Fimmtudagur, 30. október 2014
Að fá leyfi eða uppfylla kröfur
Á Íslandi þarf að fá leyfi fyrir svo mörgu. Engum er treyst. Menn þurfa að sanna að þeir uppfylli lögin áður en þeir gera eitthvað sem reynir á lögin.
Þetta var orðað á skemmtilegan hátt í litlu viðtali við einn af athafnarmönnum Íslendinga fyrir nokkrum misserum:
Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekkert gera fyrr en öll leyfi eru komin.
Þá vitum við það!
Að menn þurfi að þvælast á milli stofnana sem vita varla af hver annarri kemur ekkert á óvart þegar viðhorf yfirvalda er svona.
Hérna gætu Íslendingar lært mikið af Dönum (að því gefnu að Íslendingar vilji einhvern tímann apa eitthvað uppbyggilegt eftir hinum Norðurlöndunum en ekki bara verstu boðin og bönnin og skattana). Í Danmörku er unnið að því að einfalda kerfið sem er nú þegar mjög einfalt. Viðhorfið hérna er: Óli uppfinningamaður á ekki að drukkna í skriffinnsku, heldur geta einbeitt sér að vinnunni. Hann á ekki að þurfa eyða fúlgum í allskyns leyfi og binda mikið fé til að komast af stað.
Hann á bara að geta sótt um kennitölu og á fljótlegan hátt lært að gera upp gagnvart yfirvöldum og þá er hann kominn í gang.
En kæru Íslendingar, ástæðan fyrir því að ríkisvaldið traðkar á ykkur með leyfisumsóknum, himinhárri skattlagningu og þrúgandi regluverki er einföld. Hún er ykkar eigið viðstöðuleysi. Ríkisvaldið mun alltaf reyna að stækka sig og gera fleiri háða sér. Það er einfaldlega í eðli fyrirbæris sem hefur einokunarvald yfir lífum og sálum borgara sinna. Það sem vantar er viðspyrna og hún er lítil og veik.
Svo kæru Íslendingar, hættið að kvarta eða takið þátt í baráttunni gegn ríkisvaldinu!
Þvælast á milli stofnana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:37 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.