Þriðjudagur, 19. ágúst 2014
Gleymum ekki stjórnmálamönnunum
Í allri umræðu á Íslands gleymist oft að vorkenna stjórnmálamönnum. Þeir eru jú fólk líka, sem hafa hagsmuna að gæta og með tilfinningar sem þarf að taka tillit til. Þótt fólk hafi boðið sig fram til að stjórna öðrum er ekki þar með sagt að það hætti að vera manneskjur, er það?
Tökum til dæmis umræðuna um skatta. Mörgum finnst þeir of háir, skattkerfið of flókið og ríkissjóður of frekur á fé landsmanna. Lagt er til að lækka skatta og einfalda skattkerfið, og jafnvel draga úr umsvifum ríkisins! En hvað verður þá um stjórnmálamanninn? Hann hefur úr minna af fé annarra að moða. Hann þarf kannski að sjá á eftir vinsældum sem skattféð aflaði honum. Hann þarf kannski að gefa eftir aðstoðarmenn og fjölmiðlafulltrúa, fá minni skrifstofu, ferðast sjaldnar um fríhöfn Keflavíkurflugvallar og fær færri klukkustundir í sjónvarpi landsmanna.
Við megum ekki gleyma stjórnmálamanninum og hans hagsmunum og tilfinningum. Ef hann hefur úr minna af fé okkar að moða hvernig á hann þá að tryggja endurkjör sitt? Hvernig á hann þá að ráða yfir okkur?
Annað dæmi er regluverkið. Sumum finnst það of flókið. Sumt má flytja inn og sumt ekki. Sumt má flytja inn án tolla og annað ekki. Sumt er niðurgreitt og annað ekki. Sumt má selja í hvaða búð sem er, hvenær sem er, og annað ekki. Þessi frumskógur heldur stjórnmálamönnum við efnið. Við frumskóginn má alltaf bæta. Lögfræðingar lifa í vellystingum.
Sumar hjartalausar manneskjur hafa engu að síður, í ljósi alls þessa, lagt til að reglufrumskógurinn verði skorinn niður, jafnvel niður í einn lítinn runna sem allir sjá og skilja. Sagt er að það muni einfalda líf hins almenna borgara, auka viðskipti við útlönd og viðskipti útlanda við Íslendinga, auka skilvirkni, skapa verðmæti, bæta velferð landsmanna, fjölga tækifærum og minnka óvissuna í umgengni við ríkisvaldið. En hvað með aumingja stjórnmálamanninn? Hvað á hann að gera ef hann getur ekki í sífellu bætt trjám í frumskóginn og flækjum þar sem engar voru?
Á stjórnmálamaðurinn kannski bara að vera heima og gráta allan daginn úr verkefnaskorti? Á hann ekki að fá að ráða neinu? Á hjörð embættismanna að fara á vergang og neyðast til að finna vinnu hjá einkaaðilum? Er ekki nóg atvinnuleysið fyrir?
Miskunnarleysi þeirra sem berjast fyrir lægri sköttum og færri reglum er takmarkalaust. Ekkert tillit er tekið til stjórnmálamannsins, sem vill bara fá að eyða fé okkar og stjórna lífum okkar. Þessu tillitsleysi mótmæli ég.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.