eftir.

Skiljanlega. 


mbl.is 50% Dana vilja takmarka fjölda múslíma í landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Danski þjóðarflokkurinn er auðvitað ekki vinstri flokkur heldur þvert á móti hægri popúlistaflokkur eða hægri öfgaflokkur.

Wikipedia:

The Danish People's Party (DPP) (Danish: Dansk Folkeparti, DF) is a political party in Denmark which is described as right-wing populist by academics[2][14][15] to "far-right" by the international media.

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.2.2015 kl. 10:55

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Þessi flokkur vinnur að stækkun ríkisvaldsins. Hann vill aukin fjárútlát, hefur aldrei barist sérstaklega fyrir skattalækkunum (a.m.k. ekki almennum skattalækkunum), og vill styrkja hina og þessa afkima hins opinbera. Það sem mætti kalla "hægri" við hann er stuðningur flokksins við minnihlutastjórnir flokka sem berjast almennt ekki fyrir hærri sköttum og stærra ríki, en ekki mikið meira en það.

En jú, það má kokgleypa hinar hefðbundnu skilgreinar. Gott og vel. 

Geir Ágústsson, 5.2.2015 kl. 11:12

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Flokkurinn á oftar en ekki samleið með dönsku sósíaldemókrötunum svo það sé líka nefnt og slást jafnvel um sömu kjósendur. Dæmi:

http://www.dr.dk/Nyheder/Politik/2015/01/02/194918.htm

Svo nei takk. 

Geir Ágústsson, 5.2.2015 kl. 11:14

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Einmitt.  Eftirfarandi innlegg átti að fara hér en fór á flakk, - en hér það komið:

 Það sem er rétt í þessu, að mínu mati, er að fjölmiðlar hér uppi vilja oft gera línurnar miklu skarpari en þær eru.  Sá sem ekkert þekkti til Danmerkur gæti haldið að danski fólkaflokkurinn væri barasta í stöðugum bardögum við muslima eða innflytjendur.  

Er ekki svoleiðis.

Upplegg DF var öðruvísi hér í gamla daga og margir virðast fastir í því.

DF er búinn að vera svo lengi og meðlimimum hefur verið treyst fyrir ýmsu, þ.e. þeir hafa þurft að axla ábyrgð, - að upplegg þeirra í þessum málum er miklu vægara en oft er sagt hér eða látið í veðri vaka.

En þessi flokkur er náttúrulega hægri-flokkur.

Annað dæmi má nefna um ruglanda íslenskra fjölmiðla varðandi Danmörku en það er þegar ísl. fjölmiðlar fara að tala um dönsku krónunna.

Íslenskir fjölmiðlar eru að gefa villandi og ranga mynd af Danmörku og þetta er land sem bara er rétt hjá og Ísland hefur hvað mesta samband við sögulega og menningalega til lengri tíma litið og það land sem sett hefur ákveðið mark á Ísland - og umfjöllun fjölmiðla er um það land er mikið til bara eitthvað rugl.

Hvernig halda menn þá að umfjöllun fjölmiðla sé um aðtriði eins og Sambandið?  Allt bara mikið til eitthvað bullumþvaður.

Enda vita margir íslendingar ekki neitt um umheiminn.  Sem sjá má td. af því, krúsíalt dæmi, að þingmaður hérna hélt að Malta væri ekki sjálfstætt ríki.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 5.2.2015 kl. 12:15

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Mjög gott. 

Ég fer að gefast upp á hugtökunum "Hægri" og "Vinstri". Ef hægrimenn eru allt í senn stjórnmálamenn sem vilja þenja út ríkisvaldið og láta það vasast í hvers mann koppi um leið og það heldur útlendingum í burtu, en líka þeir sem vilja afnema ríkisvaldið og einkavæða allt, þá er hugtakið orðið of vítt til að vera nothæft. 

Geir Ágústsson, 5.2.2015 kl. 13:49

6 identicon

Flokkar sem vilja mismuna þegnunum, td vegna kynþáttar eða trúarbragða, eru alltaf hægri flokkar vegna þess að slík mismunun samrýmist ekki þeim mannréttindum sem jafnaðarmennska byggir á.

Þetta eru yfirleitt öfgahægri flokkar vegna þess að þeir ganga lengra en hefðbundnir hægri flokkar í því frjálsræði sem hægri flokkar boða.

Þegar íslenski þjóðernisflokkurinn hætti gengu félagar hans upp til hópa í sjálfstæðisflokkinn sem ótvírætt stóð honum næst. Sumir komust þar til æðstu metorða.

Það breytir engu um hægri eða vinstri hve miklar skatttekjur eru innheimtar eða hve ríkisrekstur er umsvifamikill. Áratugina fyrir hrun jók sjálfstæðisflokkurinn ríkisrekstur og skatttekjur gífurlega.

Það sem hins vegar skilur að hægri og vinstri er hvernig skattheimtan skiptist á milli tekjuflokka og hvernig skattfénu er varið.

Vinstri flokkar vilja hlífa þeim lægst launuðu við háum sköttum og verja skattfé í almannaþágu. Þeir vilja tiltölulega há skattleysismörk en háa skattprósentu á hæsta skattþrep.

Hægri flokkar hafa hagsmuni ríkra og tekjuhárra í fyrirrúmi við skattlagningu. Þeir vilja helst flatan skatt á allar tekjur og hafa tilhneigingu til að verja sem mestu skattfé til sérhagmunahópa.

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.2.2015 kl. 14:41

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Tökum dæmi:

Hinn danski þjóðarflokkur gefur sig út fyrir að standa vörð um það sem er danskt. Hann er mjög vinsæll. Hann sækir atkvæði sín til sósíaldemókrata og ýmissa miðjuflokka. 

Annar danskur flokkur, Liberal Alliance, talar hátt fyrir frjálsara samfélagi, lægri sköttum og minna skrifræði. Maður þarf að grafa djúpt á heimasíðu hans til að finna eitthvað um innflytjendur (hef ekki fundið neitt sjálfur). 

Að danski þjóðarflokkurinn sé á einhvern hátt, af einhverju tagi, flokkaður "lengra til hægri" en Liberal Alliance væri í besta falli villandi og versta falli afbökun. Nema þú sért hér með að jarða hugtökin hægri-vinstri í stjórnmálum.

Geir Ágústsson, 5.2.2015 kl. 20:22

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Efnahagslega já.

Það að ,,vera til hægri" er sett saman úr nokkrum þáttum.  

Það er þessi áhersla DF á þjóðernið eða allt það sem danskt er, gammel dansk, og félagslega íhaldssemi - sem þýðir það að staðsetningin er langt til hægri.

Þetta er popúlískur hægriflokkur.  Sumir mundi jafnvel segja öfgahægriflokkur.  Það er eitt einkenni þesskonar flokka, að taka viss félagsleg mál uppá sína arma.  Hjá DF var það gamla fólkið.   (Það síðasta sem DF fann uppá var dýravernd.  Jú jú, gott málefni.)

DF getur alveg stundum verið stuðandi og þá er það uppá síðkastið oftast orðið í kringum kosningar, auglýsingar oþh. og má td. nefna áróðurinn gegn byggingu mosku í Köben.  Það var soldið stuðandi, fannst mér.

En síðan er flokkurinn formlega yfirleitt miklu settlegri í framgöngu og að mörgu leiti bara eins og hver annar flokkur.

En, og það skiptir máli að mínu mati, að danir fóru þá leið að láta þennan flokk taka  ábyrgð.  Gerðu það hægt og bítandi.  Þar með mildaðist flokkurinn, að mínu mati.

Þetta hentaði í Danmörku, - en efa að það henti í Svíþjóð.  Svíþjóðademókratar virka miklu ruglaðari en meðlimir DF.  Það eru líka yngra fólk í Svíþjóð.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 5.2.2015 kl. 22:28

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er viljandi að ég kalla mig mun oftar frjálshyggjumann en hægri mann. Þá ættu menn ekki að geta ruglað mér saman við "öfgahægri" sem vill (stundum) lægri skatta (eins og ég) en bann við moskum, eða "öfgavinstri" sem vill lögleiða kannabis (eins og ég) en skattleggja allt ríkt fólk út úr hagkerfinu. 

Geir Ágústsson, 6.2.2015 kl. 09:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband