Af hverju ekki 20.000 kjarasamningar?

Mörgum hefur verið talið í trú um að þeim sé betur borgið með því að fá laun samkvæmt kjarasamningum en að semja sjálfir við atvinnuveitanda sinn.

Ég sé einfaldlega ekki hvernig það getur verið rétt.

Kjarasamningar eru í umsjón stéttarfélaga. Rekstur þeirra kostar sitt. Stundum kostar hann svo mikið að stéttarfélögin byrja að byggja sumarbústaði og kaupa rándýrar íbúðir í erlendum stórborgum til að koma peningunum út. Þetta borga meðlimir félaganna fyrir, hvort sem þeir "nýta" sér gæðin eða ekki.

Kjarasamningar sópa mörgum mismunandi einstaklingum undir sama hatt og flokka með einföldum hætti, t.d. eftir menntun, starfsaldri og ábyrgð. Ekki er hægt að meta getu starfsmanna á blaði. Slíkt verður alltaf huglægt mat yfirmanna. Ekki er hægt að verðlauna afburðarstarfsmanninn sérstaklega. Ekki er hægt að draga úr kostnaði vegna lélegra starfsmanna. Þeir lélegu eru því niðurgreiddir á kostnað þeirra bestu. Slíkt er letjandi fyrir báða hópa. 

Kjarasamningar eru stórir samningar sem fela í sér stórar fjárhæðir. Að það takist að semja um 1% launahækkun eða 2% getur skipt miklu máli fyrir stóran hóp fyrirtækja. Hagsmunasamtök þeirra berjast því fyrir sem minnstum launahækkunum, því ef allt þarf að ganga yfir alla línuna er hætt við að rekstrargrundvellinum sé hreinlega kippt undan mörgum fyrirtækjum. Ef fyrirtæki gætu sjálf í auknum mæli samið við hvern og einn starfsmann sinn væri hægt að gera hlutina betur og snjallar: Verðlauna þá bestu með hærri hækkunum á meðan aðrir standa í stað - nema þeir bæti sig auðvitað.

Ríkisvaldið er samt útsjónarsamt. Það semur við stóra hópa í einu. Það hefur marga fyrirvara á. Ríkissjóður er tómur og skuldsettur á bólakaf. Margir hafa engan annan atvinnuveitanda til að leita til og eru því fastir í neti hins opinbera. Hjúkrunarfræðingar, svo dæmi sé tekið, þurfa að kyngja því sem þeim er skammtað, flytja úr landi eða skipta um starfsvettvang.

Þetta er hálfgert Stokkhólms-einkenni þar sem gíslar hins opinbera vilja hvergi annars staðar vera - en í gíslingu!

Dettur engum í hug að hugleiða annað fyrirkomulag?


mbl.is Hátt í 200 samningar lausir í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband