Allt er bannað nema það sem er sérstaklega leyft

Á Íslandi (og víðar, auðvitað) er ríkjandi ákveðinn hugsunarháttur sem gengur út á að allt sem er ekki sérstaklega leyft er bannað, eða að allt sem er ekki sérstaklega bannað er ekki sérstaklega skaðlegt.

Þessi hugsunarháttur gengur út á að einstaklingar geti óhultir sturtað öllu ofan í sig sem leyfilegt er að sturta ofan í sig án þess að bera skaða af. Hugsunarhátturinn gengur líka út á að ríkisvaldið hafi eftirlit með öllu og öllum og passi að enginn fari sér að voða.

Þess vegna er t.d. talið óhætt að drekka sig ofurölvi eða leggja peningana sína inn á bankabók því hérna hefur ríkisvaldið gefið út sérstök leyfi og hefur með höndum allt eftirlit og því sé með öllu óhætt að athafna sig án þess að fæða með sér vott af sjálfstæðri hugsun.

Orkudrykkir eru, að mér sýnist, á leið á sérstaka lista hins opinbera yfir það sem er leyfilegt og hvað ekki fyrir ákveðna aldurshópa eða fólk með ákveðið heilsufarsástand. Sumum verður leyft og öðrum ekki. Þeim sem er leyft túlka leyfið sem grænt ljós á hegðun án hugsunar. Þeim sem verður bannað túlka það sem áskorun - áskorun um að komast framhjá hinu opinbera eftirliti og taka smá áhættu með eigin heilsu, enda er allt sem er bannað gjarnan talið spennandi, sérstaklega hjá ungu fólki.

Framundan eru sérstakar leiðbeiningar og jafnvel reglugerðir sem fjalla um sykurneyslu, fituneyslu, hjálmanotkun, hlífðarfatnað í vondum veðrum og svona má lengi telja. Af nægu er að taka fyrir hið opinbera eftirlit sem smátt og smátt er að koma í staðinn fyrir sjálfstæða hugsun hjá fólki.

Og forræðishyggjufólkið klappar og finnst það hafa áorkað miklu. Það er víst talið mikilvægast. 


mbl.is Leita læknis vegna orkudrykkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í hinum flókna heimi er ómögulegt fyrir almenna borgara að fylgjast með hvað er heilsusamlegt og hvað skaðlegt. Það er því æskilegt að hið opinbera sjá til þess að fólk verði sér ekki að voða með því að takmarka aðgang að skaðlegum neysluvörum.

Jafnvel þó að menn vilji fylgjast með að einhverju leyti getur það verið erfitt vegna þess að um leið og vísindalegar rannsóknir sýna fram á skaðsemi ákveðinnar vöru rísa upp á afturfæturna þeir sem eiga hagsmuna að gæta um að varan seljist áfram. Mikill áróður hefst þá gegn rannsóknariðurstöðunni.

Í Bandaríkjunum eru hagsmunir framleiðanda og seljenda í fyrirrúmi á kostnað neytendaverndar. Í Evrópu er þessu öfugt farið. Þar er neytendaverndin í fyrirrúmi. Þrátt fyrir EES er tilhneigingin á Íslandi svolítið að hætti Bandaríkjanna, því miður. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 22.12.2014 kl. 16:03

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Vá...

1: Heimurinn er ekki svo flókinn.

2: hinn almenni borgari sem hefur nóg vit til að kunna á allar hinar fjölmörgu græjur nútímans, svo vel sé, hlýtur að finna á sér hvort honum verður illt af einum mat eða öðrum.  Hann er ekki skynlaus.

3: Hið opinbera þarf ekki að segja mér hvað ég þarf og þarf ekki að borða.

4: vísindalegar rannsóknir, sem birtast oft í blöðum, eru alltaf gróflega einfaldaðar ef ekki beinlínis misskildar og mistúlkaðar.

5: " rísa upp á afturfæturna þeir sem eiga hagsmuna að gæta um að varan seljist áfram. Mikill áróður hefst þá gegn rannsóknariðurstöðunni."

Þessi samsæriskenning virkar í báðar áttir.  Hvað heldur þú til dæmis að "skrárgatið" sé?  Það eru hagsmunasamtök, með ítök.

6: Ég er alveg viss um að þú veist *ekkert* um neytendalöggjöf í USA, og alveg jafn mikið um sömu löggjöf í EES.

Ásgrímur Hartmannsson, 22.12.2014 kl. 18:01

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Látum okkur sjá. Í fréttinni eru orkudrykkir til umræðu. Þeir innihalda koffín og allskyns önnur efni. Margir drekka þetta fyrir próflestur og aðrar "tarnir". Núna á að gera það að veseni og svartamarkaðsbraski (koffíntöflur og amfetamín eru nú þegar á hillum svartamarkaðssölumanna - á að bæta koffíndrykkjum þarna við?). Hvað gerist þegar orkudrykkir verða óaðgengilegir? Fara unglingar þá að leita í eitthvað ennþá sterkara - og dýrara - af sölumönnum annarra óaðgengilegra vörutegunda?

Nú fyrir utan skilaboðin sem á að senda: Ríkisvaldið ákvað að frjáls viðskipti og neysla stálpaðra ungmenna á lítillega örvandi gosi eigi að vera háð leyfisveitingum og verða málefni lögreglu.

Nei, þetta er hættuleg braut sem endar á því að Ásmundar heimsins sitja við fín skrifborð og skammta leyfum og undanþágum til fólks frá blautu barnsbeini til hárrar elli. Og á meðan blómstrar stækkandi svartur markaður og virðingarleysi fólks gagnvart góðum og gildum lögum minnkar samhliða minnkandi virðingu fyrir öllum hinum vitleysu-lögunum.

Geir Ágústsson, 22.12.2014 kl. 20:15

4 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Ja, segjum svo að orkudrykkir yrðu bannaðir.  Sem er hægt, og ekkert ólíklegt.  Þá er ekkert sem keppir við amfetamín, sem er ekki jafn mikið vesen að framleiða.  Og það hefur talsvert meiri áhrif.  Því er hægt að blanda í kaffi ef stemming er fyrir slíku.

Ásgrímur Hartmannsson, 22.12.2014 kl. 22:17

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Hvort sem það yrði amfetamín eða ekki þá er ljóst að EINHVERJAR afleiðingar yrðu af því að takmarka aðgengi að vinsælum örvandi og ódýrum drykkjum. Ungmenni munu finna EITTHVAÐ annað, og sennilega eitthvað sterkara (minna magn sem er minni áhætta að meðhöndla í leynd), og sjáum þá hvað verður um þá sem eru hjartveikir eða að öðru leyti viðkvæmir fyrir örvandi efnum.

Geir Ágústsson, 23.12.2014 kl. 08:33

6 identicon

Þetta er skrítinn pistill. Í fréttinni sem vísað er í er hvergi talað um að banna eitt né neitt. Aðeins er bent á slæmar afleiðingar þess að drekka orkudrykki. Er krafa frjálshyggjumanna um frelsi komið á það stig að ekki megi gefa slíkar upplýsingar? Það væri þá meira frelsið.

Að allt sé bannað nema það sé sérstaklega leyft er auðvitað algjör firra. Þessu er auðvitað öfugt farið. Það er helst að lögfræðingar í hópi frjálshyggjumanna túlki lögin með þessum hætti þvert gegn anda þeirra í vörn sinni fyrir sakborninga.

Staðhæfingar Ásgríms Hartmannssonar um að hinn almenni borgari finni á sér hvort honum verði meint af því sem hann innbyrðir eru með miklum ólíkindum. Það getur tekið mörg ár, jafnvel áratugi, að átta sig á slæmum áhrifum eða af hvaða völdum þau stafa.

Ásmundur (IP-tala skráð) 23.12.2014 kl. 09:23

7 identicon

Eftir því sem ríkisvaldið sinnir eftirliti og vörnum af meira kappi þá eykst þörfin. Nú lifa heimskingjar lengur og fjölga sér. Og stækkandi hluti þjóðarinnar er ófær um að stunda eðlilega varkárni og sjálfstæða hugsun. Heilalausum sauðum fjölgar og valdastéttirnar styrkja sig í sessi. Mesta ógn við valdastéttirnar er hugsandi lýður.

Vagn (IP-tala skráð) 23.12.2014 kl. 14:01

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Þetta minnir mig á lítið myndbrot ..

https://www.youtube.com/watch?v=icmRCixQrx8

Geir Ágústsson, 24.12.2014 kl. 10:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband