Þjóðnýtum gleraugnaverslanir!

Ég er með heilsukvilla sem óleiðréttur gerir mig nánast óstarfhæfan. Ég er nærsýnn. Mjög nærsýnn. Ekki er nóg með það heldur er ég líka með sjónskekkju. Án gleraugna eða augnlinsa kæmist ég ekki mikið lengra á daginn en úr rúminu og á klósettið og e.t.v. í ísskápinn þar sem ég gæti þreifað mig áfram eftir einhverju ætilegu. Óleiðréttur er heilsukvilli minn því nánast lamandi fyrir líf mitt.


Við mér blasir samt vandi. Ég get ekki notið heilbrigðiskerfis hins opinbera til að aðstoða mig við heilsukvilla minn. Skattpeningur minn fer ekki í lækningu eða meðhöndlun á þessum heilsukvilla mínum eða þróun á bættri eða ódýrari tækni til að eiga við hann. Ég þarf að leita til hinna svokölluðu einkaaðila! Þeir bíða í röðum eftir að taka við peningunum mínum og selja mér úrræði sem í ofanálagt eru skattlögð í himinhæðir af hinu opinbera. Það er því ekki nóg með að heilbrigðiskerfi hins opinbera geti ekki boðið mér neitt heldur þarf ég að borga skatt af þeim úrræðum sem mér þó standa til boða!


Þetta er auðvitað hneyksli og verður ekki leiðrétt nema með einni aðgerð: Þjóðnýtingu gleraugnaverslana! Í leiðinni mætti þjóðnýta alla aðstöðu til svokallaðra leiseraðgerða á augum sem geta læknað marga sjóndapra með allt að því varanlegum hætti. Skatta þyrfti auðvitað hækka til að geta útvíkkað hið opinbera heilbrigðiskerfi með úrræðum fyrir sjóndapra. Lýkur þar með öllum vandræðum þessa stóra hóps í samfélaginu. Rándýr tískugleraugu með glampafríu yfirborði og rispuvörn víkja fyrir hagnýtum lausnum, flöskubotnagleraugum sem rispast og stöðluðu úrvali af annars konar varningi. Hver veit, kannski tekst jafnvel að knýja augnlækna og sjóntækjafræðinga í stöku verkfall vegna óánægju með kjör!


En annar kostur er líka í stöðunni. Hann er að fleiri og fleiri með heilsukvilla fái notið þeirrar frábæru þjónustu, úrvals og samkeppni sem sjóndaprir njóta. Hann er sá að einkavæða heilbrigðiskerfi hins opinbera og um leið fækka rækilega í laga- og reglugerðarfrumskóginum í kringum heilbrigðisþjónustu af öllu tagi, auk þess að lækka skatta sem nemur rúmlega kostnaðinum við hið opinbera kerfi í dag.


Þá gæti einhverjum dottið í hug að spyrja: Hvað gerist ef ríkisvaldið dregur sig úr fjármögnun og veitingu heilbrigðisþjónustu? Um það er erfitt að spá. Eitt er víst: Ef þú fjarlægir kyrkjandi tak af dýri og hreinlega sleppir því lausu er ekki víst að það hlaupi í nákvæmlega þá átt sem þú sást fyrir, en engu að síður má fullyrða að dýrið muni nú vaxa og dafna og þrífast mun betur en áður.


Sjóndaprir geta keypt sér háþróaða tækni á blússandi samkeppnismarkaði framleiðenda, seljenda og sérfræðinga til að vinna á heilsukvilla sínum. Ég óska þess að þeir með annars konar heilsukvilla geti búið við sama ástand.

Geir Ágústsson

Grein birt í Morgunblaðinu 9. janúar 2014, aðgengileg áskrifendum hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband