Ríkisafskipti til bjargar afleiðingum ríkisafskipta

Hinn íslenski ríkissjóður skuldar gríðarlegar fjárhæðir. Skattar eru í himinhæðum. Báknið er stærra en nokkurn tímann áður. Engin af skemmdarverkum fráfarandi vinstristjórnar hafa verið dregin til baka og má það nánast kallast verra en að hafa framkvæmt þau skemmdarverk í upphafi. Hópar Íslendinga finna enga vinnu og aðrir hafa gefist upp og komið sér vel fyrir á spena opinberrar framfærslu. Ríkisrekstur lamar heilbrigðisþjónustu Íslendinga, menntastofnanir og landbúnaðinn, svo eitthvað sé nefnt. 

Hvað gerir ríkisvaldið svo til að draga úr sársaukanum sem leiðir af eigin ríkisafskiptum? Jú, eykur ríkisafskipti! Í stað þess að draga úr þunga hins opinbera og leyfa hagkerfinu að ná andanum og hefja nýjar leiðir til verðmætasköpunar er þeim atvinnulausu bara sópað inn í bótakerfið. Félagslegt húsnæði kemur í stað hins hefðbundna. Aðstoð af ýmsu tagi kemur í stað launaðrar vinnu sjálfbjarga einstaklinga. Allt er í raun gert til að viðhalda stærð og umsvifum hins opinbera en án þess að það komi niður á atkvæðatalningunni í næstu kosningum. 

Þeir sem kalla sig hægrimenn ættu að skammast sín fyrir þessa ríkisstjórn. Hún yrði flokkuð lengst til vinstri á öllum hinum Norðurlöndunum (íslensk pólitík er langt til vinstri miðað við t.d. þá dönsku). Tvö ár hefur hún haft til að gera eitthvað sem skiptir máli en hefur áorkað litlu öðru en að lækka sjónvörp í raftækjaverslunum um einhver prósent. 

Ég er hræddur um að næstu tvö ár þessarar ríkisstjórnar verði hennar seinustu og að fólk muni aftur falla fyrir vinstriflokkunum, enda eru þar á ferð hreinskilnir sósíalistar sem boða beinlínis stærra ríkisvald en ekki óhreinskilnir sem tala fyrir auknu svigrúmi markaðarins en róa síðan öllum árum að minna svigrúmi en til vara óbreyttu svigrúmi. 


mbl.is Aldrei jafn há framlög til félagsmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er undarlegt að tala fyrir skattalækkunum á sama tíma og miklar ríkisskuldir eru að sliga ríkissjóð og innviðir samfélagsins eins og heilbrigðis- og menntakerfið eru að hruni komin.

Sérstaklega er þetta undarlegt í ljósi þess að skattar eru hér frekar lágir í samanburði við þau lönd sem við berum okkur helst saman við, allavega skattar á háar tekjur og miklar eignir.

Í stað þess að afnema hæsta skattþrep, eins og til stendur á kjörtímabilinu, þarf að bæta við einu til tveimur þrepum til að ná samanburðarlöndunum. .

52% skattur á mánaðartekjur frá 1.200.000 upp í 1.600.000 og 58% skattur á tekjur yfir 1.600.00 væri ekki fjarri lagi. Í stað þess að afnema auðlindarskattinn hefði átt að bæta við allavega einu skattþrepi, td 1.75% skatt á eignir yfir 175 milljónir.

Það er ekki langt síðan að almenningur þurfti að greiða eignarskatt þótt eignin væri aðeins venjuleg blokkaríbúð með ekki of miklar áhvílandi skuldir, og venjulegur bíll. Rökin gegn auðlindarskattinum eru því fáránleg.

Sagan sýnir að þegar skattur á háar tekjur og eignir eru háir eru framfarir miklar. Tímabil með lága skatta á háar tekjur og eignir hafa hins vegar endað með hruni.

58% hæsta skattþrep er í raun ekki hátt í sögulegu samhengi. Það var yfir 90% í Bandaríkjunum á stríðsárunum og árin eftir stríð. Það lækkaði síðan niður í um 70% og hélst þar þangað til Reagan tók við sem forseti.

Hæsta skattþrep var hins vagar með lægsta móti 1929 og 2008.

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.1.2015 kl. 12:23

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ríkissjóður þarf að lækka skatta og lækka útgjöld enn meira svo svigrúm sé til skuldaafborgana. Það er einfaldlega sú sársaukafulla aðgerð sem þarf til að ná bæði fram auknu rými hagkerfis til að anda, og minnka skuldabyrðina á skattgreiðendum nú og seinna.

Talnaleikfimi þín með skattprósentur og persónulegar óskir um slíkar er ekki eitthvað sem "sagan" styður. Ef þú hleður miklu grjóti á bak múlasna mun hann ganga hægar en ef þú léttir byrðina á baki hans. 

Svo má ekki rugla saman "effective" skattprósentum og þeim sem eru í gildi fyrir alla frádrættina frá skattstofnum. Eða heldur þú að einhver auðkýfingur í USA árið 1950 hafi borgað 90% af einhverju í skatt? 

Geir Ágústsson, 4.1.2015 kl. 16:40

3 identicon

Hvers vegna þarf ríkisstjórnin að lækka skatta þegar tekjuþörfin er mikil til að greiða niður skuldir?

Ertu virkilega hlynntur skattalækkunum frekar en að lækka skuldir ríkisins um sömu upphæð til viðbótar við hugsanlegar skuldalækkanir af öðrum ástæðum? Hvers vegna í ósköpunum?

90% skattur á mjög háar tekjur voru lagðir á í Bandaríkjunum í stríðinu og á árunum eftir stríð til að borga miklar skuldir ríkisins og til uppbyggingar. Þetta bar mjög góðan árangur eins og sagan sýnir.

Hér er að sjálfsögðu ekki átt við að tekjuháir hafi greitt 90% skatt af öllum sínum tekjum heldur aðeins af þeim tekjum sem fóru yfir ákveðin mörk eftir að frádráttarliðir höfðu verið nýttir. Margir auðmenn hafa eflaust lent í 90 skatti með hluta tekna sinna.

Niðurskurður ríkisstjórnarinnar mælist almennt mjög illa fyrir hvort sem um er að ræða heilbrigðiskerfið, menntakerfið, RÚV, hinar ýmsu greinar menningar ofl. Hvar sérðu möguleika á niðurskurði?

Viltu kannski leggja alla slíka þjónustu niður svo að einkaaðilar geti tekið við henni? Reynslan af slíku í öðrum löndum er afleit fyrir allan almenning.

Til að komast hjá því að stórskaða opinbera þjónustu og til að greiða niður skuldir er nauðsynlegt að hækka skatta á mjög háar tekur og miklar eignir.

Í eftirfarandi hlekk má sjá að þegar Bandaríkin voru að ná sér eftir kreppuna miklu og heimsstyrjöldina voru skattar á hæstu tekjur í hæstu hæðum.

Þegar Bandaríkin voru enn talin fyrirmyndarríki og ameríski draumurinn var enn í góðu gengi var hæsta skattprósentan um 70%.

http://bradfordtaxinstitute.com/Free_Resources/Federal-Income-Tax-Rates.aspx

Einnig má sjá að í aðdraganda kreppunnar miklu og hrunsins 2008 var hæsta skattprósentan í lágmarki eða um og rétt yfir 30%.

Í hlekknum hér fyrir neðan má sjá að hæsta skattprósentan í þeim ESB-löndum sem við berum okkur helst við er miklu hærri en hér. Þetta eru mestu velmegunarlönd heims svo að háir skattar á mjög hár tekjur hafa greinilega skilað góðum árangri. Hæsta skattþrepið:

Svíþjóð 57%, Danmörk 61.03%, Finnland 61.96, Holland 52%, Belgía 64%, Frakkland 75%.

http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_tax_rates

Sýnir þetta ekki einmitt að háir skattar á mjög háar tekjur bera tilætlaðan árangur?

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.1.2015 kl. 18:14

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég efast um að þeir ríkustu í Bandaríkjunum finnist þeir borga of lítið í skatt. Efstu 25% borga nú þegar nálægt 90% allra tekjuskatta þar í landi, sjá t.d. hér:

http://www.rushlimbaugh.com/Pages/Static/Only-the-Rich-Pay-Taxes

Á sömu síðu er eftirfarandi tilvitnun: "In 1980, when the top income tax rate was 70%, the richest 1% paid only 19% of all income taxes; now, with a top rate of 35%, they pay more than double that share."

Ég held að þessar skattheimtuprósentur séu vægast sagt villandi tilvísun í einhverja týnda gullöld í Bandaríkjunum.

Kannski er eitthvað annað sem fór afvega í Bandaríkjunum en að skattprósentur yrðu stilltar þannig af að einhver tæki mark á þeim?

Ég er hlynntur sem mestu frelsi til samskipta og viðskipta = sem minnstu ríkisvaldi. 

Geir Ágústsson, 5.1.2015 kl. 07:42

5 identicon

Að sjálfsögðu finnst þeim ríkustu að þeir greiði ekki of lítið í tekjuskatt. Það á við flesta þeirra að því meira sem þeir þéna því gráðugri verða þeir.

Warren Beatty, einn sá allra ríkasti þeirra, ef ekki sá ríkasti, hefur hins vegar haldið því fram að skattar hinna ríkustu í Bandaríkjunum séu allt of lágir.

Ef þeir efstu 25% í BNA greiða 90% allra tekjuskatta endurspeglar það fyrst og fremst hve óhemju háar tekjur þeir hafa og hve margir eru tekjulágir. Þessi aukni ójöfnuður er fyrst og fremst afleiðing þess að skattar hinna tekjuhæstu hafa verið allt of lágir síðustu áratugina.

Af sömu ástæðum greiða 1% ríkasta fólksins samtals meira en tvöfalt hærra hlutfall tekjuskatta núna, þegar skattprósentan er 35%, en 1980 þegar hún var 70%. Tekjur hinna ríkustu hafa hækkað hlutfallslega miklu meira en sem nemur lækkun á hæsta þrepi tekjuskatts.

Það er því ekkert villandi við það að hæsta tekjuskattsprósentan hafi lækkað úr 70% niður í 35%. Tölurnar sem þú vísar í sýna aðeins slæmar afleiðingar þess. Þær geta því verið mjög villandi ef menn átta sig ekki á hvað veldur.

Hækkun skatta hinna ríkustu er sanngirnismál. Kapítalískt kerfi virkar þannig  að hinir ríkustu hafa lítið fyrir því að auka auð sinn á meðan hinir fátækustu hafa litla sem enga möguleika á að losna úr snörunni.

Jöfnun tekna, með síhækkandi skattþrepum eftir því sem tekjur aukast, er því nauðsynleg til að koma í veg fyrir aukinn ójöfnuð. Að öðrum kosti eykst hann stöðugt og endar með hruni eins og dæmin frá 1929 og 2008 sýna en þá hafði hæsta skattprósentan verið við lágmarkið um árabil eftir mikla lækkun.

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.1.2015 kl. 10:52

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Ætli við verðum ekki að verða sammála um að verða ósammála um hvað okkur finnst vera "sanngirnismál" og að ójöfnuður sé í sjálfu sér af hinu illa og að ríkisvaldið eigi að taka úr vasa sumra til að afhenta öðrum?

Geir Ágústsson, 5.1.2015 kl. 15:14

7 Smámynd: Geir Ágústsson

En svo ég taki eftirfarandi fram til að forðast misskilning:

Það angrar mig ekkert að nágranni minn þéni tvöfalt á við mig fyrir jafnmikla eða jafnvel minni vinnu, að því gefnu að hann geri það á eigin forsendum og þannig að hann hafi ekki aðstöðu til að beita ríkisvaldinu á aðra til að hafa af þeim verðmætin eða meina aðgang að einhverjum markaði sem hann vill sitja einn að í skjóli valdboðs.

Það sem angrar mig er að sumir geti beitt ríkisvaldinu, lögreglunni, löggjafanum og hinu opinbera almennt til að hræra í samfélaginu - flytja fé frá einum til annars, loka mörkuðum fyrir samkeppni, mismuna fyrirtækjum eftir starfsgreinum, leyfa sumum en banna öðrum.

Það angrar mig að sjá bankana beita ríkisvaldinu eins og múr gegn hugsanlegum samkeppnisaðilum. Það angrar mig að sjá landbúnaðarkerfið á Íslandi beita ríkisvaldinu til að stjaka frá sér samkeppni. Það angrar mig að sjá ríkisvaldið refsa sumum sem auðgast með verðmætasköpun til að verðlauna þá sem hafa staðið sig verr í að þjónusta viðskiptavini sína. Það angrar mig að sjá menn berja frá sér í allar áttir með skattheimtuvendinum af því sumir eiga erfitt með að sofa á nóttunni þegar einhver þénar betur en aðrir.

Það angrar mig að samfélagið sé þannig skrúfað saman að öfund er hið ríkjandi afl, að skuldsetning sé verðlaunið, að velgengni í viðskiptum sé fordæmd og að þeir sem starfi fyrir ríkisvaldið séu álitnir dýrðlingar sem megi traðka öðrum.

Þeir sem umbera ríkisvaldið og ljá því réttlætisblæ mega alveg éta, í heilu lagi:

- Þá spillingu sem ríkisvaldið setur í lög.

- Þær slæmu afleiðingar sem fjötrar á frjáls samskipti og viðskipti hafa í för með sér.

- Þá meinloku að láta atkvæðaeltandi kjaftaska stjórna okkur, á meðan þeir snjöllustu eða útsjónarsömustu í viðskiptum eru fordæmdir fyrir að ganga vel að sinna viðskiptavinum sínum.

Geir Ágústsson, 5.1.2015 kl. 15:36

8 identicon

Ég er ekki að halda því fram að ójöfnuður sé af hinu illa. Ég held þvert á móti að það beri að umbuna fólki sem leggur sig fram. Annars er hætta á menn sjái enga ástæðu til þess.

Hins vegar er nauðsynlegt að halda ójöfnuðinum i skefjum því að annars vex hann hröðum skrefum og endar að lokum með hruni eins og sagan sýnir.

Reynsla Evrópuþjóða af að stemma stigu við aukningu ójöfnuðar með hærri sköttum á hæstu tekjum hefur reynst vel. Þess vegna eigum við að taka okkur þær til fyrirmyndar.

Þegar ríki skuldar mikið og ekki er til fé til að halda uppi sómasamlegri opinberri þjónustu á að sækja aukið féð þangað þar sem það er, hjá hinum auðugustu og tekjuhæstu.

Það er ekki bara eina raunhæfa leiðin. Hún er einnig sanngjörn því að auðmenn geta að miklu leyti þakkað kerfinu fyrir að þeim hefur tekist að raka til sín auðæfum.

Það er sanngjarnt og efnahagslega hagkvæmt að auðnum sé að hluta skilað tilbaka þangað sem hans er þörf frekar en að hann lendi í skattaskjólum erlendis.

Hvort einhver er öfundsjúkur út í annan kemur málinu ekkert við. Þetta eru efnahagsmál. Togstreita milli einstaklinga um þeirra einkahagi er málinu óviðkomandi.

Hér er ekki um það að ræða að það sé verið að seilast í vasa einstaklinga. Þetta er leiðrétting á skekkju sem kerfið býður upp. Leiðréttingin fer reyndar að mestu fram áður en féð fer i vasa einstaklinganna.

Skattkerfi með sífellt hækkandi tekjuskattsþrepum er nauðsynlegt samtryggingarkerfi velferðarþjóðfélaga. Þannig er komið í veg fyrir að fólki sé vísað á guð og gaddinn fyrir það að missa heilsuna eða lenda illilega í efnahagslegum hamförum, svo að dæmi séu tekin.

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.1.2015 kl. 20:10

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásmundur,

Hvað finnst þér þegar fyrirtæki hækkar verð en rýrir vöruna/þjónustuna?

Geir Ágústsson, 6.1.2015 kl. 13:11

10 identicon

Það er auðvitað fúlt. Hins vegar geta verið gildar ástæður fyrir því eins og td hækkun á innkaupsverði, lækkun á gengi krónunnar eða launahækkanir.

Einnig gæti reksturinn verið í járnum og hærri álagning því verið nauðsynleg ef hann á að bera sig. Það gæti hins vegar leitt til minni sölu og þess vegna ekki þjónað tilgangi sínum.

Það er þó eins líklegt að salan minnki ekkert því að Íslendingar eru mjög lítið meðvitaðir um verð. Sumir myndu jafnvel frekar kaupa vöruna á hærra verði vegna þess að þeir meta gæði hennar eftir verðinu.

Krónan er afskaplega heppilegur gjaldmiðill fyrir kaupmenn sem vilja blekkja viðskiptavinina. Vegna mikillar verðbólgu hækkar verðlag títt sem gerir viðskiptavinum erfitt fyrir að fylgjast með því.

Tíðar hækkanir gera kaupmönnum auðvelt að hækka meira en tilefni er til og sleppa því að lækka verð td þegar gengið krónunnar hækkar.

Þetta eru þó alls ekki verstu gallarnir við krónuna, sem að mati þeirra sem vit hafa á og eru ekki í afneitun, er ónýt.

En hvað kemur þetta annars umræðuefninu við?

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.1.2015 kl. 15:09

11 Smámynd: Geir Ágústsson

"... Íslendingar eru mjög lítið meðvitaðir um verð"

Ég tek undir þetta, heilshugar. Þeir hafa til dæmis séð ríkisvaldið þrútna út í eitt undanfarin 20 ár og sætta sig við að fyrir meira og meira fáist minna og minna. Á einum stað (http://www.t24.is/?p=6361) segir til dæmis: 

"Að teknu tilliti til fólksfjölgunar var rekstur ríkisins tvöfalt dýrari að raunvirði á síðasta ári en 1980 ... Með öðrum orðum: rekstur hins opinbera kostaði hvert heimili að meðaltali um 450 þúsund krónur í hverjum mánuði. Árið 1980 var mánaðarlegur kostnaður innan við 180 þúsund krónur á verðlagi síðasta árs."

Og upp á hverju er stungið? Hækka skatta! Hækka skatta á þá sem eiga hvað auðveldast með að flýja út úr landi, flýja með fjármuni í skjól, á þá sem eiga sennilega greiðastan aðgang að þrýstihópum sem hafa áhrif á veikgeðja stjórnmálamenn!

Sé það rétt, sem þú segir, að "auðmenn geta að miklu leyti þakkað kerfinu fyrir að þeim hefur tekist að raka til sín auðæfum", þá sé ég alveg að það eigi við um suma (dæmi: http://andriki.is/post/105386591124) en ekki flesta. Hluthafar í vel reknum fyrirtækjum, t.d. Högum og Datamarket, geta varlað þakkað sérsniðinni löggjöf fyrir velgengni sína. Á hinn bóginn má færa rök fyrir að bankamenn sitji í öruggu skjóli opinberra markaðsaðgangshindrana og maki þar krókinn.

Geir Ágústsson, 6.1.2015 kl. 18:21

12 identicon

Það þarf að hækka skatta til að standa undir núverandi kostnaði. Þjóðin er alls ekki tilbúin til að stórskaða heilbrigðiskerfið, menntakerfið eða hinar ýmsu greinar lista og menningar.

Það er ekki hægt að skattpína almenning meira. Þess vegna verður að hækka skatta á þá ríkustu og tekjuhæstu, bæði eignaskatta og tekjuskatta.

58% hæsta skattþrep er í raun hóflegt miðað við 90% Í Bandaríkjunum í og eftir stríð og 70% fram til 1980. Af nágrannalöndunum eru Danmörk, Finnland, Belgía og Frakkland með enn hærra hæsta skattþrep.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.1.2015 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband